Erling Garðar Jónasson
Erling Garðar Jónasson
Eftir Erling Garðar Jónasson: "Stefán Stokkseyringur þóttist sjá dóm í júlí-árásinni og kvað ljóðið „Á okkur dæmist á sukkinu sökin. Og svelta því megum um ókomna tíð“."
Fyrirsögnin er skoðun framkvæmdarstjóra eldri borgara í Reykjavík í Kastljósi RÚV og það er rétt. Elligleði sækjum við aldraðir til Félaga eldri borgara, sem hafa þarfa og innihaldsríka starfsemi fyrir okkur á ævikvöldi, enda flest okkar í Samtökum aldraðra, félagar í þeim félögum líka vegna og fyrir gleðina og gáskann.

En að Björgvin Guðmundsson stjórnarmaður í félagi framkvæmdarstjórans og aðrir stjórnarmenn séu að barma sér eða fyrir hönd umbjóðenda sinna þegar þeir rita sínar lærðu greinar um afkomu aldraðra í kjölfar þeirra gífurlegu skerðinga og eignaupptöku sem átt hefur sér stað er hrein fásinna. Það er eitthvað mikið að hjá þeim sem þannig hugsar. Nei og aftur nei, verk þeirra er varnar- og sóknarbarátta fyrir minnihlutahóp sem var og er búinn að leggja sitt af mörkum við að byggja upp menningarstyrk íslenskrar þjóðar, almennar tryggingar og tryggingarsjóði sem við aldraðir eigum skilið að njóta af á ævikvöldi í stað eignarnáms og margsköttunar.

Þann veruleika sem ríkir í málefnum aldraðra má skilgreina án flækju.

Það er næsta ómögulegt að dansa frá drunganum fyrir alltof marga eldri borgara.

Það er næsta ómögulegt að ná framfærslu fyrir alltof marga eldri borgara.

Það er næsta ómögulegt að eiga fyrir lyfjum fyrir alltof marga eldri borgara,

Það er næsta ómögulegt að eiga sparifé fyrir eldri borgara.

Það er næsta ómögulegt að vera vinnufús eldri borgari.

Það er næsta ómögulegt fyrir eldri borgara að eiga fyrir þjónustugjöldum sveitarfélaganna.

Það er næsta ómögulegt að fá pláss á dvalar- eða hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara.

Ljóst er orðið fyrir þó nokkru, að aldraðir eiga fáa pólitíska málsvara í flokkaflórunni.

Þann 1. júlí 2009 gerði félagsmálaráðherra skyndibreytingar á lögum um almannatryggingar, þannig að lífeyrissjóðstekjur hefðu áhrif á útreikning grunnlífeyris og var frítekjumarkið sett við 214.602 kr. Auðfengnir miljarðar þar í ríkissjóð, enginn spurður, ekkert samráð, bara rússnesk tilskipunaraðferð valdstjórnar. Slíkir gerendur ættu að hafa vit á að skammast sín. Nú er svo komið að margur aldraður Jón og aldraðar Gunnur hafa 1.50 kr. af hverjum tíu í tekjur en ríkið hirðir 8.50 kr. Með sinni aðferð. Stefán Stokkseyringur þóttist sjá dóm í júlí-árásinni og kvað ljóðið: „Á okkur dæmist á sukkinu sökin. Og svelta því megum um ókomna tíð,“ Já, já – það gæti verið að við höfum einhverja sök, en hún er ekki svo fyrirferðarmikil að nauðsyn sé að svelta okkur af stjórnvöldum með gerningum sem eru andstæðir grunnlögum málefnis.

Ísland er ríkt land að verðmætum gæðum sem veita okkur allt sem við þurfum og meira til, svosem dekurmál sérsinna í lista- og menningarmálum og ýmislegt annað sem við höfum haft efni á. En því miður er ýmislegt sem voru ekki efni til að byggja og enn síður að reka, s.s Tónlistarhöll.

Þetta hefur okkur tekist með því að nýta og nota rétt náttúruauðlindir landsins til sjávar og sveita.

Við verðum að hætta að hlusta á heimsendakjaftæði í íslenskri umræðu. Krafa landsmanna er auðvitað að auka hag sinn – efla menningu sína – skapa börnum sínum þau skilyrði til hugar og handar að sambærilegt sé við það besta í samfélagi þjóða. Þess vegna verðum við m.a. að nýta auðlindir okkar, virkja, nýta og njóta af fullri reisn en detta ekki í drullupolla kommatittanna sem sífellt vilja búa til pólitíska þröskulda.

Samtök aldraðra hafa líka lagt sitt af mörkum í kjarabaráttu aldraðra. Samtökin skulda engum neitt og hafa aldrei fengið fjárhagslegan styrk, hvorki frá ríki né Reykjavíkurborg á sínum næstum 40 ára starfsferli, ólíkt öðrum sambærilegum félögum og standa því á styrkum fótum í þeirri baráttu. Ekki einu sinni tónleikastyrk frá Sif úr Framkvæmdarsjóði aldraðra eins og sumir.

Samtökin ætla áfram að mæta til framtíðarverkefna með sína reynslu og óþrjótandi elju í góðu samstarfi við alla þá sem sýna og sanna að þeir séu verðugir samstarfsaðilar, lausir við blaður, sýndarmennsku og innihaldslausa afrekaskrá í hagsmunagæslu fyrir eldri borgara frá fæðingu til þessa dags. Eða þá stjórnmálamenn sem hafa vilja og þor til leggja sitt af mörkum til að aldraðir búi við reisn á ævikvöldi.

Samtök aldraðra voru stofnuð 1973 í þeim tilgangi að vinna að hagsmunagæslu fyrir eldri borgara með fimm meginmarkmið að leiðarljósi.

1. Stuðla að byggingu hentugra íbúða fyrir aldraða.

2. Vinna að aukningu á sjúkrarýmum fyrir aldraða.

3. Stuðla að bættri þjónustu hins opinbera við aldraða í heimahúsum.

4. Stuðla að samvinnu við hliðstæð félög.

5. Vinna gegn því að öldruðum sé íþyngt með skattaálögum.

Í heildstæðri löggjöf um málefni aldraðra nr. 125/1999 segir um tilgang laganna: Lögin fela í sér þau markmið að gera öldruðum fært að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er og að öldruðum sé tryggð þjónusta þegar hennar er þörf og í samræmi við þarfir.

Að lokum: Með lögum skal land byggja!

Höfundur er formaður Samtaka aldraðra.