Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur: "Hinn síungi Heimdallur hefur sinnt mikilvægu og vandasömu hlutverki um að vinna ungt fólk til fylgis við sjálfstæðisstefnuna..."
Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, var stofnað hinn 16. febrúar 1927 og fagnar því 85 ára afmæli sínu um þessar mundir. Félagið var þá fyrsta stjórnmálafélag ungs fólks hér á landi, og hefur frá upphafi verið stærsta félag sinnar tegundar á landinu. Heimdallur var stofnaður til þess að fylkja ungu fólki á bak við stefnu Íhaldsflokksins undir forystu Jóns Þorlákssonar, sem sameinaðist Frjálslynda flokknum tveimur árum síðar í Sjálfstæðisflokknum.

Hlutverk Heimdallar frá upphafi hefur verið að berjast fyrir þjóðlegri og víðsýnni framfarastefnu í þjóðmálum með hagsmuni allra stétta fyrir augum, efla sjálfstæðisstefnuna og glæða áhuga ungs fólks á stjórnmálum með lýðræði og einstaklingsfrelsis. Þá hefur Heimdallur gegnt mikilvægu hlutverki sem samviska Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina, hvatt flokkinn og forystumenn hans til dáða og minnt þá á grunngildi flokksins. Enn er það hlutverk félagsins og hefur starf Heimdallar verið gríðarlega mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá upphafi.

Ungt fólk sem starfar í Heimdalli er ekki einungis að efla ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins heldur er það að vinna til heilla sjálfu sér og allri íslensku þjóðinni. Starf félagsins hefur eflst mjög undanfarin ár og starfa nú hátt í 70 manns í stjórn og deildum félagsins og um 7.000 manns eru skráðir í Heimdall. Félagið nær til sífellt fleira ungs fólks sem mikinn áhuga hefur að taka þátt í stjórnmálum og hefur heillast af sjálfstæðisstefnunni ekki síst andspænis þeirri hreinræktuðu vinstri stefnu sem heltekur íslenskt þjóðfélag um þessar mundir. Hugmyndabarátta ungra hægrimanna hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú þegar við völd er versta vinstristjórn sögunnar. Þá er mikilvægt er að standa vörð um réttarkerfið og tryggja sjálfstæði dómstóla á þeim umróts- og uppgjörstímum sem nú ganga yfir í íslensku þjóðfélagi. Í þeim málum þarf Sjálfstæðisflokkurinn áfram að sýna styrk og staðfestu.

Hinn síungi Heimdallur hefur sinnt mikilvægu og vandasömu hlutverki um að vinna ungt fólk til fylgis við sjálfstæðisstefnuna og sannfæra ungt fólk um að hagsmunum þess séu best borgið séu áhrif sjálfstæðisstefnunnar sem mest í þjóðfélaginu. Þeirri hugsjón þarf Heimdallur að vera trúr og halda þannig áfram að vinna traust ungs fólks á hugsjónum sínum. Flokkur sem ekki vinnur ungt fólk til fylgis við sig á sér enga framtíð.

Höfundur er formaður Heimdallar.