Philippe Girardon, einn af virtustu kokkum Frakklands, verður gestakokkur Perlunnar á Food & Fun í ár.
Philippe Girardon, einn af virtustu kokkum Frakklands, verður gestakokkur Perlunnar á Food & Fun í ár. — Morgunblaðið/Ásdís
Það er ekki ofsagt að goðsögn mæti til leiks í Perlunni í næstu viku þegar matarhátíðin Food & Fun hefst á hlaupársdag 29. febrúar. Það er enginn annar en hinn franski Philippe Girardon.
Girardon er eigandi og yfirmatreiðslumaður Michelinstjörnu-veitingastaðarins Domaine de Clairefontaine sem er fyrir sunnan Lyon í Frakklandi. Philippe hefur stjórnað Domaine de Clairefontaine frá árinu 1983. Árið 1997 fékk hann titilinn Meilleur Ouvrier de France. Philippe, sem er í hópi virtustu matreiðslumeistara Frakklands, er mikill Íslandsvinur og hefur tekið þátt í að þjálfa flestalla íslenska matreiðslumeistara sem hafa tekið þátt í hinni heimsþekktu Paul Bocuse keppni. Þá er hann öllum hnútum kunnugur í Perlunni en þangað kom hann fyrst sem gestakokkur árið 1996. jonagnar@mbl.is

Matseðill

Forréttur Humar- og krabbamosaik í sítrónumelíshlaupi, með austurlenskum salathjörtum og blómum skreytt

Ljós hörpudiskur og tómata-crème brûlée með jómfrúarsósu í nýjum búningi

Aðalréttur Lambið – bógurinn confit, fillet steikt, með nicois-grænmetis-cannelloni og kryddjurtasafa

Í croque-monsieur formi: fourme d‘Ambert/Mascarpone

Eftirréttur Súkkulaði-Stradivarius með „Pur Caraïbes“ súkkulaði, járnutaís og ristaðar hnetur

Andalifrarfrauð

300 gr. andalifur

2 egg heil

1 rauða

500 gr. rjómi

7 hvítlauksgeirar

1 búnt steinselja

Hvítlaukurinn og steinselja í matvinnsluvél, eggin og rauðan og rjóminn hrært saman.

Lifrin sett í matvinnsluvél með hvítlauknum, passa að hræra ekki mikið því lifrin má ekki hitna.

Allt blandað saman í restina og sigtað í gegnum fínt sigti, bakað í vatnsbaði 120°C í 45 mínútur.