Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir
Eftir Ernu Bjarnadóttur: "Forystumenn viðræðnanna af Íslands hálfu viðurkenna að ESB viðhafi sitt verklag og viðræðuferlið lúti lögmálum þess, ekki Íslands."
Viðræður um aðild Íslands að ESB hafa nú staðið hátt á annað ár en aðildarumsókn var lögð inn um miðjan júlí 2009. Viðræðunum er skipt í 33 kafla. Alls hafa verið opnaðir 11 kaflar og þar af er samningum lokið um 8 þeirra og þeim því lokað tímabundið. Í hinum þremur hefur ESB sett fram skilyrði fyrir lúkningu viðræðna. Þessir kaflar eiga það sameiginlegt að efni þeirra fellur undir EES-samninginn. Til viðbótar eru 10 kaflar sem falla undir EES en þeir eru allir enn í óvissu ásamt öðrum samningsköflum sem eftir standa.

ESB er búið að senda frá sér rýniskýrslur [1] um 11 kafla til viðbótar þeim 11 sem viðræður eru hafnar um. Í þeim hópi er að finna þá kafla sem flest helstu hagsmunamál Bændasamtaka Íslands falla undir. Í tveimur þessara kafla hafa verið sett skilyrði af hálfu ESB fyrir því að hefja samningaviðræður; í landbúnaði og byggðamálum. Af öðrum mikilvægum málaflokkum sem viðræður eru ekki hafnar um má nefna matvælaöryggi, sem dýraheilbrigði fellur undir, umhverfismál, tollamál, sjávarútvegsmál og fjármálaþjónustu. Fyrir tvo þá síðasttöldu er enn ekki komin rýniskýrsla frá ESB.

Í Morgunblaðinu þann 21. febrúar sl. segir Stefán Haukur Jóhannesson, formaður íslensku samninganefndarinnar, að ekki liggi fyrir hvenær erfiðu kaflarnir í samningaviðræðunum verða opnaðir. Hann vonast þar til að fimm kaflar verði opnaðir á ríkjaráðstefnu í lok mars en ekki er tilgreint hvaða kafla þar er um að ræða. Orðrétt segir síðan: „Við höfum lagt á það áherslu að opna þessa svokölluðu erfiðu kafla eins fljótt og auðið er en Evrópusambandið hefur sitt verklag“.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi verið óspör á yfirlýsingar um að erfiðu kaflana þurfi að opna sem fyrst. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lögðu t.d. hart að dönskum jafnaðarmönnum þegar þeir mynduðu ríkisstjórn í Danmörku að þeir opnuðu alla viðræðukafla gagnvart Íslandi á meðan þeir gegna formennsku innan ESB fyrstu sex mánuði ársins 2012.

Loksins nú eru forystumenn viðræðnanna af Íslands hálfu hins vegar farnir að viðurkenna að ESB viðhefur sitt verklag og að viðræðuferlið lúti lögmálum þess, ekki Íslands. Allt tal um að „kíkja í pakkann“ og sjá hvað stendur til boða er sannarlega blekking. Heimavinnu Íslendinga vegna opnunarskilyrða í landbúnaðar- og byggðamálum er ólokið og ekkert hefur frést af undirbúningi samningsmarkmiða fyrir viðræður um landbúnað. ESB vill heldur ekki ræða sjávarútvegsmál fyrr en það hefur lokið sinni heimavinnu, en endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar stendur þar yfir. Það hefur því reynst enn ein blekkingin að Ísland fengi aðild að endurskoðun hennar með því að sækja um aðild að ESB eins og haldið var fram á fyrri stigum.

Opið og lýðræðislegt ferli?

Í upphafi aðildarviðræðnanna var af hálfu stjórnvalda ítrekað rætt um nauðsyn þess að ferlið væri opið og fulltrúar hagsmunaaðila ættu breiða aðkomu að því. Þegar frá líður er ekki laust við að þetta sé farið að taka á sig aðra mynd. Einn fundur hefur sem dæmi verið haldinn í samningahópi um landbúnað síðan ESB kynnti opnunarskilyrði sín þann 5. september í fyrra. Stjórnvöld reyndu enn að klóra í bakkann með því að setja á fót samráðshóp undir forystu Salvarar Nordal. Leitað var eftir tilnefningum ýmissa hagsmunaaðila til þess starfs. Nú hefur komið fram að tilnefningum hagsmunaaðila var hafnað. Á sama hátt skipaði utanríkisráðherra 6 manns í samstarfsnefnd sem af hálfu ESB er skipuð fulltrúum hagsmuna- og félagasamtaka í Evrópu. Samráðsnefndinni er ætlað ráðgefandi hlutverk í viðræðunum. Þrátt fyrir þá miklu hagsmuni sem eru undir fyrir sjávarútveg og að 40% af fjárlögum ESB renna til landbúnaðar er enginn fulltrúi þessara aðila í nefndinni og ekki var leitað til samtaka þessara atvinnuvega við tilnefninguna.

Þá heyrir til algerra undantekninga að efni sem kemur frá ESB tengt viðræðunum sé þýtt á íslensku. Hvernig á almenningur að geta sett sig inn í flókið ferli þegar stærstur hluti þeirra gagna sem ESB leggur fram er aðeins til á ensku?

Hvað er framundan?

Það er sífellt að koma betur í ljós að ESB fylgir ákveðnu verklagi í viðræðunum við Ísland, verklagi sem er þekkt úr fyrri stækkunarviðræðum. Í framvinduskýrslu ESB frá síðastliðnu hausti [2] er víða minnst á að Ísland hafi ekki innleitt löggjöf ESB á tilteknum sviðum. Dæmið um stöðuna í viðræðunum nú varðandi sjávarútveg sýnir hins vegar glöggt að Ísland á ekki að vera gerandi í að móta löggjöf ESB í þessum viðræðum, slíkt hefur aldrei staðið til.

[1]Skýrsla sem felur í sér greiningu ESB á mun á löggjöf ESB og Íslands í einstökum málaflokkum.

[2]http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/key_documents/2011/package/is_rapport_2011_en.pdf

Höfundur er hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.