„Það laðaði mig að þessari starfsgrein að engir tveir dagar eru eins, alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt til að fást við,“ segir Garðar sem telur að það sé spennandi að vera kokkur á Íslandi í dag.
„Það laðaði mig að þessari starfsgrein að engir tveir dagar eru eins, alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt til að fást við,“ segir Garðar sem telur að það sé spennandi að vera kokkur á Íslandi í dag. — Morgunblaðið/Kristinn
Efnafræðieldhús og önnur uppátæki á Fiskfélaginu sem fær til sín nýjungagjarnan kokk frá norskri matarakademíu.

Við fáum hingað norskan snilling, Frode Laupsa, og af samskiptum okkar við hann við undirbúning Food and Fun-vikunnar virðist mér ekki hægt að segja annað en Frode lofi góðu,“ segir Garðar Kári Garðarsson, einn af yfirkokkum Fiskfélagsins. „Frode kemur frá matarakademíu, nokkurs konar matarþróunarstöð sem Norðmenn eiga, og er ekki ósvipað MATÍS okkar hér á Íslandi. Hann er lunkinn í því sem kalla má efnafræðieldhús og er örugglega með nokkur trikk uppi í erminni.“

Matseðill Frode og Fiskfélagsins segir Garðar að einkennist af norrænum straumum og spennandi tilraunastarfsemi.

Skemmtilegasti tími ársins

Food and Fun segir Garðar að sé skemmtilegasti tími ársins. „Það er gaman að taka hús á veitingastöðunum á svæðinu og sjá hverju þeir tjalda til. Kokkarnir sem koma hingað til lands færa líka með sér alls kyns fróðleik og síðustu þrjú árin höfum við t.d. fengið einstaklega klára og fróða matreiðslumenn. Þeir hafa komið með innblástur og hugmyndir inn á staðinn sem hafa nýst okkur löngu eftir að þeir eru farnir.“

Örvandi umhverfi

Garðar er frekar nýlega útskrifaður úr matreiðslunáminu en hann segir spennandi að vera ungur kokkur á Íslandi árið 2012. Að vinna á stað eins og Fiskfélaginu sé svo algjör draumur. „Það laðaði mig að þessari starfsgrein að engir tveir dagar eru eins, alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt til að fást við. Í dag er umhverfið líka sérstaklega frjótt og lifandi, hæfilegur rígur á milli staða, og samkeppnin mikil svo allir þurfa að vera á tánum.“

Íslendingar segir hann líka að geti verið stoltir af framboðinu, og matarmenningin sé að verða eitt af því sem laðar gesti til landsins. „Fólk kemur ekki bara til að sjá Geysi, Gullfoss og upplifa náttúruna, heldur er Ísland að fá á sig æ sterkari stimpil sem áhugaverður áfangastaður fyrir þá sem unna góðri matargerð.“ ai@mbl.is

Saltaður þorskhnakki

Fiskfélagsins

800 g þorskhnakki frá næsta fisksala, hreinsaður og þurrsaltaður í

4 klst.

500 g gróft salt

150 g púðursykur

4 kardimommur

ca 10 stk. rósapipar

1-2 stjörnuanís

mulið saman

Hindberjasulta

250 g hindber, fersk eða frosin

220 g sykur

30 g vatn

2 g salt

soðið saman

Blómkálsmauk

400 g blómkál

Skorið niður og sett í 600 g kalt vatn, 2 msk. salt út í.

Þetta er hitað þar til suða kemur upp þá er blómkálið tekið úr vatninu og sett í blandara með 200 g rjóma og 1 tsk. ediki, hyldeblómaedik er mjög gott með blómkáli.

Radísur, blómkál og hindber, sítrónuolía með smá sítrónu safa.

Brúnuð blómkáls- og kjúklingafroða

300 g kjúklinga soð

150 g blómkál

150 g rjómi

100 g smjör

salt og pipar

stjörnuanís

20 g olía

Blómkálið steikt gullbrúnt í olíunni, kjúklingasoðið soðið niður um helming í öðrum potti og blómkálinu, rjómanum og stjörnuanís bætt við.

Þetta er soðið í 30-40 mín. og smjörinu bætt við hægt og rólega í litlum kubbum og hrært vel á meðan, þetta er maukað með töfrasprota og smakkað til með salti og pipar, smáedik gefur líka góðan tón.