Í aðgerð Kona í Argentínu að nafni Claudia Rolon heldur á poka með sprungnum PIP-brjóstapúða sem hefur verið fjarlægður úr henni.
Í aðgerð Kona í Argentínu að nafni Claudia Rolon heldur á poka með sprungnum PIP-brjóstapúða sem hefur verið fjarlægður úr henni. — Reuters
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Aðgerðir til að fjarlægja PIP-brjóstapúða úr konum hófust á Landspítalanum síðastliðinn mánudag. Í gær var búið að fjarlægja púðana úr sex konum.
Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Aðgerðir til að fjarlægja PIP-brjóstapúða úr konum hófust á Landspítalanum síðastliðinn mánudag. Í gær var búið að fjarlægja púðana úr sex konum.

„Það sem hefur komið í ljós í þessum aðgerðum er að það er til í dæminu að púðar sem eru ekki taldir vera sprungnir í ómskoðun geta samt sem áður verið það. Það hefur komið í ljós að púði sem ekki var talinn sprunginn í ómskoðun reyndist leka þegar konan var skorin upp. Þá hafði lekur púði greinst í hinu brjóstinu en þessi virst heill,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala.

Aðgerðirnar hafa annars gengið vel. „Þær aðgerðir sem eru búnar hafa gengið mjög vel og snurðulaust fyrir sig. Nú er verið að meta hvernig flæðið er og verður í framhaldinu. Það kemur hugsanlega til greina síðar að gera meira átak í að fá konurnar í aðgerð, eftir því hver fjöldinn verður,“ segir Ólafur. Öllum konum, sem eru með PIP-brjóstapúða og eru sjúkratryggðar hér á landi, stendur til boða að fá púðana fjarlægða á Landspítalanum. Konurnar sex sem hafa komið í aðgerð voru allar með sprungna púða.

Ólafur segir að bókað sé jafnt og þétt í aðgerðirnar og passað upp á að þær konur, sem þurfi að vera í forgangi, komist að. „Við munum almennt setja í forgang þær konur sem eru með sprungna púða samkvæmt ómskoðun. Við stefnum að því að halda þessum dampi áfram, að púðarnir verði fjarlægðir úr sex til átta konum á viku að minnsta kosti. Ef það er þörf á að gera meira skoðum við það.“

Í sprungnum púðum getur sílikonið farið að leka út í nærliggjandi vefi. Segir Ólafur að aðgerðin sé þá svolítið snúnari en ef verið er að taka út heila púða. „Samkvæmt því sem skurðlæknarnir okkar segja þarf að skola og hreinsa töluvert mikið ef sílikonið er farið að leka. Það er mun snúnari aðgerð en að taka heilan púða úr.“