Sumir segja að samskiptasíður á borð við Facebook sameini fólk og séu velkomin viðbót við þá samskiptamöguleika sem áður voru fyrir hendi. Aðrir eru á gagnstæðri skoðun.
Sumir segja að samskiptasíður á borð við Facebook sameini fólk og séu velkomin viðbót við þá samskiptamöguleika sem áður voru fyrir hendi. Aðrir eru á gagnstæðri skoðun. Þeir segja Facebook og skyld fyrirbæri sundra fólki, því þegar fólk eigi stóran hluta félagslegra samskipta sinna á Facebook eigi það síður í annars konar samskiptum.

Það sem fólki fer á milli á samskiptasíðum segja þessir sömu vera yfirborðslegt og takmarkað þar sem fólk dragi upp fegraða og brenglaða mynd af sér í von um að það virki álitlegra en það er í eigin persónu. Ekki sé hægt að tala um raunveruleg samskipti, því að fólk komi ekki til dyranna í eigin persónu. Hvernig ætli samskipti okkar augliti til auglitis væru annars ef við værum alltaf að „póka“ hvert annað eða „læka“ aðra hvora setningu sem við látum út úr okkur? Svo ekki sé talað um ef við værum stanslaust að blikka á eftir hverju einasta orði, eins og tíðkast á Facebook.

Hvað sem er til í þessu, þá eru stöðuuppfærslur á Facebook kapítuli út af fyrir sig.

Eitt sinn þótti það óskaplega óviðeigandi hegðun hjá fullorðnu fólki að monta sig. Það var í mesta lagi að ungum börnum fyrirgæfist slíkt sökum æsku. En með tilkomu Facebook virðist mont hafa orðið að félagslega viðurkenndri hegðun. Til dæmis er ekkert óalgengt að lesa stöðuuppfærslur á borð við þetta: „Byrjaði daginn á brjáluðum púltíma, fór heim, bakaði brauð handa fjölskyldunni, setti í vél, fór með börnin í skólann, fór í vinnuna, sló algjörlega í gegn á fundinum, kom heim, fór síðan út að hlaupa (tók 15 km), tók úr vél, þreif allt, hjálpaði krökkunum að læra heima, eldaði þríréttaðan kvöldmat og dagurinn bara rétt að byrja...“

Þetta myndu fáir láta út úr sér í hversdagslegum samræðum manna á milli og spyrja má hver tilgangurinn sé með þessu. Það virðist aftur á móti vera í besta lagi á Facebook að tjá sig á þennan hátt, a.m.k. eru viðbrögðin við svona stöðuuppfærslum yfirleitt afar jákvæð. Reyndar er til orð yfir svona hegðun á ensku: Facebragging.

Bandarísk könnun sýndi að það sem fer mest í taugarnar á fólki varðandi facebook-stöðuuppfærslur er óhóflegt nöldur, öfgafullar pólitískar skoðanir og mont. Samkvæmt sömu könnun voru eftirfarandi þrjár manngerðir nefndar til sögunnar sem þær mest pirrandi á Facebook: Stolta foreldrið sem skrifar fjálglega um hvern einasta andardrátt sem afkvæmið tekur (jafnvel þótt það sé komið hátt á þrítugsaldur), uppstillingargínan, sem fegrar eigið líf og stillir því upp eins og búðarglugga, og aðgerðasinninn, sem linnulaust býður fólki á alls konar viðburði sem tengjast hugðarefnum hans.

En kannski er bara gott að til sé vettvangur fyrir ókostina okkar. Þar sem við getum verið montin án þess að fá skömm í hattinn. Við högum okkur þá kannski aðeins skikkanlegar í „alvörulífinu“. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir