[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verð á lítra af bensíni og díselolíu mun lækka í u.þ.b. 200 kr. ef tillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins um tímabundna lækkun á álögum á eldsneyti ná fram að ganga.
Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Verð á lítra af bensíni og díselolíu mun lækka í u.þ.b. 200 kr. ef tillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins um tímabundna lækkun á álögum á eldsneyti ná fram að ganga. Tillögurnar eru lagðar fram í frumvarpi til laga um „ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð“ og eiga lögin að gilda frá 1. apríl til 31. desember á þessu ári.

Frumvarpið kveður annars vegar á um tímabundnar breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald og hins vegar um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Útfærslan er útskýrð í krónum talið í kortinu hér fyrir ofan en tekið skal fram að ekki er boðið upp á nákvæma sundurliðun á álögum á dísellítranum í frumvarpinu. Er hér látið ógert að geta í eyðurnar þegar díselolían er annars vegar. Má þó taka fram að lækkunin sem sjálfstæðismenn leggja til hefur þau áhrif að höfuðstóll álagningar lækkar þegar virðisaukaskattur er lagður á bensín- og dísellítrann, líkt og fram kemur á kortinu, og eykur það áhrif tillögunnar.

Verðið hefur síðan hækkað

Þá skal tekið fram að verð á bensíni hefur hækkað síðan frumvarpið var skrifað og var algengt verð á bensínlítranum 250,2 krónur í gær en 255,8 krónur fyrir dísellítrann.

Að óbreyttu hefði lækkunin sem sjálfstæðismenn leggja til þau áhrif að verð á bensíni og díselolíu yrði ríflega 200 krónur á lítrann en ekki um 200 kr. eins og nú er gengið út frá.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að órói í Mið-Austurlöndum og miklir kuldar í Evrópu í vetur hafi leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum. Þessi óvissa komi fram í hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og þar með innflutningsverði hér á landi.

Hlutur eldsneytis í neyslu heimila sé nú á bilinu 7%-8%. Að teknu tilliti til eldsneytisverðs muni ráðstöfunartekjur skerðast og einkaneysla minnka. Það komi aftur niður á neyslu annarra vörutegunda.

„Fyrrnefnd óvissa hefur þrýst verði upp á við tímabundið og þegar hún minnkar á ný mun verð lækka aftur. Slík sveifla getur skaðað atvinnulífið og valdið varanlegum skemmdum sem sitja eftir þegar verð lækkar á ný,“ segir í greinargerðinni. Með því að lækka álögur á eldsneyti muni stjórnvöld örva hagvöxt, auka ráðstöfunartekjur og leiða beint til lækkunar vísitölu neysluverðs, sem aftur muni lækka höfuðstól verðtryggðra lána.

Tugir milljarða til ríkisins

Vikið er að þeirri spá í fjárlagafrumvarpi ársins 2012 að meðalverð á bensíni verði 240 kr. á þessu ári og 244 kr. á díselolíu. Áætluð sala á bensíni á tímabilinu sem lækkunin á að ná til, frá 1. apríl til 31. desember, sé 150 milljónir lítra. Olíufélögin spái því að meðalverð á bensíni verði hærra eða 248 krónur á tímabilinu.

Höfundar frumvarpsins telja að hækkunin dragi úr eftirspurn eftir bensíni og að hún fari því úr 150 milljónum lítra í spá fjárlagafrumvarpsins niður í 147 milljónir lítra. Minni eftirspurn er ekki talin vega upp á móti hærra olíuverði og er áætlað í greinargerðinni að tekjur ríkisins af sölu á bensíni verði 17,5 milljarðar en ekki 17,3 ma. eins og áætlað var frá 1. apríl til 31 des.

Svipað er upp á teningnum þegar díselolía er annars vegar en spár olíufélaganna kveða þar á um 260 kr. meðalverð á díselolíu, borið saman við þá áætlun fjárlagafrumvarpsins að meðalverð verði 244 kr. Er jafnframt áætlað í greinargerðinni að salan á díselolíu verði 86 milljónir lítra og því fjórum milljónum lítra minni en ætlað er í fjárlagafrumvarpinu. Líkt og með bensínið er gengið út frá því í fjárlagafrumvarpinu að minni notkun vegi ekki upp á móti hærra verði og þar með hærri skatttekjum sem eru áætlaðar 10,7 milljarðar og er það 200 milljónum kr. meira en í frumvarpinu.

Hátt í 30 milljarðar í skatt

Séu skatttekjur af bensíni eins og þær eru áætlaðar í greinargerðinni (17.500 milljónir) og díselolíunni (10.700 milljónir) lagðar saman er heildartalan 28.200 milljónir króna frá 1. apríl nk. til 31. des. nk.

Það jafngildir 3.133 milljónum króna á mánuði eða 37.600 milljónum króna á árinu öllu, séu sömu forsendur yfirfærðar á fyrstu þrjá mánuði ársins. Bensínverð hefur farið stighækkandi á árinu og er hin umreiknaða heildartala því líklega of há. Sé hún lækkuð niður í 36.000 milljónir króna er meðaltalið komið niður í 3.000 milljónir á mánuði eða 4,1 milljón kr. á tímann, allt árið.

Á VIÐ FERN GÖNG

8.700

Stofnkostnaður Vaðlaheiðarganga án vsk. í milljónum króna.

36.000

Varlega áætlaðar skatttekjur af sölu bensíns og dísels í ár í milljónum kr.