Fjallaklifur „Ef það að leika Lé konung er eins og að klífa Mont Everest þá er James klárlega Mont Blanc,“ segir Arnar sem leikur á móti Hilmi Snæ.
Fjallaklifur „Ef það að leika Lé konung er eins og að klífa Mont Everest þá er James klárlega Mont Blanc,“ segir Arnar sem leikur á móti Hilmi Snæ.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Dagleiðin langa eftir nóbelsverðlaunahafann Eugene O'Neill í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur verður frumsýnd í Kassa Þjóðleikhússins í kvöld kl. 19.30.
Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Dagleiðin langa eftir nóbelsverðlaunahafann Eugene O'Neill í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur verður frumsýnd í Kassa Þjóðleikhússins í kvöld kl. 19.30.

„Þetta er frábært leikrit sem er skrifað með tárum og blóði, enda bannaði höfundurinn að það yrði sýnt fyrr en eftir sinn dag þar sem það er að mörgu leyti sjálfsævisögulegt,“ segir Arnar Jónsson, sem fer með hlutverk fjölskylduföðurins James Tyrone. Leikritið gerist á miklum átakadegi í lífi Tyrone-fjölskyldunnar, hjóna og tveggja uppkominna sona þeirra. Fjölskyldan er þrúguð af ægivaldi fjölskylduföðurins, og áfengissýki og lyfjaneysla varpa dimmum skuggum á öll samskipti.

O'Neill skrifaði verkið á árunum 1939-41, en það var ekki frumflutt fyrr en árið 1956, þremur árum eftir dauða hans. „Höfundurinn hefur verið kallaður faðir bandarískrar nútímaleikritunar, enda hafði þetta verk áhrif á alla þá sem á eftir komu, s.s. Arthur Miller, Tennessee Williams og Edward Albee,“ segir Arnar og bendir á að verkið tali jafnsterkt til nútímaáhorfenda og þeirrar samtíðar sem það er skrifað fyrir.

„Raunar gildir að góð verk eiga alltaf erindi. Þetta leikrit fjallar um vanda sem langflestar fjölskyldur þekkja og þurfa að glíma við í einhverri mynd einhvern tímann á lífsleiðinni. Þetta er því verk sem snertir alla,“ segir Arnar og bætir við: „Ég held að allir fíklar landsins, hvort heldur þeir eru áfengisfíklar, matarfíklar, ástarfíklar eða hvað annað, hafi gott af því að sjá þetta verk. Raunar er ég sannfærður um að ef allir fíklar landsins kæmu og sæju þetta svona fimm til sex sinnum þá þyrftu þeir varla frekari meðferðar við. Ég held að uppfærslan sé prýðileg meðferð.“

Leikritið hefur tvívegis áður verið sýnt í Þjóðleikhúsinu, annars vegar 1959 og hins vegar 1982, en þá fór Arnar með hlutverk eldri sonarins, sem nú er í höndum Hilmis Snæs Guðnasonar. „Sú uppfærsla heppnaðist ekki sem skyldi og því er afar ánægjulegt að fá tækifæri til að koma aftur að þessu verki núna með svona góðum leikhóp og frábærum leikstjóra. Þórhildur hefur einstakt lag á því að knýja okkur leikarana til að fara út að og jafnvel yfir mörk þess sem okkur finnst þægilegt, enda er alltaf sársaukafullt að takast á við stórar tilfinningar.“

Spurður hvernig hann myndi lýsa glímunni við James segir Arnar þetta mikið fjallaklifur. „Ef það að leika Lé konung er eins og að klífa Mont Everest þá er James klárlega Mont Blanc.“

Listrænir stjórnendur
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir sýningunni, en þýðingin er í höndum Illuga Jökulssonar. Jósef Halldórsson hannar bæði leikmynd og búninga, en Hörður Ágústsson lýsinguna.
Leikarar eru: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Hilmir Snær Guðnason.