Ljúf stemmning ríkir Við tjörnina og sjávarfang í öndvegi.
Ljúf stemmning ríkir Við tjörnina og sjávarfang í öndvegi.
Við tjörnina er veitingastaður sem margir halda upp á, ekki síst unnendur sjávarfangs. Það er því við hæfi að gestakokkurinn þeirra er rómaður snillingur í matreiðslu sjávarrétta.
Laufar Ómarsson bíður líka komu meistarans með eftirvæntingu. „Giulio Terrinoni ákvað strax ungur að aldri að hann vildi ekki verða knattspyrnumaður, eins og þorri ítalskra drengja, heldur kokkur,“ segir Laufar. „Hann vann til að byrja með sem aðstoðarkokkur á Grand Hotel Palazzo della Fonte, en flutti svo frá heimabænum Fiuggi til Rómar til að vinna á hinu fræga Sheraton-hóteli í Róm. Giulio flutti svo aftur til Fiuggi til að læra meira og þar hitti hann Fabio Tacchella, þjálfara ítalska kokkalandsliðsins, sem Giulio hefur verið partur af í gegnum árin. Hann snýr svo aftur til Rómar til að aðstoða við opnunina á ES-hóteli í Róm þar sem hann var yfirkokkur.“ Auðheyrt er á frasögn Laufars að Terrinoni er maður eftirsóttur í sínu fagi. „Hann var ekki buinn að vera þar í ár þegar hann var beðinn að aðstoða við að opna nýjan veitingastað sem heitir The Panda Viale Liege. Síðastliðin fjögur ár hefur Giulio unnið á veitingastaðnum sínum sem hann opnaði ásamt hinum fræga kokki Angelo Troiani. Þeir reka saman í dag hinn fræga veitingastað í Acquolina Hostaria í Róm, en sá staður fékk sína fyrstu Michelin-stjörnu árið 2009.“ Það blasir því við að þeir sem sækja Við tjörnina heim meðan á Food & Fun stendur eiga gott í vændum. „Giulio er algjör snillingur þegar kemur að matreiðslu sjávarfangs og er hann einn þekktasti og jafnframt talinn einn færasti kokkur Ítalíu í dag,“ segir Laufar Ómarsson að lokum. jonagnar@mbl.is

Matseðill

Forréttur

Skötusels-„Coppa“ & skötuselslifrarpâté

Milliréttur

„Naked and raw“-sjávarsúpa

Aðalréttur

Saltfiskbaka „Bagna cauda“

Eftirréttur

Tíramísú að hætti Acquolina Hostaria

Pönnusteikt blálanga m/ lífrænt ræktuðum rósum, engifer,

soja og chili

Sósa

1 stk chili

1 stk engifer

50 ml sojasósa

2 msk blaðlaukur

25 ml hunang

soðið niður

Fiskur

Steinselja og lífrænt ræktaðar rósir saxaðar fínt

200 g af löngu (blálöngu)

smjör

salt og pipar

hvítlauksolía

Smjörið er sett á pönnuna, fiskurinn kryddaður og steiktur á pönnu með hvítlauksolíu og velt upp úr steinseljunni og rósunum.

Grænmeti

Fínt sneitt lime undir fiskinum

spínat

tómatar, fínt skornir

rauðlaukur, fínt skorinn

Þetta er eldað í potti með smjöri og hvítvíni, salti og pipar bætt við.

Kerfill er svo notaður sem skraut á fiskinn.