Verslanir Verðmunurinn reyndist mikill í könnun ASÍ. Til dæmis var munur á tannkremi 122%. Minnstur reyndist munurinn vera á mjólkurvörum.
Verslanir Verðmunurinn reyndist mikill í könnun ASÍ. Til dæmis var munur á tannkremi 122%. Minnstur reyndist munurinn vera á mjólkurvörum. — Morgunblaðið/Sverrir
Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í þremur lágverðverslunum og fjórum stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu og Ísafirði mánudaginn 20. febrúar s.l. Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni.
Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í þremur lágverðverslunum og fjórum stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu og Ísafirði mánudaginn 20. febrúar s.l. Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Samkaupum-Úrvali eða í um helmingi tilvika. Í yfir helmingi tilvika var munurinn á hæsta og lægsta verði allt að 25% og í þriðjungi tilvika var 25-50% verðmunur.

Af þeim 22 mjólkurvörum, osti og viðbiti sem skoðaðar voru var verðmunurinn undir 25% í 17 tilvikum. Minnstur verðmunur var á léttmjólk, sem var ódýrust á 109 kr./l hjá Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum en dýrust var hún á 110 kr./l hjá Nettó, Nóatúni, Hagkaupum og Samkaupum-Úrvali. Verðmunurinn er 1 kr. eða 1%. Mestur verðmunur var á 10 eggjum frá Brúneggjum, sem voru dýrust á 768 kr. hjá Fjarðarkaupum en ódýrust hjá Krónunni á 580 kr. Verðmunurinn er 188 kr. eða 32%.

Munur á ávöxtum og grænmeti

Meiri verðmunur var á öllum öðrum vöruflokkum í könnuninni. Sem dæmi má nefna ávexti og grænmeti en verðmunurinn var í helmingi tilvika milli 50 og 75%. Mestur verðmunur var á spínati í poka sem var ódýrast á 1.630 kr./kg hjá Krónunni en dýrast á 2.850 kr./kg hjá Nettó. Verðmunurinn er 1.220 kr./kg eða 75%. Einnig var 75% verðmunur á rófum sem voru ódýrastar á 199 kr./kg hjá Krónunni en dýrastar á 349 kr./kg hjá Samkaupum-Úrvali. Minnstur munur var á gulri melónu sem var dýrust á 399 kr./kg hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrust á 295 kr./kg hjá Bónus, eða 35% munur.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mestur verðmunur var á triple action-tannkremi frá Colgate sem var dýrast á 5.427 kr./l hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 2.450 kr./l hjá Bónus. Verðmunurinn er 2.977 kr. eða 122%. Ein 737 g dós af Swiss miss með sykurpúðum var dýrust á 688 kr. hjá Fjarðarkaupum en ódýrust á 543 kr. hjá Bónus, sem er 27% verðmunur. Mömmu-hindberjasaft var ódýrust á 798 kr. hjá Nóatúni en dýrust á 849 kr. hjá Hagkaupum og Samkaupum-Úrvali, sem er 6% verðmunur. Barnamatur frá Gerber, „eplamauk“, var ódýrast á 149 kr./st. hjá Fjarðarkaupum en dýrast á 189 kr./st. hjá Samkaupum-Úrvali, sem er 27% verðmunur. Frosinn lambahryggur var ódýrastur á 1.498 kr./kg hjá Hagkaupum en dýrastur á 1.898 kr./kg hjá Nóatúni og Krónunni, sem er 27% verðmunur. Heimilisbrauð frá Myllunni var ódýrast á 298 kr./st. hjá Fjarðarkaupum en dýrast á 334 kr./st. hjá Hagkaupum og Samkaupum-Úrvali, sem er 12% verðmunur.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Ísafirði, Krónunni Árbæ, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Hringbraut, Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði og Hagkaupum Holtagörðum. Aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila, segir í tilkynningu frá ASÍ.

sisi@mbl.is

SAMANBURÐUR

Oft munar litlu á verði

Af þeim 110 vörutegundum sem skoðaðar voru var Samkaup-Úrval með hæsta verðið í 58 tilvikum, Hagkaup í 31, Fjarðarkaup 21 og Nóatún í 20.

Bónus var með lægsta verðið í 63 tilvika. Krónan var lægst í 29 tilvikum og Fjarðarkaup í 15.

Þegar umbeðin vara var bæði til í Bónus og Krónunni var um eða undir 2 kr. verðmunur í næstum helmingi tilfella.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til hjá Hagkaupum eða 104 af 110, næstflestar hjá Fjarðarkaupum eða 101, Nóatún og Samkaup Úrval áttu til 94.

Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Bónus eða 81, Nettó átti 85 og Krónan 92.