Almenningur fær engin áhrif að hafa á þróun ESB
Dönsk stjórnvöld hafa nú fundið út að engin ástæða sé til að bera nýjan sáttmála Evrópusambandsins um aukinn efnahagssamruna undir þjóðaratkvæði. Uppgefin ástæða er sú að þessi aukni samruni feli ekki í sér skerðingu fullveldis landsins, sem er athyglisverð niðurstaða. Nýi sáttmálinn felur í sér að lokaorðið um opinber fjármál aðildarríkjanna kemur frá Brussel og sé niðurstaðan sú að sáttmáli sem feli þetta í sér þrengi ekki að fullveldinu hlýtur að verða að draga þá ályktun að fullveldið hafi ekki verið mikið fyrir.

Þessi niðurstaða í Danmörku er í samræmi við þá stefnu sem ríkt hefur í Evrópusambandinu og gengur út á að halda almenningi sem fjærst öllum ákvörðunum um hvernig Evrópusambandið á að þróast og þar með um stöðu og þróun ríkjanna sem mynda sambandið. Smátt og smátt hefur verið klipið af fullveldi ríkjanna en almenningur hefur sáralítið haft um þróunina að segja. Og í þau fáu skipti sem hann hefur verið spurður og haft aðra skoðun en ráðamenn í Brussel hefur hann yfirleitt verið spurður aftur þar til þóknanlegt svar fæst.

Ekkert bendir til að þetta sé að breytast. Þvert á móti eru sterkar vísbendingar um að miðstjórnarvaldið sé að herða tökin og nýtt dæmi þar um eru nokkurs konar efnahagsþvinganir sem verið er að beita Ungverja. Þeir hafa ekki skorið niður í ríkisútgjöldum eins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætlast til og nú hefur verið ákveðið að skerða verulega styrki til þeirra þar til þeir hlýða.

Hér á landi ræða stjórnvöld, sem eiga sér ekkert stærra markmið en að þröngva landinu inn í Evrópusambandið, ekki um þessa þróun. Þau reyna að fela eðli Evrópusambandsins og vonast til að með því takist að nudda aðlöguninni áfram og læða aðildarsamningnum í gegn hjá þjóðinni.