Björn Líndal
Björn Líndal
Eftir Björn Líndal: "Aðförin að Gunnari Andersen er ekki til þess fallin að skapa traust. Þvert á móti er hún til þess fallin að rýra traust á íslenskum ráðamönnum."
Sú aðför, sem nú stendur yfir, að mannorði Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), er ein sú ógeðfelldasta sem gerð hefur verið að íslenskum embættismanni. Þegar þetta er skrifað er enn ekki fyllilega ljóst hverjir standa að baki aðförinni en sé samhengi hlutanna skoðað má heita ljóst að þar hafa töluverð áhrif talsmenn aðila sem hafa verið eða eru til rannsóknar hjá FME. Að vísu er stjórnarformanni FME beitt fyrir vagninn en líklega einungis vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir nú.

Ásakanir á hendur Gunnari varða ekki hvernig hann hefur leitt starfsemi FME síðan hann tók við sem forstjóri árið 2009. Þó hafa þessa dagana birst fréttir af því að fyrrverandi efnhagsráðherra telji FME ekki hafa sinnt eftirliti gagnvart slitastjórn tiltekins fjármálamálafyrirtækis nægilega vel. Líklega er þar að hluta um að ræða sviðsetningu sem hentar einmitt við þær kringumstæður sem ríkja nú og gegna m.a. því hlutverki að draga úr trúverðugleika Gunnars.

Meginásökunin gagnvart Gunnari er hins vegar að hann hafi fyrir ellefu árum veitt FME ófullnægjandi svar við fyrirspurn um félög í eigu Landsbanka Íslands og ekki getið um svonefnd aflandsfélög á eyjunni Guernsey á Ermarsundi í svarinu. Þessari ásökun hefur Gunnar þegar svarað opinberlega með málefnalegum hætti og engin haldbær andsvör borist. Brottrekstur Gunnars verður því ekki rökstuddur á þessum grundvelli samkvæmt íslenskum lögum. Í þessu ljósi er framganga stjórnar FME, ekki síst stjórnarformannsins, Aðalsteins Leifssonar, bæði óskynsamleg og óskiljanleg.

Þrátt fyrir rökstudd svör Gunnars virðist stjórn FME og bakhjarlar hennar staðráðnir að svipta hann embætti og láta sig litlu skipta hvort landslög verði brotin þótt vitaskuld verði reynt að færa ákvörðunina í réttan tæknilegan búning. Það kann að vera að þetta takist þótt um sé ræða mikið óhæfuverk. Það kann líka að vera að það takist með sjónhverfingum að beina huga almennings í aðrar áttir þegar verkið er unnið. Þó á aldrei að vanmeta almenning og viðbrögð hans.

Hinu ættu ráðamenn heldur ekki að gleyma að það eru fleiri sem fylgjast með því sem gerist hér á landi nú um stundir. Íslendingar töpuðu gífurlegu trausti meðal sinna helstu viðskipta- og bandalagsríkja þegar efnahagshrunið varð hér 2008 og raunar var traustið farið töluvert áður. Þetta traust hafði verið byggt upp frá lýðveldisstofnun en glataðist á 2-3 árum. Við eigum mikið undir því að byggja þetta traust upp á nýjan leik og það er fylgst með hvernig sú uppbygging fer fram. Samhliða er fylgst með því hvernig við högum uppgjöri hrunsmála.

Aðförin að Gunnari Andersen er ekki til þess fallin að skapa traust. Þvert á móti er hún til þess fallin að rýra traust á íslenskum ráðamönnum. Sú skoðun mun án efa verða viðruð að brottrekstur Gunnars úr forstjórastól FME sýni svo ekki verði um villst að íslenskir ráðamenn leggi meiri áherslu á að gæta sérhagsmuna tiltekinna hópa og aðila innanlands en vinna að almannahagsmunum. Jafnvel verður ályktað að óeðlileg tengsl séu enn milli ráðamanna og þeirra sem hafa verið til rannsóknar hjá FME og sérstökum saksóknara. Það er því fyllsta ástæða til við umfjöllun um mál Gunnars Andersen að leitast við að sjá hlutina í stærra samhengi. Almannahagsmunir eiga að ráða en ekki sérhagsmunir þótt þeirra sé gætt af mikilli einbeitni. Verði sú raunin að sérhagsmunirnir nái yfirhöndinni mun uppbygging samfélagsins tefjast með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings.

Af þessum ástæðum vil ég hvetja alla íslenska stjórnmálamenn, sem vilja hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, að stöðva þegar í stað aðförina að Gunnari Þ. Andersen. Verði það ekki gert er það sönnun um máttleysi íslenskra stjórnmálamanna gagnvart sérhagsmunum, sem í því tilvíki sem hér um ræðir, ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður.