Löndun Í gær var hátt í 90 tonnum landað úr Fjölni SU 57 í Grindavík og rúmlega 100 tonnum úr Sighvati GK 57 í fyrradag. Þessir stóru línubátar, sem Vísir gerir út, eru á útilegu og landa yfirleitt vikulega.
Löndun Í gær var hátt í 90 tonnum landað úr Fjölni SU 57 í Grindavík og rúmlega 100 tonnum úr Sighvati GK 57 í fyrradag. Þessir stóru línubátar, sem Vísir gerir út, eru á útilegu og landa yfirleitt vikulega. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Það hefur verið þrælgóður afli og vertíðin á ekki að vera byrjuð,“ sagði Vignir Júlíusson, hafnarvörður á Höfn í Hornafirði, í gær.
Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Það hefur verið þrælgóður afli og vertíðin á ekki að vera byrjuð,“ sagði Vignir Júlíusson, hafnarvörður á Höfn í Hornafirði, í gær. Hljóðið var sömuleiðis gott í þeim sem rætt var við í Vestmannaeyjum, Grindavík og Ólafsvík. Góður gangur í veiðum og eina áhyggjuefnið var kvótastaðan og „ekki eftir neinu að bíða með að bæta hressilega í“, sagði einn viðmælandinn í þessu bryggjuspjalli.

Frá Höfn eru fjórir stórir bátar á netum, Þórir, Skinney, Hvanney og Sigurður Ólafsson. Þeir hafa mest verið á Hálsunum undan Suðursveitinni og gengið vel.

Tvíréttað hjá þorskinum

„Það hefur verið fínasta veiði í netin og þorskurinn vel haldinn,“ segir Vignir á Höfn. „Einhver sagði að hann hefði síld í forrétt og loðnu í aðalrétt. Bátarnir hafa iðulega komið með um og yfir 20 tonn eftir daginn í sjö trossur svo það er ekki yfir neinu að kvarta. Bátarnir voru áður fyrr oft á línu fram í miðjan mars að loðnan var gengin hjá, en upp úr því tóku menn garnið. Besti tíminn var svo gjarnan frá miðjum mars. Núna byrjaði törnin hins vegar um miðjan janúar og þrátt fyrir leiðindatíð hefur gengið vel, held ég,“ segir Vignir.

Hann segir að mikil ferð hafi verið á loðnunni á vesturleiðinni. Loðnuskipin Jóna Eðvalds og Ásgrímur Halldórsson eru gerð út frá Höfn og hafa séð bræðslu og vinnslu fyrir hráefni.

Makríll í Faxaflóa

Magnús Guðmundsson, skipstjóri á Kristbjörgu VE 71, rúmlega 200 tonna netabáti frá Vestmannaeyjum, sagði margt hafa breyst í Eyjum á síðustu áratugum. Nú eru aðeins þrír netabátar gerðir út þaðan, en oft á tíðum var höfnin full af línu- og netabátum á þessum árstíma. Magnús segir að nú séu margir Eyjabátanna á trolli.

„Við byrjuðum á að leggja hérna við Eyjarnar í janúar, en þá var enginn fiskur kominn á slóðina svo við höfum lengst af verið í Faxaflóanum,“ segir Magnús. „Þetta hefur gengið ágætlega og fiskurinn var fyrr á ferðinni þar en venjulega, ágætis fiskur. Þar var lengst ekkert æti í fiskinum, hverju sem það sætir, en hins vegar urðum við varir við makrílhrafl í Flóanum. Við lögðum líka utan við Þorlákshöfn og þar var bæði síld og loðna á ferðinni.“

Þeir á Kristbjörginni hafa yfirleitt landað á tveggja-þriggja daga fresti. Þeir voru í Eyjum í gær, enda bræla á miðunum. Magnús reiknaði með að fara út í kvöld og leggja netin þá austan við Eyjar í þeirri von að fiskurinn sé kominn á hefðbundin mið Eyjabáta.

Stýra veiðunum

Arnfinnur Antonsson, hafnarvörður í Grindavík, sagði vertíðina áþekka og í fyrra. Þar landa um 20 bátar, minni bátar í dagróðrum, ýmist með línu, net eða á dragnót. Stóru línubátarnir eru á útilegu og koma inn vikulega eða eftir því hvernig fiskast. Iðulega hafa þeir komið inn fyrr en áætlað var.

„Besti tíminn hefur yfirleitt verið frá miðjum febrúar fram að hrygningarstoppi um 10. apríl. Síðustu vikur hefur þetta yfirleitt verið ágætt hjá öllum, en menn þurfa að stýra veiðunum með tilliti til kvótastöðu og einstakra tegunda. Á netunum hafa menn aðeins sparað sig og koma þá með þeim mun betra hráefni í vinnsluna. Beitningabátarnir hafa oft fengið 13-14 tonn á línuna á dag, svo það er ekki hægt að kvarta.

Landburður af fiski

„Hér um slóðir er þetta ekki flókið, það er landburður af fiski og hér hefur fiskast vel í margar vikur,“ sagði Friðbjörn Ásbjörnsson í Ólafsvík í gær, en hann er aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands. „Það þykir ekki lengur frétt að menn fylli bátana á skömmum tíma. Það er helst fréttaefni ef illa fiskast og eins ef menn sjá háhyrning eða forvitnilega fugla. Margir eru bara með 2-3 trossur og koma samt með yfir 10 tonn að landi. Veðrið hefur verið að lagast, fiskurinn er vel haldinn og ekki yfir neinu að kvarta nema of litlum kvóta. Það er ekki eftir neinu að bíða með að bæta hressilega í bæði þorsk- og ýsukvóta.“

Friðbjörn segir að verð á óslægðum þorski hafi verið um 300 krónur fyrir kílóið undanfarið.

VIÐSNÚNINGUR Í ÞORSKI

Í samræmi við aflareglu

Þorskkvótinn var aukinn um 10% í fyrrasumar og er 177 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári og er það í samræmi við aflareglu í þorski, sem gilt hefur frá 2009.

Á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytis sagði m.a. í fyrrasumar: „Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar kemur fram að þorskstofninn er nú talinn stærri en verið hefur undanfarna tvo áratugi. Þar munar mjög um aukningu í stórþorski sem er yfir 80 cm og fjölgun í hrygningarstofni sem nú er talinn 362 þúsund tonn, en það er vel ofan við varúðar- og hættumörk. Þá er hrygningarstofninn vel yfir tvöfaldri lágmarksstærð árganganna 1992-1994. Að mati vísindamanna Hafrannsóknastofnunarinnar hefur orðið mikill viðsnúningur á þorskstofninum frá því sem var fyrir aðeins fjórum árum þegar stærð stofnsins var í sögulegu lágmarki.“