Víkingamálmbandið Skálmöld í öllu sínu veldi. Snæbjörn Ragnarsson, Jón Geir Jóhannsson, Baldur Ragnarsson, Björgvin Sigurðsson, Gunnar Ben hljómborðsleikari og Þráinn Árni Baldvinsson.
Víkingamálmbandið Skálmöld í öllu sínu veldi. Snæbjörn Ragnarsson, Jón Geir Jóhannsson, Baldur Ragnarsson, Björgvin Sigurðsson, Gunnar Ben hljómborðsleikari og Þráinn Árni Baldvinsson. — Morgunblaðið/Ómar
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.
Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Það hefur verið bæði forvitnilegt og skemmtilegt að fylgjast með hljómsveitinni Skálmöld sem á skömmum tíma hefur risið upp á íslenska stjörnuhimininn með hörðu víkingarokki sínu eða öllu heldur gamaldags þungarokki. Nú stefnir hljómsveitinn að gerð nýrrar plötu en fyrsta platan þeirra Baldur hefur fengið nokkuð góðar viðtökur. „Upptökur eru ekki hafnar en við stefnum á að byrja föstudaginn 13. apríl,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari hljómsveitarinnar, sem hvorki vill gefa upp nafn plötunnar að svo stöddu né viðurkenna að það fari í strákana að hefja tökur þennan meinta ólukkudag. Hann segir þó dagsetninguna hvorki hafa verið skipulagða né að hún trufli þá nokkuð. „Núna erum við einfaldlega að vinna að því semja efni á plötuna og textasmíðin gengur vel en við vinnum hratt og gefum okkur ekki mikinn tíma. Erum nærri því hálfnaðir á þessari stundu.“

Spurður um ferlið sem hljómsveitin beitir við texta- og lagasmíðina segir Snæbjörn að menn mæti á æfingar og þar skiptist menn á skoðunum og rífist. „Það er gott að við erum allir góðir vinir því oft hriktir vel í stoðunum enda allt risastórir persónuleikar sem segja hlutina beint út án þess að skafa utan af því. Þetta eru karlmannlegar samkomur.“ Pirringurinn er þó aldrei tekinn með af æfingum og menn geta skálað um kvöldið að sögn Snæbjörns.

Samningur við Senu og tónleikar

Baldur, fyrsta plata hljómsveitarinnar, var gefin út af færeyska útgáfufélaginu Tutl en síðan tók austurríka útgáfan, Napalm records, upp þráðinn og hefur gefið út plötuna á erlendum vettvangi. „Það er verið að ganga frá samningum við Napalm vegna nýju plötunnar og síðan höfum við samið við Senu um útgáfu á henni á Íslandi.“ Að sögn Snæbjörns skiptir það Skálmöld miklu máli að vandað sé til útgáfu nýju plötunnar á Íslandi enda er sá heimamarkaðurinn þeim kær og vilja ekki að hann verði annars flokks í höndum erlendra útgefanda.

Vegna útgáfu nýju plötunnar ætlar Skálmöld að hægja eitthvað á tónleikabrölti í sumar en þó hefur fengist staðfest að hljómsveitin verði bæði á Eistnaflugi og Aldrei fór ég suður. „Við munum eitthvað spila í sumar og verðum t.d. með stóra tónleika í Reykjavík í maí sem við erum að vinna að núna og erum að skreppa til Kaupmannahafnar um helgina að spila og á Akureyri um páskana. Þá verðum við á einhverjum hátíðum og spilum eitthvað um landið í sumar en það verður minna en ætla mætti vegna útgáfu plötunnar.“