„Bara síðustu 2-3 árin hefur hver nýr staðurinn rekið annan og hver öðrum betri. Metnaðarfullir matreiðslumenn eru að koma með nýjungar inn,“ segir Eyþór Mar Halldórsson yfirkokkur
„Bara síðustu 2-3 árin hefur hver nýr staðurinn rekið annan og hver öðrum betri. Metnaðarfullir matreiðslumenn eru að koma með nýjungar inn,“ segir Eyþór Mar Halldórsson yfirkokkur — Morgunblaðið/Golli
Sushisamba tekur þátt í Food & Fun í fyrsta sinn og fær til sín eftirsóttan kokk frá einum heitasta veitinga- og skemmtistað Washingtonborgar. Bragðlaukarnir eiga von á suðrænni sveiflu. Ódýrt að fara út að borða, segir yfirkokkurinn Eyþór.
Íslenska þjóðin virðist vera sushi-óð ef marka má móttökurnar sem Sushisamba hefur fengið. Staðurinn var opnaður í nóvember síðastliðnum og er umtalaður fyrir góðan mat og skemmtilegt andrúmsloft. „Matargerðin einkennist af samblöndu suðuramerískra og japanskra áhrifa. Á matseðlinum er t.d. að finna ceviche, taquitos, steikur grillaðar á brasilíska vísu og sushi útbúið á þann hátt sem þróaðist meðal japanskra innflytjenda í löndum eins og Brasilíu og Perú,“ segir Eyþór Mar Halldórsson, yfirkokkur staðarins.

Gestakokkur Sushisama á Food & Fun-hátíðinni er Raynold Mendizabal, ættaður frá Kúbu en starfandi í Washington-borg. „Hann á þar einn vinsælasta veitinga- og skemmtistað borgarinnar og bræðir saman kúbverska og japanska matargerð,“ útskýrir Eyþór. „Hann kemur til með að kokka fyrir gesti Sushisamba matseðil sem samanstendur af réttum eins og empanadas og chaufa og notar í matargerðina íslenska leturhumarinn, lambið, þorskinn og laxinn.“

Hugmyndaflug og metnaður

Eyþór hefur staðið vaktina í eldhúsinu um árabil og segir veitingahúsaflóruna á Íslandi vera á ótrúlegu flugi, og virðist ekkert lát á. „Bara síðustu 2-3 árin hefur hver nýr staðurinn rekið annan og er hver öðrum betri. Metnaðarfullir matreiðslumenn eru að koma með nýjungar inn í veitingaflóruna, og láta metnaðinn og hugmyndaflugið vísa veginn,“ segir hann og bætir við að kreppan virðist ekki ætla að koma niður á þeirri matar- og veitingastaðamenningu sem óx og dafnaði á góðæristímum síðasta áratugar. „Þvert á móti þá held ég að margir séu duglegri að fara út að borða en áður, enda ekki dýr munaður miðað við margt annað. Svo hafa vinir og fjölskyldur þjappað sér betur saman, og nota heimsókn á veitingastað sem leið til að hittast, eiga góða stund. Eina fórnarlamb kreppunnar virðist vera hádegistraffíkin, sem hefur minnkað töluvert, en nóg er að gera á kvöldin.“

Að fara út að borða er heldur hreint ekki dýrt, að sögn Eyþórs, sama hvernig dæmið er reiknað. „Hátt hráefnisverð hefur þýtt að veitingastaðirnir þurfa að fara mjög gætilega með öll aðföng og hafa sáralítið svigrúm fyrir álagningu. Veitingastaðir landsins eru ódýrir miðað við sambærilega staði hjá öðrum þjóðum, og ef fólk rýnir í verðið þá komast flestir að því að það getur oft kostað álíka mikið að borða úti og elda samskonar rétt heima.“

Útlitið segir Eyþór að sé gott, og ekki tilefni til annars en bjartsýni fyrir hönd íslenskra veitingastaða. „Markaðurinn er ágætur, Íslendingar upp til hópa orðnir veraldarvanir matgæðingar, og ungir athafnamenn með rétta konseptið og réttu stemninguna eiga velgengni vísa.“ ai@mbl.is

Kókosbætt sjávarréttarsúpa

fyrir 8-10 manns

humarsoð 1 l (án tómats)

kókosrjómi 1 l

½ stk. chili

smáengifer

1 stk. sítrónugras (heilt, marið)

1 stk. laukur

1 stk. fennel

3-4 msk. túrmerik

2 stk. hvítlaukur

300 g kræklingur

300 ml hvítvín

fiskur eftir smekk

Aðferð Skerið allt grænmetið nema sítrónugrasið í fallega bita, steikið kræklinginn ásamt grænmetinu.

Bætið hvítvíninu við og sjóðið niður um 2/3 hluta.

Næst kemur humarsoðið, loks kókosmjólkin. Þetta er allt soðið saman og smakkað til með salti, pipar, chili og engifer. Veiðið sítrónugrasið upp úr súpunni og bætið við viðeigandi fiskmeti.