Samningar í höfn. Helgi Már Björginvinsson frá Icelandair, Orri Hauksson frá SI og Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur.
Samningar í höfn. Helgi Már Björginvinsson frá Icelandair, Orri Hauksson frá SI og Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Merk matarhátíð í sælkeraheimi. Þriggja ára samningur. Fjölga ferðamönnum og vekja athygli á hráefninu.
Icelandair annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar hafa gert þriggja ára samning við Samtök iðnaðarins um rekstur Food & Fun-hátíðarinnar.

Þá hafa SI og viðburðafyrirtækið Main Course ehf. undirritað samning um að þeir síðarnefndu hafi umsjón með verklegum hluta hátíðarinnar ásamt verkefnastjóra.

„Með þriggja ára samningi þessara aðila er lagður traustur grunnur að því að þróa og efla þessa árlegu matarhátíð sem hefur fyrir löngu skipað sér fastan sess í menningarlífi Reykjavíkurborgar,“ segir Jón Haukur Baldvinsson, verkefnastjóri Food & Fun.

Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, og Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI, skrifuðu undir samningana í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr í vikunni, bolludaginn 20. febrúar.

Að sögn Jóns Hauks er tilgangur hátíðarinnar tvíþættur: annars vegar að vekja athygli á íslenskri matargerðarlist, gæðum íslenskra hráefna og matvælaframleiðslu. Hins vegar að fjölga ferðamönnum til borgarinnar utan háannatíma. „Það er von aðstandenda að með þessum samningum takist að skerpa á áherslum hátíðarinnar og festa hana enn betur í sessi sem alþjóðlega matarhátíð,“ bætir Jón Haukur við.

Hátíð haldin í 11. sinn

Food & Fun 2012 verður haldin í Reykjavík dagana 29.-4. mars, en þetta er í 11. sinn sem hátíðin er haldin.

Frá upphafi hefur Food and Fun snúist um að boða til landsins erlenda matreiðslumeistara, kynna fyrir þeim íslensk gæðamatvæli og Ísland og Reykjavík sem sælkeraland- og borg. Það hefur skilað sér í umtalsverðri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og meðal veitingamanna, en um 200 erlendir matreiðslumeistarar og fjöldi annarra matgæðinga og fjölmiðlamanna hafa komið á hátíðina frá upphafi. Meðal annars valdi nýlega hið virta tímarit National Geographic Food and Fun eina merkustu matarhátíðina í sælkeraheiminum.

„Hátíðin í ár verður sú umfangsmesta til þessa en 16 veitingahús taka á móti erlendum matreiðslumeisturum og fjöldi erlendra blaðamanna hefur aldrei verið meiri,“ bætir Jón Haukur við. „Veitingastaðirnir bjóða fjögurra rétta sælkeramáltíð eins og undanfarin ár á sama verði á öllum stöðum.“ Hann nefnir ennfremur að þrátt fyrir miklar verðhækkanir á hráefniskostnaði haldist verðið óbreytt frá síðustu árum. Miðvikudags-, fimmtudags- og sunnudagskvöldið kostar fjögurra rétta matseðill 6.900 kr. en föstudags- og laugardagskvöld 7.400 kr.

Árlega er keppt um „Food & Fun Chef of the Year“-verðlaunin sem eru orðin vel þekkt og eftirsóknarverð í sælkeraheiminum. Keppnin, þar sem þrír efstu kokkarnir etja kappi, verður haldin í Hörpunni laugardaginn 3. mars. Hún verður með nýstárlegu sniði í ár þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með meisturunum elda úr fyrirfram ákveðnu hráefni sem valið er fyrir þá.

Aðrir samstarfsaðilar Food and Fun 2012 eru Íslandsstofa, Iceland Naturally, MS, Vífilfell, American Express og Saltverk.

jonagnar@mbl.is