Ég set könnuna í gang, slafra í mig Seríósið á meðan ég horfi á biksvarta dropana seytla úr filterhólfinu í móðu prýdda glerkönnuna og ilmurinn leikur um nasagöngin og vekur mér von um að það sé til líf eftir stríðið, stríðið við svefninn.
Má bjóða þér að fá eitthvað heitt og svart inn í þig spurði hávaxni breiðvaxni blökkumaðurinn hvítu smávöxnu konuna og bauð henni svo, í kjölfar dómharðs spurnarsvips að baki uppréttri löngutöng, kaffibolla. Þetta dásemdar stakspaug (one liner) kemur fyrir í hinu stórbrotna meistaraverki Event Horizon. Á þeirri stund sem þetta á sér stað er áhöfn geimbjörgunarskips nýkomin úr kæligeymslu þar sem hægt var á líkamsstarfsemi þeirra í nokkrar vikur til að auðvelda þeim langa för. Þegar klukkan slær níu á morgnana og iHarpan er slegin á náttborðinu mínu og ég dragnast fram úr líður mér eins og ég hafi verið sofandi í marga mánuði og það eina sem geti vakið mig sé háttvirtur alheilagur kaffibolli.

Ég set könnuna í gang, slafra í mig Seríósið á meðan ég horfi á biksvarta dropana seytla úr filterhólfinu í móðu prýdda glerkönnuna sem fór undir hólfið á akkúrat réttum tímapunkti og ilmurinn leikur um nasagöngin og vekur mér von um að það sé til líf eftir stríðið, stríðið við svefninn.

Að Seríósi loknu má oftar en ekki heyra soghljóðið, dásemdarhljóðið sem líkist einna helst því að tíu metra barn sé að klára úr þriggja lítra kókómjólkurfernu með röri og við tekur biðin langa.

Orð fá ekki lýst angistinni sem fylgir því að vita að allt vatnið sé búið en kaffið sé ekki til.

Ég veit vel hvað ég setti mikið kaffi í pokann og ég veit líka hvað ég setti mikið vatn í könnuna. Þetta er grönn lína sem maður þarf að ganga eftir til að ná hinum fullkomna bolla, í goðanna blótum, ég er búinn að tímasetja hversu löngu eftir að kaffivélin fer í gang ég þarf að setja könnuna undir til að ná bollanum réttum – ég held að ég sé kominn með allt of mikla sérvisku í kringum morgunuppáhellinguna. Þessari sérvisku samkvæmt er algjörlega ómögulegt að taka könnuna undan áður en allt kaffið hefur lekið í gegnum kaffiduftið sem er í pokanum, annars verður innihald bollans ekki eins á bragðið og það á að vera. Stundin er runnin upp. Síðasti dropinn hefur sagt skilið við stopparann og fallið í svarthol könnunnar, gárurnar hefur lægt á yfirborðinu og við tekur efinn. Gerði ég ekki alveg örugglega allt rétt? Þetta voru örugglega sex bollar af vatni og sex örlítið kúfaðar skeiðar af kaffi? Fór ekki kannan undir á réttum tíma? Jú ég er alveg viss, þetta ætti að vera í lagi. Ég helli í bollann. Gegnsæi passlegt, áferð passleg, angan dásamleg. Þar næst geng ég að ísskápnum, næ í fernuna, léttmjólk, helli þremur dössum (sem er næstum því slatti) saman við kaffið á réttum hraða, nógu hægt til að ekki skvettist en samt nógu hratt til að mjólkin nái niður á botn og aftur upp á yfirborð, geng að sófanum og sest niður. Allt er til reiðu, ég kveiki á sjónvarpinu til að fylla loftið af hljóði, opna tölvuna og skrái mig inn á snjáldurskinnu. Góðan daginn kaffi Þráinn. Fæ mér sopa og finn kraftinn seytla um æðarnar. Himneskt.

Hjalti St. Kristjánsson hjaltistef@mbl.is