Björn Steinar Jónsson hjá Saltverki Reykjaness og Jón Haukur Baldvinsson hjá Food & Fun.
Björn Steinar Jónsson hjá Saltverki Reykjaness og Jón Haukur Baldvinsson hjá Food & Fun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það verður íslenskt salt sem meistarakokkarnir á Food & Fun sáldra yfir kræsingarnar á matarhátíðinni í ár. Saltverk Reykjaness framleiðir úrvals sjávarsalt eftir gömlum aðferðum þar sem jarðvarmi er í aðalhlutverki. Gömul hefð að vestan endurvakin.
Skipuleggjendur Food & Fun hafa gert samkomulag við Saltverk frá Reykjanesi um að þeir útvegi íslenskt gæðasalt á alla veitingastaði Food & Fun í ár. Saltverk framleiðir gæðasalt frá Vestfjörðum. Á myndinni handsala þeir Björn Steinar Jónsson frá Saltverki Reykjaness og Jón Haukur Baldvinsson hjá Food & Fun samstarfið við sjávarsíðuna í Reykjavík. „Það er okkur mikill heiður að vestfirskt kristalsjávarsalt, frá okkur hjá Saltverki Reykjaness, hafi verið valið salt hinnar virtu hátíðar Food & Fun“ segir Björn Steinar. „Það að bestu kokkar heimsins skuli notast við saltið okkar á Food & Fun er viðurkenningin á því linnulausa starfi sem við saltararnir hjá Saltverki höfum unnið frá stofnun fyrirtækisins í janúar 2011. Þar að auki er það staðfesting á því að saltið okkar sé fyrst og fremst mjög gott salt. Food & Fun er því frábær vettvangur til þess að prófa vestfirskt kristalsjávarsalt með öðru íslensku hágæðahráefni.“ Markmið Saltverks er að búa til gott umhverfisvænt kristalsjávarsalt sem gerir hverja matarupplifun einstaka og er saltið handunnið í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum. „Þar notum við tvö hundruð ára gamla aðferð þar sem við hægsjóðum hreinan Norðuríshafssjó með því að nota heitt hveravatn sem við leiðum undir opnar stálpönnur, og eftir sitja brakandi og bragðgóðir saltkristallar.“

Hið sögulega saltverk var einnig staðsett á Reykjanesi og var fjármagnað af danska kónginum á 18. öld þegar Ísland var hluti af konungsveldi Danmerkur.

Ástæðan fyrir því að Reykjanes í Ísafjarðardjúpi varð fyrir valinu var sú að hverirnir eru nálægt sjó sem auðveldaði saltverkunina. Helsta hlutverk saltverksins var að framleiða nægilegt magn af salti til þess að anna saltþörf til saltfiskútflutnings Íslendinga. Byggð voru bindingsverkshús yfir hverina þar sem pönnurnar voru staðsettar og þar var sjórinn eimaður og síðan hægsoðinn til þess að framkalla kristalsjávarsalt. Þekkta aðferðin í Norður-Evrópu á þessum tíma var að sjóða saltpækil á opnum stálpönnum með því að nota eldivið til að ná nægilegri suðu. Á Íslandi voru engir skógar þannig að íslenska aðferðin var að nota jarðvarma.

„Í dag notum við sömu aðferð setta í nútímalegri búning. Við höfum endurvakið hefð saltverkunar á Reykjanesi með því að gera upp gamalt fiskeldi sem við höfum breytt í umhverfisvænt saltverk. Þar er fyrirtæki okkar, Saltverk Reykjaness, til húsa og kom saltið okkar fyrst á markað í desembermánuði 2011.“

Það eru þrír ungir frumkvöðlar sem standa á bak við Saltverk Reykjaness, allir 27 ára gamlir með menntun í verkfræði og hagfræði ásamt markaðsfræðum.

„Frá því að við fórum að vinna í hugmyndinni í janúar 2011 höfum við verið helteknir af salti og saltverkun. Það er okkur ákaflega mikill heiður að saltið okkar sé notað á Food & Fun-hátíðinni.“