Niðurstöður nýrra rannsókna á Drekasvæðinu staðfesta ummerki um olíu frá júratímabilinu á hafsbotni og staðfesta að virkt kolvetniskerfi sé á Drekasvæðinu.
Niðurstöður nýrra rannsókna á Drekasvæðinu staðfesta ummerki um olíu frá júratímabilinu á hafsbotni og staðfesta að virkt kolvetniskerfi sé á Drekasvæðinu. Þessar niðurstöður eru sagðar hafa þýðingu fyrir yfirstandandi útboð sérleyfa á Drekasvæðinu, en nú er rétt rúmur mánuður til stefnu.

Greint er frá þessum niðurstöðum á heimasíðu Orkustofnunar og þar segir að olíuleitarfélögin TGS og Volcanic Basin Petroleum Research (VBPR) hafi safnað sýnum úr þúsund metra háum hamri á hafsbotni á Drekasvæðinu í september sl. í samræmi við leitarleyfi sem Orkustofnun veitti. Meira en 200 kíló af grjóti og seti náðust á tólf sýnatökustöðum.

„Nýju sýnin gefa spennandi innsýn í olíujarðfræði Drekasvæðisins. Setbergi frá ýmsum tímum miðlífsaldar (fyrir 250 til 65 milljón árum síðan) var safnað.

Engin sýni eldri en 50 milljón ára höfðu verið tekin á svæðinu með borun eða öðrum aðferðum fyrir síðasta sumar og koma til viðbótar við niðurstöður úr rannsókn norsku Olíustofnunarinnar en önnur jarðlög fundust í þessari rannsókn. Ummerki um olíu úr móðurbergi frá júratímabilinu (fyrir 200 til 150 milljón árum) fundust sem staðfestir að það sé virkt kolvetniskerfi á Drekasvæðinu,“ segir á heimasíðunni.