Kynning Vel var mætt á fundinn á Hótel Nordica í gær þar sem skýrsla Oxford Economics var kynnt.
Kynning Vel var mætt á fundinn á Hótel Nordica í gær þar sem skýrsla Oxford Economics var kynnt. — Morgunblaðið/Sigurgeir S. Morgunblaðið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Flugrekstur skilar 102,2 milljörðum króna til vergrar landsframleiðslu (VLF) og er um 6,6% af henni en það er hæsta hlutfall meðal landa heims.
Baksvið

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Flugrekstur skilar 102,2 milljörðum króna til vergrar landsframleiðslu (VLF) og er um 6,6% af henni en það er hæsta hlutfall meðal landa heims. Þetta kom fram á fundi á Hótel Nordica í gær, þar sem kynnt var skýrsla um áhrif flugstarfsemi á íslenskt efnahagslíf sem unnin hefur verið af Oxford Economics.

Julie Perovic, yfirhagfræðingur hjá Alþjóðasambandi flugfélaga (IATA), kynnti skýrsluna en samtökin hafa látið gera slíka skýrslu um áhrif flugstarfsemi hjá einum 55 þjóðum.

Ísland er einstakt hvað þetta varðar og þegar skoðað var hversu hátt hlutfall flugreksturs var af VLF hjá hinum Norðurlöndunum komu í ljós mun lægri tölur en Finnland var næst okkur, þar var hlutfallið 3,2%.

Með óbeinum ábata koma um 200 milljarðar í hagkerfið

Heildartalan, 102,2 milljarðar króna, felur í sér 43,3 milljarða króna sem koma beint úr flugrekstrinum sjálfum það er flugfélög, flugvellir og þjónusta á jörðu niðri. 36,4 milljarðar króna koma úr aðfangakeðju flugrekstrarins og 22,4 milljarðar króna stafa frá neyslu starfsmanna í flugrekstri og aðfangakeðju hans. Ef einnig væri tekinn inn í jöfnuna óbeinn ábati af afleiddum áhrifum á ferðaþjónustu mundu bætast við 95,7 milljarðar króna sem myndi hækka heildarframlagið í 197,9 milljarða eða 12,9% af VLF.

Risastór vinnuveitandi

Flugrekstur stendur undir 9200 störfum á Íslandi. Þar af eru 2800 störf sem tilheyra flugrekstri með beinum hætti, 4000 störf sem studd eru óbeint af aðfangakeðju flugrekstrarins og 2400 störf sem leiða af neyslu starfsmanna flugrekstrarins og aðfangakeðju hans, en þetta gerir samtals 9200. En til viðbótar eru einnig 11400 manns sem starfa við afleidd störf, það er í ferðaþjónustunni. Meðalstarfsmaður við flugsamgöngur skapar 16 milljónir króna í árlegri verðmætasköpun á ári sem er um 1,7 sinnum meðalframleiðni á Íslandi.

Þrefalt meira hjá flugrekstrinum en sjávarútveginum

Flugrekstur hefur í gegnum tíðina náð að skapa miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og minnast menn þá gjarnan eins stærsta ævintýris á Íslandi þegar Loftleiðir voru og hétu. Eins og segir á bls. 236 í Alfreðs sögu og Loftleiða eftir Jakob F. Ásgeirsson: „Árið 1968 var aflaverðmæti alls togaraflota Íslendinga um 480 milljónir króna, en sama ár öfluðu Loftleiðir sem næst þrefalt meiri tekna, eða 1,4 milljarða. Og gjaldeyristekjur Loftleiða voru ekki síður mikilvægar en þær sem fiskveiðarnar færðu okkur. Á tíu ára tímabili 1962-72 skiluðu Loftleiðir um 50 milljónum dollara til bankanna, eftir að hafa greitt allar erlendar afborganir og rekstrarkostnað félagsins erlendis.“

Það er vöxtur í flugrekstrinum á Íslandi í dag og fram kom í kynningunni að árlega er flutt 2,1 milljón farþega til og frá landinu og 35000 tonn af flugfrakt.

Hægt að auka hagvöxtinn

Í pallborðsumræðunum sem voru á eftir kynningunni sagði Pétur Maack, flugmálastjóri, svo frá að menn hefðu fengið í magann þegar Eyjafjallajökull fór að gjósa en hann hefði á endanum reynst landinu hin besta landkynning og fólk í flugbransanum hefði tekið eftir mun meiri áhuga á landinu eftir gosið en var fyrir það.

Auk Péturs tóku þátt í pallborðsumræðunum Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia, og Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, en Þóra Arnórsdóttir stýrði þeim.

Í skýrslunni var bent á hvernig hægt væri að auka hagvöxt til langs tíma en þar segir meðal annars: „Áætlað er að bættar tengingar sem næmu 10% miðað við VLF myndu til lengri tíma litið leiða til árlegrar aukningar á VLF á Íslandi upp á 983 milljónir króna til langs tíma.“

Björgólfur fagnaði skýrslunni og sagði ljóst að flugrekstur væri einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Pétur benti á að það þyrfti að hlúa að menntun í þessum bransa eða eins og hann orðaði það: „Það vill enginn fara upp í flugvél hjá manni sem kann ekki á hana.“ Hann benti einnig á að Air Atlanta væri ekki í þessum tölum en þeir flyttu um milljón farþega árlega í Asíu. Hann sagði að allar aðstæður á Íslandi væru það góðar að þeir gætu tekið á móti miklu meira flugi en þeir gera í dag. Lokaorð hans voru: „Íslendingar eru flugþjóð.“

SKATTHEIMTAN

Ríkið bæði gefur og tekur

Með bættum flugrekstri á Íslandi hefur ríkið aukið skattheimtuna í þeim geira og hefur meira að segja komið til umræðu að leggja komugjöld á farþega sem koma til landsins. Aðilar frá flugrekstrinum báðust undan meiri skatti á fundinum og varð Björgólfi Jóhannssyni einnig tíðrætt um kolefnisgjaldið sem þeir þurfa að greiða og taldi að Íslendingar hefðu átt að biðja um undanþágu frá þessum útgjöldum. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, afsakaði aukna skattheimtu með því að aukinn flaumur ferðamanna ylli líka útgjöldum fyrir ríkið. Hann benti einnig á að ríkið hefði ekki bara tekið heldur einnig gefið og minnti á auglýsingaherferðina Inspired by Iceland og tók Björgólfur undir það með orðunum: „Já, ég held að þið hafið fengið þá fjárfestingu margfalt til baka.“

Svo vitnað sé til hins gamla en magnaða ævintýris Loftleiða þá fóru þeir á sínum tíma með 15 þúsund dollara til að kynna Loftleiðir og Ísland í einu tilteknu ríki Bandaríkjanna, Wisconsin. Það var talið að sú herferð hefði skilað félaginu hið minnsta 20 þúsund dollurum. Inspired by Iceland herferðin hefur örugglega hjálpað til við þá aukningu ferðamanna sem orðið hefur, þótt Eyjafjallajökull eigi kannski skilið mesta hrósið.