Frumkvöðlar Stelpurnar kátar í bragði enda leggja þær upp úr því að hafa góðan vinnuanda í hópnum.
Frumkvöðlar Stelpurnar kátar í bragði enda leggja þær upp úr því að hafa góðan vinnuanda í hópnum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjórar ungar stúlkur hafa vart undan að framleiða slaufur í formi mottu fyrir bæði kynin. Rennur ágóðinn til Mottumars, átaks Krabbameinsfélagsins.
María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Fjórar ungar stúlkur í Fjölbrautaskóla Garðabæjar hafa vart undan að framleiða slaufur í formi mottu, það er að segja skeggs líkt og margir karlmenn hafa skartað í Mottumars, átaki Krabbameinsfélagsins. Þær Ása Þórdís Ásgeirsdóttir, Irena Sveinsdóttir, Hrafnhildur Heiða Sandholt og Camilla Rut Arnarsdóttir eru allar í svokölluðum frumkvöðlaáfanga sem kenndur er á hönnunar- og markaðsbraut skólans. Nám á þeirri braut hófst nú í haust en í frumkvöðlaáfanganum fá nemendur innsýn í að reka lítið fyrirtæki frá stofnun fyrirtækisins til uppgjörs á rekstrarárinu.

Góður andi mikilvægur

Nemendur stofna og skrá fyrirtækið og velja sér framleiðsluvöru eða þjónustu. Þeir sjá síðan um allan daglegan rekstur fyrirtækisins í 13 vikur. Lögð er sérstök áhersla á að nemendur geri sem mest sjálfir við skipulag fyrirtækisins, hönnun vöru eða þjónustu og sölu á henni.

„Þrjár okkar eru á hönnunar- og markaðsbrautinni en ein tekur áfangann sem valfag. Frumkvöðlafræðin snýst um að að finna hugmynd, annaðhvort að vöru til að flytja inn eða hanna og framleiða hér á Íslandi. Síðan eigum við að selja hana og markaðssetja. Við fáum reikning og kennitölu og kennarinn er til halds og trausts en annars verðum við að gera þetta sjálfar frá grunni. Það er því nóg að gera með fullum skóla og vinnu. Í það minnsta tvær okkar ætla sér að starfa við markaðsstörf í framtíðinni og þetta er því góður grunnur. Samvinnan hefur líka gengið vel. Við þekktumst ekki allar fyrir en erum nú orðnar góðar vinkonur og höfum lagt upp úr því að vera duglegar að halda uppi góðum anda í vinnuumhverfinu,“ segir Camilla Rut.

Aðstoð við skeggvöxtinn

Sagan á bak við skeggslaufuna er nokkuð skondin en hún kviknaði í huga Ástu fyrir um tveimur árum. Þá var Mottumars að byrja og kærastinn hennar ætlaði að vera með og var í keppni við vini sína. Svo óheppilega vildi hins vegar til að það gekk ekki vel því honum óx ekki mikið skegg. Ásta ákvað þá að hjálpa til og bjó til mottu úr pappír og leir. Þessa hugmynd bar hún síðan upp í hópnum og var henni vel tekið og ákveðið að þróa hana áfram. Þær stöllur ákváðu að gera slaufurnar úr fínflaueli og fylla þær með koddafóðri. Í slaufuna er síðan sett teygja og franskur rennilás til að hægt sé að festa hana um hálsinn.

Camilla segir hönnunina hafa vakið lukku og í raun er eftirspurnin orðin það mikil að þær hafa ekki undan og ætla sér því að ráða saumakonu. Annars hefur saumaskapurin gengið vel en sú sem ekki er þaulvön saumaskap sér um að fylla slaufurnar og þannig gengur þetta eins og á færibandi.

Til styrktar góðu málefni

„Við vorum búnar að gera í kringum 50 slaufur en á miðvikudaginn settum við upp söluborð og seldum helminginn í skólanum. Það er nefnilega árshátíð hjá okkur í kvöld (fimmtudag) og við höfðum lofað krökkunum í skólanum að hafa motturnar til sölu svo þau gætu skartað þeim á árshátíðinni. Pantanir voru því settar á bið á meðan og nú er næst að vinna okkur í gegnum þær og búa til fleiri slaufur. Við höfum ekki fengið neitt nema jákvæð viðbrögð sem er frábært og hvetur mann áfram. Við bjuggumst við að selja kannski tíu á mann, koma út á núlli og klára áfangann. En svo fórum við á Facebook og þá fór allt af stað,“ segir Camilla Rut. Hönnunina má finna undir Arcos á Facebook en Arcos þýðir slaufa á spænsku.

„Við vorum ákveðnar í því frá byrjun að gera eitthvað töff. Það er alltaf hægt að bæta við nýjum fylgihlutum og sú hönnun því mjög skemmtileg. Einna skemmtilegast er þó og mikilvægast að vekja athygli á góðu málefni eins og Mottumars,“ segir Camilla Rut en ágóði af slaufusölunni rennur til styrktar átakinu.