Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Ég hlakka rosalega til leiksins. Við ætlum okkur að vinna riðilinn og lækka rostann í Kasper Nielsen, eiganda AG.
Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Ég hlakka rosalega til leiksins. Við ætlum okkur að vinna riðilinn og lækka rostann í Kasper Nielsen, eiganda AG. Hann er búinn að vera með stórar yfirlýsingar,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður þýska stórliðsins Kiel, við Morgunblaðið í gær en Kiel mætir Íslendingaliðinu AG Köbenhavn í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Þetta er hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum og dugar Kiel jafntefli.

„Við viljum sýna að við séum bestir. Það er óhætt að segja að okkur hafi gengið vel í vetur. Við höfum verið heppnir með meiðsli og við erum ekki að hugsa um nein met eða þvíumlíkt. Við einblínum bara á næsta leik og förum í hann til að vinna. Það skiptir í raun ekki máli hver spilar. Liðið er eins og vel smurð vél og það er eins og ekkert lið eigi möguleika gegn okkur eins og við spilum í dag. Þetta lítur vel út hjá okkur og markmiðið er að sjálfsögðu að vinna alla titla sem í boði eru,“ sagði Aron en Kiel er með fullt hús í deildinni, hefur fagnað sigri í öllum leikjunum 21.

AG-liðið er frábært

Aron segir sérlega gaman að mæta fjórum félögum sínum í íslenska landsliðinu en þeir Ólafur Stefánsson, Arnór Atlason, Snorri Steinn Guðjónsson og Guðjón Valur Sigurðsson leika allir stór hlutverk með danska meistaraliðinu

„Það er alltaf meiri stemning þegar það eru Íslendingar í liði andstæðinganna. AG-liðið er frábært og við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum að fara í erfiðan leik. Lið sem hefur Óla Stefáns og Mikkel Hansen í skyttustöðunum er í góðum málum en ég vil meina að við séum með betra lið og við viljum sýna það og sanna,“ sagði Aron.

Ánægður að fá Guðjón Val

Á næsta tímabili verður hann ekki eini íslenski leikmaðurinn í liði Kiel því Guðjón Valur Sigurðsson mun ganga í raðir liðsins í sumar. Spurður hvernig honum litist á það sagði Aron: „Þetta voru frábærar fréttir. Ég var svo sem búinn að vita að þetta stæði til en það er aldrei öruggt fyrr en nafnið er komið á blaðið. Guðjón verður frábær liðstyrkur fyrir okkur,“ sagði Aron.