„Þessi viðburður er mjög góð kynning fyrir okkur, matseðillinn á mjög viðráðanlegu verði og ákaflega gott tækifæri fyrir þá sem kannski komast sjaldan út að borða að gera sér dagamun á mörgum bestu veitingastöðum borgarinnar,“ segir Steinar.
„Þessi viðburður er mjög góð kynning fyrir okkur, matseðillinn á mjög viðráðanlegu verði og ákaflega gott tækifæri fyrir þá sem kannski komast sjaldan út að borða að gera sér dagamun á mörgum bestu veitingastöðum borgarinnar,“ segir Steinar. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar eru orðnir gjarnari en áður á að prófa eitthvað nýtt og eru duglegir að láta eftir sér að upplifa fjölbreytnina í veitingahúsaflóru landsins
Við fáum nú til okkar í annað skiptið í röð kokk frá danska veitingastaðnum Kiinkiin. Um er að ræða taílenskan stað í Kaupmannahöfn sem er ákaflega vinsæll um þessar mundir. Á staðnum eru 60 sæti og alvanalegt að biðlistinn eftir lausu borði sé nokkrar vikur,“ segir Steinar Bjarki Magnússon, annar tveggja yfirkokka Fiskmarkaðarins.

Fiskmarkaðurinn er þekktur fyrir að gera mat sem bræðir austurlensk áhrif saman við íslensk og Food & Fun-matseðill gestakokksins Antons Effs verður í svipuðum anda. „Eins og vera ber verður þar að finna rétti með taílensku ívafi. Meðal annars fá gestir að smakka Tom Yam-súpu með „dumplings“, svo verður eldaður vatnskarsi og þorsksalat, en í aðalrétt andabringa í taílenskri útfærslu. Eftirrétturinn er síðan taílenskur hrísgrjónaréttur með kókoshnetuís.“

Asískir undirtónar

Steinar segir verða spennandi að sjá hvernig danska gestinum mun takast til og skemmtilegt að geta boðið landanum upp á eldhúsgaldra beint frá einum vinsælasta veitingastað Danmerkur. „Við skipulögðum matseðilinn í sameiningu svo það gefur gestum um leið tækifæri á að upplifa áherslur Fiskmarkaðarins, en okkar réttum má best lýsa sem nútímalegum og nýstárlegum útfærslum með sterkum asískum tónum. Við bregðum t.d. á leik með kunnuglega rétti eins og vinsælu nautasteikina okkar með bernaise og frönskum, nema hvað frönsku kartöflurnar eru bragðbættar með japönskum Asahi-bjór, og asísku chili-kremi blönduðu út í bernaise-sósuna. Útkoman er kunnuglegur réttur en glæný matarupplifun.“

Steinar segir Food & Fun einn skemmtilegasta tíma ársins á veitingastaðnum. „Auðvitað er þetta einstakt tækifæri til að kynnast framúrskarandi kokkum frá öllum heimshornum, læra af þeim nýjar aðferðir og grípa nýjar hugmyndir. Á meðan hátíðin stendur yfir erum við hér á Fiskmarkaðnum líka dugleg að heimsækja aðra veitingastaði sem taka þátt í hátíðinni og sjá hvað er þar galdrað fram,“ segir hann. „En umfram allt er gaman að fá allan þennan fjölda fólks á staðinn. Þessi viðburður er mjög góð kynning fyrir okkur, matseðillinn á mjög viðráðanlegu verði og ákaflega gott tækifæri fyrir þá sem kannski komast sjaldan út að borða að gera sér dagamun á mörgum bestu veitingastöðum borgarinnar.“

Víkka sjóndeildarhringinn

Food & Fun segir Steinar að virðist virka til að koma fólki á bragðið, bókstaflega. „Æ fleiri Íslendingar eru farnir að temja sér að fara oft út að borða, og prufa þá líka nýja hluti. Það er meira gott hægt að finna í matarflórunni en lambasteik og eina með öllu. Nýjungagirnin er að aukast, og sjá líka margir að það er ekki endilega mikill verðmunur á því að heimsækja hamborgarastað annars vegar og hins vegar að fá sér flottan dinner á huggulegum veitingastað.“

Með litríkari veitingastaðaflóru og tíðari heimsóknum verða svo Íslendingar meiri matgæðingar. Steinar segir auknar kröfur matargesta gera starfið enn skemmtilegra fyrir metnaðarfulla kokka. „Við þekkjum það sennilega flest úr barnæsku að fá mauksoðna ýsu með mauksoðnum kartöflum hjá ömmu, og gilti þá að stappa nógu miklu af smjörva saman við til að gera réttinn bragðgóðan. Nú eru Íslendingar farnir að uppgötva „rétt eldaðan“ fisk og sá sem smakkar og upplifir vandaðan fiskrétt á einum stað gerir þeim mun meiri kröfur þegar hann fer út að borða á næsta stað,“ útskýrir hann. „Hér áður fyrr var helst kvartað yfir að það vantaði meiri sósu. Ef það var bara nógu mikil sósa á diskinum, sósan nógu þykk, og skammtarnir stórir voru Íslendingarnir rosa sáttir. Nú er ekki lengur kvartað yfir skammtastærðinni, og frekar hitt að gestir komi með aðfinnslur um að gera hefði mátt hitt eða þetta betur og dæma matargerðina af töluverði innsýn. ai@mbl.is

Þorskur

með sellerísalati

1 kg þorskur

80 g salt

80 g sykur

1 tsk. kóríanderfræ, mulin

Raspaður börkur af einni lime

Öllu blandað saman og stráð yfir þorskinn og látið liggja í sólarhring.

Sellerísalat

1 haus sellerí

4 msk. majónes

4 msk. flórsykur

1 msk. fínt saxaður graslaukur

1 msk. kashewhnetur, muldar

1 msk. rúsínur

Öllu blandað saman.

Þorskurinn eldaður við 180°C í 10 mín. og borinn fram með salatinu og hálfu lime til að kreista yfir.