Kristjana Guðrún Benediktsdóttir, Kidda, fæddist í Glerárþorpi 29. september 1951. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 16. febrúar 2012.

Foreldrar hennar eru Sigrún Aðalsteinsdóttir, f. 29. júlí 1930, frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, og Benedikt Kristjánsson, f. 7. apríl 1922, d. 30. september 1976, frá Sandgerðisbót í Glerárþorpi. Systkini Kristjönu eru: Ragnhildur, f. 1954, Bára, f. 1958, Víðir, f. 1959, og Sigrún, f. 1964.

Hinn 7. apríl 1972 giftist Kristjana Eðvarði Jónassyni frá Brúarlandi í Svalbarðshreppi í Þistilfirði, f. 15. maí 1953, d. 30. maí 2009, og bjuggu þau lengst af í Arnarsíðu 2b á Akureyri. Eðvarð var sonur hjónanna Önnu Guðrúnar Jóhannesdóttur, f. 2. júní 1920, d. 21. maí 1995, frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði, og Jónasar Aðalsteinssonar, f. 2. mars 1920, d. 19. apríl 2008, frá Hvammi í sömu sveit. Synir Kristjönu og Eðvarðs eru Jóhann Benedikt, f. 22. nóvember 1976, sjómaður, búsettur á Akureyri. Eðvarð, f. 24. febrúar 1981, vallarstjóri, sambýliskona hans er Elín Helga Hannesdóttir. Þau eru búsett á Akureyri. Sævar, f. 28. apríl 1983, nemi, búsettur á Akureyri. Barnabörn Kristjönu og Eðvarðs eru Harpa María Benediktsdóttir, f. 26. nóvember 1995, og Andrea Ylfa Benediktsdóttir, f. 21. september 1999.

Árið 1954 flutti Kristjana með foreldrum sínum og systur í húsið Jötunfell í Glerárþorpi. Barnaskólanám stundaði hún í Glerárskóla og fór síðan í Gagnfræðaskólann á Akureyri. Ung fór hún út á vinnumarkaðinn og stundaði ýmis störf á Akureyri og einnig saltaði hún síld á Raufarhöfn og Seyðisfirði. Þá starfaði hún um tíma í eldhúsinu á Hólum í Hjaltadal og kynntist þar Eðvarði, eiginmanni sínum. Eftir að synirnir þrír fæddust var hún um árabil heimavinnandi húsmóðir en fór síðan aftur út á vinnumarkaðinn þegar þeir voru orðnir stálpaðir. Meðal annars starfaði hún um tíma hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og á Strýtu. Frá árinu 2001 til 2009 starfaði Kristjana í ýmsum störfum í Hamri, félagsheimili Íþróttafélagsins Þórs. Árið 2009 fluttist hún búferlum til Reykjavíkur og starfaði á höfuðborgarsvæðinu til dauðadags, fyrst hjá HB-Granda, síðan á Hrafnistu í Hafnarfirði og loks hjá HK – Handknattleiksfélagi Kópavogs.

Útför Kristjönu fer fram frá Glerárkirkju í dag, 24. febrúar 2012, kl. 13.30.

Það er oft talað um að lífið sé ekki sanngjarnt og það sannast með þessu. Það er mjög ótrúlegt að við þurfum að kveðja þig í dag, elsku mamma okkar. Þú varst alltaf svo hörkudugleg kona, alltaf að gera eitthvað og hjálpa öllum í kringum þig, ósérhlífin. Að Guð skuli kalla á þig svona unga frá okkur táknar bara eitt, Guð þurfti á þinni aðstoð að halda uppi hjá sér. Þú varst alltaf svo góð manneskja, góð við alla í kringum þig og hafðir svo gaman af því að sjá alla brosa í kringum þig. En þó þú sért farin frá okkur, munt þú lifa áfram meðal okkar bæði í hjarta okkar og eins í öllum þeim fallegu og góðu minningum sem við eigum með þér. Margar þeirra eru úr öllum þeim skemmtilegu ferðalögum sem við fjölskyldan fórum í og líka allt sem við gerðum þegar við vorum að vinna fyrir íþróttafélagið Þór, en þar áttum við margar góðar stundir saman í Hamri. Eftir að pabbi dó og þú fluttir suður yfir heiðar til Reykjavíkur hittumst við ekki á hverjum degi eins og við gerðum, en þess í stað töluðum við saman í síma nánast á hverjum degi. Það skipti engu máli hvað klukkan var, t.d. þegar síminn minn hringdi upp úr miðnætti stundum, þá vissi maður að þú varst að hringja, þá oft nýkomin heim úr vinnunni og bara til að spyrja hvernig dagurinn hefði verið og segja mér sögur úr þinni vinnu. Ekki verður meira um svona símtöl hjá okkur og mun ég sakna þess mikið. En nú ert þú farin frá okkur og nú tekur við nýr tími hjá þér þar sem þú og pabbi eruð saman á ný, takið dansinn saman af flottri innlifun, haldið áfram að gera það sem ykkur pabba þótti skemmtilegast, en það var að ferðast, og nú munuð þið saman svífa yfir heiminn og skoða hann saman.

Í dag fylgjum við þér til hinstu hvíldar í hinum fallega kirkjugarði í Lögmannshlíð við hliðina á honum pabba okkar og viljum við kveðja þig með þessum fallegu orðum:

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Guð blessi minningu þína, þín verður sárt saknað.

Eðvarð og Elín.

Ó, blessuð stund, er burtu þokan líður,

sem blindar þessi dauðleg augu vor,

en æðri dagur, dýrðarskær og blíður,

með Drottins ljósi skín á öll vor spor.

(Wexels – þýð.

Matthías Jochumsson)

Elsku Kidda, nú ert burtu farin. Þú varst stóra systir okkar og þannig munum við ætíð minnast þín . Söknuðurinn er sár en í fyllingu tímans munum við sameinast að nýju og þá mun verða glatt á hjalla eins og ætíð þegar við komum saman. Skarðið sem höggvið er í systkinahópinn er að sönnu stórt en innan tíðar mun sorgin umbreytast í ljúfar minningar og sannarlega af nógu að taka þar sem þú átt í hlut, elsku systir.

Hvíldu í friði, kæra vinkona og hafðu þökk fyrir allar samveru- og gleðistundir á lífsleiðinni.

Guð blessi minningu þína. Ástarkveðja frá systkinum.

Ragnhildur, Bára, Víðir og Sigrún.

Ættmennum mínum í Jötunfelli kynntist ég fyrst þegar ég kom til náms við Menntaskólann á Akureyri. Í Jötunfelli átti ég athvarf, eins og svo mörg frændsystkin á undan mér og eftir, enda voru þar allir velkomnir. Oft hefur hugurinn reikað norður til að rifja upp glensið í Jötunfelli, en nú er staldrað við á erfiðari tímum.

Þótt oft liðu síðar mörg ár á milli var samt alltaf ánægjulegt að hitta Kiddu, hvort sem var úti á götu eða á ættarmóti.

Þegar Kidda fluttist suður endurnýjuðust gömul kynni. Við Kópavogsbúarnir áttum því láni að fagna að eiga hér með henni ánægjuleg kvöld og daga sem minntu mest á gamla glensið í Jötunfelli. Það var okkur mikil hvatning að sjá hvernig Kidda hafði unnið sig úr sínum missi og erfiðleikum og að finna hennar jákvæðu afstöðu til lífsins og tilverunnar. Þannig viljum við minnast Kiddu.

Við Kristín, synir okkar og tengdadóttir sendum Sídu frænku, sonum Kiddu og systkinum samúðarkveðjur.

Gunnar Stefánsson.

Það er svo margs að minnast á stundum sem þessum og nær ógjörningur að ætla að setja það niður í fáum orðum. Stórbrotin kona sem var vinur okkar allra og óhætt að segja að hafi verið fyndin og uppátækjasöm frænka sem hélt alla tíð svo góðu og hlýju sambandi við okkur. Þegar við vorum lítil börn var heimili hennar oft samkomustaður fyrir okkur og minnist maður ófárra stunda sem æskufjör og barnaleikur fyllti Arnarsíðuna. Það var tilhlökkunarefni fyrir þau sem fjær bjuggu þegar Kiddu og Edda var að vænta enda ávallt ávísun á mikið fjör. Nærvera hennar var ævintýraleg og auðgaði ímyndunarafl okkar sem börn og ekki síður þegar við urðum eldri. Hún hafði notalegt viðmót og var bakland fyrir okkur öll þegar við uxum úr grasi og hvert svo sem leiðir okkar lágu var viðkomustaður hjá henni. Þetta breyttist ekkert þegar börnin okkar tóku að koma í heiminn og mátti heyra sama tilhlökkunartón í þeim þegar orðin voru sögð, „Kidda frænka“.

Í dag minnumst við konu sem í hugum okkar var allt í senn, frænka, ævintýri og mjúkur faðmur að hvíla í.

Ævintýrið endalaust

ótrúlega dæmalaust.

Veiða lax í læknum heima

leiða mig um hulduheima.

Ævintýri æsku minnar

er að minnast frænku sinnar.

Alla tíð og því alls þakkar

þína tíma, hennar krakkar.

Dulúð fylgir dögun hverri,

dropa tár á hvarma þerri.

Yndisleg og einstök kona.

Alltaf var hún Kidda svona.

Ingunn, Hrafndís, Hafrún, Húni, Anna Marín, Sigrún Katrín, Benedikt K., Kristófer, Ragnar, Benedikt V., Katrín María, Magnús, Atli, Aðalsteinn og Agnes.

Það fyrsta sem flaug í gegnum hugann er við fréttum af andláti Kiddu var sú mikla hlýja og góðmennska sem hún lét ætíð í ljós í okkar garð. Alltaf þegar eitthvert okkar hitti Kiddu þá spurði hún frétta af fjölskyldunni okkar og bað um kveðjur góðar.

Kidda var mikill Þórsari og var félaginu mikill fengur í þessari kjarnakonu. Hún var markvörður í handboltaliði Þórs til margra ára og stóð sig afar vel á þeim vettvangi. Anna Gréta spilaði lengi með Kiddu og Steini sá um þjálfunina og á þessum árum myndaðist mikill og góður vinskapur. Kidda var ein af fáum sem ávallt notuðu bæði nöfnin hennar Önnu Grétu og það þótti Önnu vænt um alla tíð. Kidda starfaði svo lengi í félagsheimili Þórs, Hamri, og var það okkur alltaf jafn ánægjulegt að koma þangað í opna arma Kiddu, sama hvort um var að ræða íþróttaviðburði eða veislur. Hlýlegt viðmótið, hjálpsemin og dugnaðurinn voru Kiddu eðlislæg og ávallt var stutt í húmorinn og hláturinn hjá þessari góðu konu.

Við fráfall Edda fyrir tæpum þremur árum fóru í hönd erfiðir tímar hjá Kiddu enda vináttan og einlægnin á milli þeirra hjóna mikil. Nú eru þessi indælu hjón sameinuð á ný og geta þá glaðst þegar þau rifja upp gamlar og góðar stundir. Elsku Sída, Bensi, Eddi, Sævar og aðrir ástvinir. Ykkar missir er mikill og okkar hugur er hjá ykkur. Við sendum ykkur innilega samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum í ykkar lífi.

Anna Gréta, Aðalsteinn,

Sigurpáll Árni,

Geir Kristinn, Heiðar Þór

og fjölskyldur.

Elsku Kidda mín. Það er erfitt að aðlagast þessum nýju aðstæðum, þú varst nefnilega svo stór hluti af lífinu mínu. Að fara í heimsókn í Arnarsíðuna var alltaf gaman og ávallt var maður velkominn. Það er skrítið að í heimi þar sem margir milljarðar manna búa finn ég fyrir miklum einmanaleika við fráfall eins. Ég vildi þakka þér fyrir þær stundir sem við áttum saman. Þrátt fyrir að þú sért farin á brott verða minningarnar alltaf til staðar. Skilaðu kveðju til Edda frá mér, þið eruð sjálfsagt í faðmlagi hvort annars núna, þar sem þið eigið heima.

Kær kveðja,

Benedikt (Bensi Báru).

Hún kynnti sig sem Kiddu, áberandi harðmælt, þegar hún fór að sækja fundi hjá okkur Kjarnakonum, í Von, fyrir fáeinum árum. Okkur fannst það ágætt þar sem stundum voru tvær nöfnur hennar líka á fundunum. Kidda lagði gott eitt til Kjarnakvenna, seldi með okkur álfinn og tók virkan þátt í okkar starfi.

Það var aðdáunarvert hvað hún Kidda var kraftmikil og rösk. Hún lét sig ekki muna um að skreppa norður, kannski helgi eftir helgi og stundum jafnvel skutlast á Egilstaði líka. Fyrir norðan voru enda ræturnar, móðir hennar og synirnir sem voru henni svo kærir, ömmustelpurnar tvær og stór frændgarður og vinir.

Í haust brá Kidda svo undir sig betri fætinum einu sinni enn og heimsótti Austurlönd fjær. Framundan voru svo fleiri ferðalög og áhugaverð viðfangsefni. Hún var engan veginn farin að gera ráð fyrir að setjast í helgan stein, nýkomin í draumavinnuna þar sem hún var á heimavelli innan um ungt íþróttafólk. Svo er hún bara, allt í einu, horfin á vit almættisins. Við sitjum eftir agndofa en þakklátar fyrir að leiðir Kiddu og okkar sköruðust um stund. Gengin er góð kona, sem við eigum eftir að sakna og minnast. Samúð okkar er hjá móður hennar, sonum, tengdadóttur og öðrum ástvinum. Blessuð sé minning Kristjönu Guðrúnar Benediktsdóttur.

Kjarnakonur SÁÁ, Reykjavík.

Sú harmafregn barst okkur á fimmtudagsmorgni fyrir rúmri viku að þú hefðir yfirgefið þetta jarðlíf. Kona á besta aldri. Það er víst aldrei spurt að því. Við mæðgur minnumst þín með hlýju og þakklæti fyrir þá góðvild sem þú sýndir okkur báðum.

Þegar þú starfaðir í Hamri, félagsheimili íþróttafélagsins Þórs, voru samskipti okkar mikil og góð. Aldrei bar skugga á. Það vill svo til að það eru ekki bara foreldrar sem ala upp börn heldur þarf heilt þorp í verkið. Það þarf að hlúa að einstaklingum á öllum viðkomustöðum svo þeir verði að góðum borgurum. Við erum afar þakklátar fyrir þinn þátt í okkar lífi. Hvíl í friði, elsku Kidda.

Kæru bræður Bensi, Eddi og Sævar, Sída og aðrir aðstandendur, megi Guð vera með ykkur og styrkja í sorginni.

Hanna Dóra Markúsdóttir og Rakel Hönnudóttir.