María Jónsdóttir fæddist á Akureyri 26. ágúst 1941. Hún lést á öldrunarheimili Akureyrar, Hlíð, 17. febrúar 2012. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Forberg Jónsson, verkstjóri á Akureyri, f. 12.12. 1909, d. 12.2. 1990, og Helga Stefánsdóttir húsmóðir, iðnverkakona og verslunarmaður, f. 18.5. 1918, d. 28.6. 2007. Heimili þeirra var nær alltaf á Akureyri. María var önnur í röð fjögurra systkina. Þau eru Stefán Karl, f. 1938, d. 1999, Dómhildur Rúna, f. 12.2. 1944, Ingunn Björk, f. 26.11. 1951. María giftist 19. janúar 1963 Birgi Aðalsteinssyni, loftskeytamanni og rafeindavirkjameistara, f. 11. ágúst 1939. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Einar Einarsson, sjómaður og vélstjóri, f. 5.12. 1907 í Tálknafirði, d. 1.2. 1984, og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, f. 24.10. 1912, húsmóðir í Tálknafirði, d. 26.2. 2009. María og Birgir eignuðust þrjú börn, þau eru: Ingibjörg Helga Birgisdóttir, f. 14.10. 1962. Börn hennar með Jónasi Róbertssyni, f. 12.7. 1961, eru: Róbert Þór Jónasson, f. 10.1. 1986, verslunarmaður og Arnar Dofri Jónasson, f. 23.1. 1992 nemi. Sambýlismaður Ingibjargar er Birgir Óli Sveinsson. Einar Þór Birgisson, f. 8.9. 1964, símsmíðameistari. Börn Einars og Sigríðar Evu Rafnsdóttur, f. 16.7. 1973, eru: María Katrín Einarsdóttir, f. 30.9. 2001, og Einar Rafn Einarsson, f. 16.2. 2003. Birgir Karl Birgisson, f. 13.6. 1970, rafeindavirki og sölumaður. Börn Birgis og Elínborgar Sigríðar Freysdóttur, f. 30.8. 1975, eru: Arnheiður Birgisdóttir, f. 25.5. 2004, Auður Birgisdóttir, f. 5.5. 2007, Brimir Birgisson, f. 22.12. 2008. Sonur Elínborgar: Ýmir Ingimarsson, f. 29.5. 1996. María lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Eftir að hún giftist og eignaðist börn sá hún um heimilið af stakri prýði sjómannskonunnar. Þegar börnin voru komin á legg fór hún út á vinnumarkaðinn, vann m.a. hjá Niðursuðuverksmiðjunni og lengi hjá Brauðgerð Kristjáns hér í bæ. Útför Maríu verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 24. febrúar 2012, og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Þú ert konan sem:
komst mér í heiminn,
fóstraðir mig og brauðfæddir,
veitir mér skjól og hlýju.
Merkilegt hvernig lífið er. Þú ert farin, og smám saman fer ég að skilja að við munum ekki sjást aftur. Ég sagði við Ellu mína eftir að þú lést að ég gæti ekki munað neitt. Lá uppi í rúmi og hugsaði. Ekkert. Ég var dofinn. Dagar liðu. Nú eru liðnir 4 dagar og minningarnar koma hraðar en ég ræð við.
Nú rifjast upp litlir atburðir, eins og þegar ég strunsaði út um vaskahúsdyrnar í Norðurbyggð með kústskaft á lofti og braut ljósakrónuna í útiljósinu. Og þegar þú læstir búrinu, því við vorum of dugleg í smákökunum. Og svo náttúrulega þegar ég fékk gat á hausinn. Það gerðist oft. Eins og þegar ég hljóp á snúrustaurinn í Norðurbyggð. Við notuðum hann oft sem mark í okkar fótboltaleikjum. Þú hefur áreiðanlega verið mjög ánægð með öll boltaförin á þvottinum þínum. Og þegar við Árni Þór vorum að smíða kofa við Víðilund og ég slengdi klaufinni á hamrinum í hnakkann á mér. Ég var í kuldagalla og mér leið ekki vel og hringdi dyrabjöllunni hjá Ingunni systur þinni þar sem þú varst í kaffi. Þú komst út og þreifaðir á hausnum á mér og hafðir áhyggjur af hvað ég væri sveittur. Rauður sviti. Þú varst við hlið mér í hvert skipti sem spor var tekið upp á sjúkrahúsi. Þú hugsaðir um mig og okkur öll.
Hugsa oft um það hvernig þú gast verið róleg með þessi börn í kringum þig. Eins og þegar þú varst í sólbaði og við Árni að leika okkur í fótbolta, alveg ofan í þér. Þið systur settuð okkur frændurna reyndar einu sinni á gæsluvöll. Við strukum þaðan fljótt. Vildi að ég hefði þessa ró.
Fannst alltaf gott að fara með þér og pabba í Borgarfjörðinn. Til Dommu systur þinnar. Einnig fórum við þangað stundum bara tvö og Daddi bróðir þinn keyrði okkur á flutningabílnum. Það voru góð ferðalög. Fengum okkur svið á leiðinni. Og Bigga Kalla köku hjá Dommu, súkkulaðiterta sem toppar allt. Þetta voru alvöru road trip. Sakna oft Dadda bróður þíns. Ógleymanlegt þegar við fórum til hans og Lillu mágkonu í Skarðshlíðinni og horfðum saman á Prúðuleikarana í lit. Eru ekki mörg ljósár síðan þetta var?
Man líka eftir þegar þú gerðir að sárum mínum eftir að ég spilaði á moldarvellinum, við aðalvöllinn, gegn Þór í sjötta flokki. Ég skoraði 3 mörk í C-liði KA. Leið vel, en samt illa. Grét í baði þegar þú þreifst moldina úr lærunum á mér. Er með ör eftir þennan leik.
Skipti yfir í Þór. Þú hélst áfram að koma á leiki. Upp alla flokka og kynntist mínum vinum í fótboltanum og oft þeirra foreldrum. Ég vildi helst ekki hafa þig á vellinum þegar ég var að spila þegar ég fór að fullorðnast. Þú mættir samt. Mér fannst leikstíll minn ekki vera við þitt hæfi.
Þetta breyttist svo þegar Einar bróðir og svo seinna ég, fórum að keppa í mótorsporti. Þá fannst mér bara fínt ef þú mættir. En þá leið þér illa og mættir helst ekki til að horfa á. Hafðir áhyggjur af drengjunum þínum. Veit samt að þú varst stolt af okkur, enda stóð Einar sig mjög vel í þessu og þér leiddist það nú ekki. Seinna þegar við börnin þín vorum öll kominn í einhverskonar heilsurækt og lyftingar þá fannst þér það nú ekkert merkilegt. Þú gafst altént ekki mikið út á það. Fussaðir mikið þegar Inga var að sýna okkur einhverjar æfingar inn á stofugólfi.
Ég var svo heppinn að fá að vinna með þér eitt sumar í bakaríinu. Við vorum samt ekki á sömu vakt. Ég var á næturvakt og þú á dagvakt. Náði samt nokkuð oft að vinna með fólkinu sem þú vannst með, og stundum með þér. Þar kom mjög greinilega í ljós hvernig manneskja þú varst. Allir töluðu svo vel um þig og þú varst svo vel liðin. Ég man líka hvað þú lagðir mikla áherslu á það við mig að ég stæði mig vel í þessari vinnu sem þú útvegaðir mér. Stundvísi, samviskusemi og heiðarleiki eru orð sem eiga vel við þig. Er algjörlega sannfærður um að þú varst frábær starfsmaður. Það sagði þitt samstarfsfólk.
Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér líf okkar allra breytast þegar þú fékkst þitt fyrsta áfall. Þá bjó ég í Reykjavík. Þegar ég hitti þig eftir þessi veikindi þá fann ég mikla breytingu. Auðvitað breyttist þróttur þinn en einnig frumkvæði. Hlutir sem áður voru þér svo mikilvægir misstu aðeins vægi. En eftir að ég kynntist Ellu þá fannst mér ég kynnast þér aðeins betur, svona upp á nýtt. Enda fannst mér þinn persónuleiki breytast við þessi veikindi. Ég fann og upplifði mikla gleði með þér þegar við Ella eignuðumst okkar börn. Þú elskaðir barnabörnin þín öll og þau veittu þér gleði. Það er gott. Þau hefðu viljað meiri tíma með þér. Við hefðum öll viljað meiri tíma með þér.
Þroskaðir mig,
verndaðir mig,
elskaðir mig.
Ég mun sakna þín og minnast allan minn aldur.

Birgir Karl.