Ingibjörg Magnúsdóttir fæddist í Feigsdal við Arnarfjörð 18. júní 1920. Hún lést 26. febrúar 2012. Ingibjörg ólst upp í Feigsdal til 17 ára aldurs. Hún flutti þá í Reykjarfjörð við Arnarfjörð. Foreldrar hennar voru Rebekka Þiðriksdóttir kennari og Magnús Magnússon bóndi. Systkini hennar voru Páll f. 1921, d. 2009, Helgi f. 1923, d. 1961, Magnús f. 1927, d. 2010, Svanlaug f. 1930 og Skúli f. 1934. Ingibjörg tók kennarapróf frá Kennaraskólanum 1942, kenndi á Bíldudal og síðar sem farkennari í Borgarfirði með hléum til ársins 1952. Maki hennar var Þiðrik Baldvinsson, bóndi á Grenjum í Álftaneshreppi, f. 16.3 1911, d. 26.9 1996. Þau giftust 10.7. 1946 og bjuggu á Grenjum til ársins 1960 er þau fluttu í Borgarnes þar sem þau bjuggu síðan. Dóttir þeirra Rebekka Björk f. 28.11. 1955, maki Viðar Pétursson. Börn þeirra eru; 1. Hjalti – maki Flora Josephine Hagen Liste, þeirra börn Jenný Björk og Jakob Hrafn, 2. Kári, hans dóttir Guðrún Ágústa, 3. Ingibjörg, sambýlismaður Óli Ívarsson, þeirra börn Hjördís Lilja og Rebekka, barn Ingibjargar Birkir Snær Axelsson, 4. Þiðrik Örn, hans sambýliskona Valgerður Hlín Kristmannsdóttir. Ingibjörg vann ýmis störf í Borgarnesi, m.a. í Prjónastofu Borgarness og starfrækti stafaskóla. Hún vann ötullega í félagsmálum um árabil, var gjaldkeri í Verkalýðsfélagi Borgarness, ritari Kvenfélags Borgarness, gjaldkeri í Félagi eldri borgara í Borgarnesi, í stjórn DAB og sat m.a. í Barnaverndarnefnd. Hún átti þátt í stofnun fyrsta leikskólans í Borgarnesi. Hún ritaði fjölda greina í héraðsfréttablöð. Útför Ingibjargar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, laugardaginn 3. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 11.

Amma var að mörgu leyti ósköp venjuleg amma. Hún passaði okkur systkinin ótal oft meðan foreldrar okkar  voru að sinna vinnu eða öðru. Hún var snillingur í bakstri, bakaði m.a. bestu kleinur, pönnukökur (aldrei þó blóðpönnukökur eins og Rebekka langamma, sem betur fer!) og vínarbrauð með bleikum glassúr í heimi. Hún lumaði líka alltaf á ýmsu aðkeyptu góðgæti, svo sem eins og hobnobs- eða kremkexi. Hún bauð svo iðulega upp á nammimola ,,í nesti í kveðjuskyni enda óralöng leið á milli Þorsteinsgötu og Borgarvíkur! Í ófáum sveitaferðum okkar fjölskyldunnar upp í t.a.m. Grenjadal skellti maður ávallt óspennandi ostasamlokunni frá mömmu í andlitið á sér af eintómri skyldurækni og beið svo í ofvæni eftir því að sjá hvaða góðgæti væri í boði í nestisboxinu hennar ömmu. Gjarnan var þar að finna eitthvað af fyrrnefndu ljúfmeti og nóg af því handa öllum. Það var sem sagt ýmislegt sem var betra hjá ömmu en mömmu og sumt mátti á Þorsteinsgötunni sem ekki var í boði í Borgarvíkinni! Hún var því eins og sjá má afskaplega dæmigerð amma eins og staðalmynd flestra er af ömmum þ.e. feitlagin eldri kona með svuntu...að baka góðgæti.

Það var svo þegar maður var kominn lítið eitt til vits og ára farinn að nálgast unglingsár að maður sá að hún var ekki verksmiðjuframleidd amma eintakið sem okkur systkinunum féll í skaut. Hún hafði sína kosti og galla eins og allir aðrir og í kostunum felast nú oft gallar og öfugt. Ég hugsa að hún móðgist ekkert blessunin þó ég kalli hana brussu. Hún var ógurlega kraftmikil og má orða það svo að hún kallaði ekki allt ömmu sína. Að fylgjast með henni hreinsa ber var t.d. algert bíó. Þvílíkan andskotans djöfulgang við jafn mikið nákvæmnisverk hef ég aldrei séð. Hún var sennilega, án þess að ýkja það, 100 sinnum fljótari en ég við þá iðju. En eins og ég sagði áðan felast nú stundum gallar í kostunum og mér til mikils léttis tók ég eftir því að stundum læddist með eitt og annað, jafnvel grænn lyngormur, í skálina með hreinsuðu berjunum!

Hún var yfirleitt alltaf þægileg í umgengni en þó var hún skapstór og það fór ekkert á milli mála þegar henni mislíkaði eitthvað. Viðbrögðin voru nú stundum svolítið öfgafull og það gersamlega sauð á henni þegar henni fannst mikið liggja við. Hún átti til að bíta í sig einhverja vitleysu og það var stundum alveg ómögulegt að snúa henni við. Það má segja að hún hafi verið svolítið þrjósk og þver á köflum, en hver er það svo sem ekki? Þrátt fyrir þetta fór það aldrei á milli mála að hún elskaði fjölskylduna sína alveg skilyrðislaust og studdi okkur öll með ráðum og dáð. Þetta kristallaðist kannski í því þegar hún beit það í sig að ég hefði orðið fíkniefnadjöflinum að bráð. Ég stundaði á þeim tíma þá óskynsamlegu iðju að sjúga ,,snuff eða erlent neftóbak í nefið. Til að gera langa sögu stutta kom hún einn daginn auga á eina af tóbaksdollunum mínum og taldi sig á sama tíma sjá augljóslega að ástand mitt andlega væri annarlegt mjög.  Það var auðvitað alger misskilningur en hún brást ekki við með blíðlegheitum og mjúklegum fortölum. Hún bara trylltist! Gerði dolluna upptæka og tilkynnti mömmu að sonur hennar væri orðinn dópisti. Hún fylgdist mjög grannt með mér (ég bjó hjá henni á þessum tíma) næstu vikur og þegar hún kom ekki auga á fleiri dollur og greindi ekki þetta meinta annarlega ástand á mér aftur hætti smám saman að sjóða á henni. Það gekk þó aldrei, fyrr eða síðar, að koma henni í skilning um að það að væna mig um dópneyslu væri að lágmarki umtalsverðar ýkjur. EN það má ekki skilja mig sem svo að ég sé að hæðast að viðbrögðum hennar. Þau skýrast af hennar persónuleika og ofboðslegri væntumþykju og verndunarþörf. Hún ætlaði ekki að láta mig komast upp með svo eyðileggjandi og hættulega iðju (á engilsaxnesku gæti þetta kallast tough love að setja einhverjum stólinn fyrir dyrnar af einskærri ást og umhyggju).

Það fór illa í þessa kraft- og skapmiklu konu að eldast. Missa kraftinn og minnið. Ég veit að hún er sammála mér um það að sem betur fer lá hún ekki í kör í langan tíma (ekki að það henti nokkrum vel). Allt hefur sinn tíma, hringrás lífsins hefur sinn gang. Við skulum muna að við erum nú öll eins og eitt lítið sandkorn í fjöru eilífðarinnar. Hún getur verið stolt af sínu framlagi í lífinu eins og við þekkjum það og gerir ábyggilega góða hluti þar sem hún er stödd núna hvernig sem það er nú allt saman.

Takk fyrir allt, amma mín.

Kári Viðarsson