Teresia veðurstofustjóri fæddist 15.3. 1901 í Lund í Dalene í Suður-Noregi, dóttir Ingebret Anda yfirkennara og Ingeborg, f. Sangesland, húsmóður. Hún lauk stúdentsprófi í Kristiansand, kennaraprófi frá Kristiansands Lærerskole, cand. mag.

Teresia veðurstofustjóri fæddist 15.3. 1901 í Lund í Dalene í Suður-Noregi, dóttir Ingebret Anda yfirkennara og Ingeborg, f. Sangesland, húsmóður. Hún lauk stúdentsprófi í Kristiansand, kennaraprófi frá Kristiansands Lærerskole, cand. mag.-prófi í stærðfræði, efnafræði og stjörnufræði og embættisprófi í veðurfræði 1937 frá Háskólanum í Osló, fyrst kvenna.

Eiginmaður Teresiu var Barði Guðmundsson, lengst af þjóðskjalavörður. Þau fluttu til Íslands 1929 þar sem hún var veðurfræðingur á Veðurstofunni 1929-46. Hún tók við af Þorkeli Þorkelssyni veðurstofustjóra og var veðurstofustjóri, fyrst kvenna í heiminum, á árunum 1946-63. Sem veðurstofustjóri sinnti hún brautryðjandastarfi á sviði alþjólegrar samvinnu, einkum á vettvangi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), enda jókst mjög umfang og mikilvægi stofnunarinnar á þeim árum vegna stóraukinna flugsamgangna yfir Norður-Atlantshafi. Í kjölfarið tók til starfa flugveðurstofan á Keflavíkurflugvelli, undir yfirstjórn Veðurstofu Íslands. ICAO hóf fastar greiðslur til Íslendinga vegna þjónustu Veðurstofunnar og SÞ sendi hingað sérfræðinga til rannsókna og uppbyggingar. Þá deildaskipti Teresia Veðurstofu Íslands af mikilli framsýni.

Eftir að Teresia lét af störfum sem veðurstofustjóri sinnti hún sérfræðistörfum til 1979, en þá hafði hún starfað þar í hálfa öld. Hún var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir embættisstörf.

Teresia var eindregin kvenréttindakona, unni útivist og óbyggðaferðum, gekk á fjöll og stundaði hestamennsku. Hún þótti alúðleg í viðkynningu, hafði fágaðan húmor og var oft skemmtileg í tilsvörum.

Þótt fædd væri í Noregi og af norskum ættum var hún samt óneitanlega afar merkur Íslendingur. Teresia lést 31.7. 1983