Jón Engilberts íslenskur módernisti Tvær sýningar í Reykjavík á verkum þessa merka listamanns og báðar undir sama hatti orræna húsið og Félag íslenskra myndlistarmanna standa sameiginlega að sýningu á verkum Jóns Engilberts (1908­1972) á Listahátíð í...

Jón Engilberts íslenskur módernisti Tvær sýningar í Reykjavík á verkum þessa merka listamanns og báðar undir sama hatti orræna húsið og Félag íslenskra myndlistarmanna standa sameiginlega að sýningu á verkum Jóns Engilberts (1908­1972) á Listahátíð í Reykjavík. Sýningunni er skipt í tvennt því í Norræna húsinu eru olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar og myndir unnar með blandaðri tækni en í FÍM-salnum, Garðastræti 6, verða grafíkverk Jóns til sýnis en hann var einn af frumkvöðlum íslenskrar grafíklistar. Báðar verða sýningarnar opnar daglega frá kl. 14­19 og þeim lýkur sunnudaginn 3. júlí.

Jón Sigurjónsson sem síðar kallaði sig Engilberts að eftirnafni, frá haustinu 1927 þegar hann lagði af stað til Kaupmannahafnar að hefja listnám, fæddistí Reykjavík 23. maí 1908. Áhugi hans á myndlist var vakinn snemma, hann þótti skjótur til þroska og búinn góðum hæfileikum. Hann kynntist Muggi, Guðmundi Thorsteinssyni (1891­1924), og var nemandi í einkaskóla hans í Reykjavík veturinn 1921­1922. Í ævisögu sinni, Húsi málarans sem Jóhannes Helgi skráði og gefin var út í Reykjavík árið 1961, segist Jón ekki minnast þess "að hafa nokkru sinni á ævinni hlakkað eins mikið til nokkurs eins og tímanna hjá Muggi - nema ef vera skyldu páskasýningar Ásgríms". Jón stundaði teikninám í Kaupmannahöfn á árinu 1927 við Teknisk Selskabs Skole og í skóla Viktors Isbrand og við konunglegu Akademíuna á árunum 1928­1931 þar sem Ejnar Nielsen og Aksel Jörgensen voru hans aðalkennarar. Á árunum 1931­1933 stundaði hann síðan nám við Listaháskólann í Ósló og var aðalkennari hans þar Axel Revold.

Í Kaupmannahöfn í aprílmánuði árið 1929 fór Jón að halda sýningar á verkum sínum, ásamt þeim Ásgeiri Bjarnþórssyni, Gunnlaugi Scheving og Lárusi Ingólfssyni og fyrstu einkasýningu hélt hann í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík í lok september það sama ár. Í Myndlistarsögu sinni reynir Björn Th. Björnsson að leggja mat á þessar fyrstu sýningar Jóns og með hliðsjón af umsögnum blaða og nokkrum þeirra mynda sem varðveist hafa virðist sem Jón hafi snemma markað sér "nokkur þau einkenni sem áttu síðar meir eftir að verða burðarásinn í öllu verki hans". Í Morgunblaðinu 29. september 1929 segir í umsögn að "sérkenni mynda hans er það hve gerðarlega hann gengur frá þeim. Fer viðleitni hans í þá átt að skýra og lýsa séreinkennum og heildarsvip. En smáatriðin lætur hann liggja á milli hluta." Úr þessum orðum má lesa viðleitni Jóns til expressjónískrar tjáningar í myndlist sinni, að nota sjálft myndefnið sem grunn huglægrar tjáningar.

Jón Engilberts kvæntist árið 1932 Tove, dóttir Fredriks Fugmanns og konu hans, Henriette Caroline Amalie Jörgensen, og eignuðust þau tvær dætur, Amy og Birgittu. Eftir námsárin í Ósló og stutta viðdvöl á Íslandi settist hann að í Kaupmannahöfn og var lengst af búsettur þar, til ársins 1940 en þá fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Íslands og tók að byggja sér hús með stórri vinnustofu á horni Flókagötu og Rauðarárstígs. Í Kaupmannahöfn fór vegur Jóns vaxandi, hann tók virkan þátt í dönsku listalífi, var meðal annars kjörinn félagi í sýningarhópnum Kammeraterne og árið 1934 hélt hann þar sýningu ásamt Sigurjóni Ólafssyni, Þorvaldi Skúlasyni og fleiri listamönnum. Í umsögn ótilgreinds dagblaðs segir: "J. Engilberts er den mest imponerende af dem Malerier. Der er noget Revolution og Dramatik i ham, med lidt röde Faner, Strejke og Utrolighed Farvandet."

Í desember árið 1943 hélt Jón síðan fyrstu sýningu sína eftir heimkomuna til Íslands, í húsi sínu á Flókagötu 17. Bragi Ásgeirsson skrifar grein í sýningarskrá þar sem hann lýsir, með eftirminnilegum hætti, þessari húsbyggingu og einkum manninum sem átti þar heima:

"Á stríðsárunum síðari fylgdist ungur polli með því, er upp reis dularfullur hamar innarlega á Rauðarárstígnum, en sjálfur átti hann heima fremst við sömu götu.

Á þessum árum teygðist stígurinn til beggja átta þannig að hús foreldra minna var ekki lengur alveg fremst, þótt áður hafi það borið oddatöluna þrjú. Höfuðborgin var þá með mikla vaxtarverki, en menn voru þó ekki komnir lengra en svo að þetta taldist í útjaðri byggðar, með þeim blessunarríka áningarstað þarfasta þjónsins, Vatnsþróna, í næsta sjónmáli.

Svo flutti fólk í þetta gráa hörg, ábúðarmikið og framandi, og var ljóst að ekki var um neinar venjulegar mannverur að ræða, heldur fylgdi þeim ófresk dulúð hamarsins. Það fréttist fljótt að um væri að ræða Jón Engilberts listmálara og fjölskyldu, danska konu og tvær dætur, nýflutt til landsins frá kóngsins Kaupmannahöfn, á flótta undan ófriðnum í Evrópu. Væri eins gott að halda sig í hæfilegri fjarlægð, því maðurinn væri léttgeggjaður og haldinn mikilmennskubrjálæði, málaði alsberar konur og drykki brennivín. En óneitanlega fannst drengnum málarinn glæsilegur, einkum þegar hann klæddist svörtu og var að auki með blakkan hökutopp, dökkt hár og svört gleraugu í yfirstærð og stásslegan hatt."

Jón Engilberts var brautryðjandi í grafíklist hér á landi og einn stofnenda íslenskrar grafíkur árið 1954. Hann vann fjölmargar tré- og dúkristur á fjórða áratugnum í anda Edvards Munch og þýskra expressjónista. Hann segir í ævisögu sinni, að á þessum árum hafi hann trúað á "heimsbyltingu, nýja jörð og nýtt endurreisnartímabil" og í því samhengi telur hann grafíklistina henta betur en önnur listform til árangurs. Hún býr yfir tjáningarformi ádeilunnar ásamt því að vera seld á viðráðanlegu verði. Jón varð kennari við Handíða- og myndlistarskóla Íslands veturinn 1941­1942 og 1949­1950. Hann tók virkan þátt í félagsstörfum myndlistarmanna, var ritari FÍM 1945­1947 og Íslandsdeildar Norræna listbandalagsins 1946­1947 svo nokkuð sé nefnt. Jón stofnaði leirbrennslufyrirtæki í Reykjavík árið 1945 og myndskreytti nokkrar bækur með áhrifaríkum hætti, þar á meðal hátíðarútgáfu á ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.

Fyrri verk Jóns, fram til ársins 1940 eða þar um bil, má flokka undir þjóðfélagsraunsæi en eftir það beitti hann sterku og andstæðuríku litrófi í anda fígúratífs expressjónisma. Um 1965 sagði hann að mestu skilið við hlutlægt myndefni og tók til við abstrakt-expressjónísk málverk, draumkennd verk, þar sem birtast dularfull andlit og kynjaverur. Um almennan stílsmáta í verkum Jóns segir Björn Th. Björnsson í Myndlistarsögu sinni, að myndir hans séu "byggðar upp af sterkum, markandi línum, líkustum blýgreipingum steinglers, litirnir sem oftast dimmir og hið huglæga gildi myndefnisins leitt þannig fram, að þar er oftar hið ósagða, leyndardómurinn á bak við athöfn fólks eða dramatískt svipmót landslags, sem er hinn eiginlegi kjarni." Og í formála sýningarskrár kallar K. Torben Rasmussen, forstöðumaður Norræna hússins, Jón "íslenskan módemista vegna þess, að hann leitar stöðugt marka listarinnar í lífi sínu og verkum, lætur reyna á þau mörk og reynir að brjótast yfir þau."

Hin "horfna" vorgleði

Sýningin í Norræna húsinu snýst að nokkru leyti í kringum verkið Vorgleði sem Jón Engilberts var fenginn til að mála árið 1949 og skyldi það sett upp í afgreiðslusal Búnaðarbankans við Austurstræti. Í grein sem Hannes Lárusson myndlistarmaður skrifaði í tímaritið Heimsmynd í mars árið 1989 og birtist í sýningarskrá er saga þessarar myndar sögð og lagt út af henni. Jón átti að mála myndina í ákveðinni stærð og fékk hann frjálsar hendur með efnisval að svo miklu leyti sem eitthvað á myndfletinum vísaði til þjóðlífsins. Það tók hann þrjú ár að ljúka við málverkið en þegar til kom þótti myndin of djörf með glóandi litanotkun, nöktum kvenlíkömum, fola sem bíður færis, tístandi fuglum, útsprungnum trjám og ketti sem er við öllu búinn svo nokkuð sé nefnt. Allt iðar af vorgreddu en þjóðlífsminnin sem Jón vísaði til voru uppgróin bunga með glugga sem gat minnt á þjóðlega byggingarlist, kollótt kind, alklæddur bóndi og húsdýr á víð og dreif svo nokkuð sé nefnt. Málverkið var aldrei sett upp á vegg í óbreyttri mynd og var Jón á endanum neyddur til að breyta málverkinu og búa til úr því aðra mynd. Hann málaði því konurnar í föt því "náttúrufar manna átti ekkert erindi inn í banka" eins og Hannes orðar það svo skemmtilega. Ennfremur segir Hannes:

"Í þessari mynd er lýst mismunandi tilbrigðum ástarinnar, fjarlægri þrá, samdrætti, ástarbrögðum, ögrun, tilhugalífi, ástareldi, söknuði og aftur þrá. Fyrir miðri mynd hefur sífrjó konan kastað aftur af sér klæðunum í sigurvímu ástarinnar og hefur ekkert að fela frekar en dýrin. Í skugganum til hægri er nakin kona í þann veginn að sökkva sér í faðm mannsins. En til vinstri í myndfletinum gýtur önnur kona, sem er eins og fjötruð í eign fötum, bláum augum skáhallt til áhorfandans. Ástarsinfónían er í þann mund að hefjast. Eros c'est la viel Jón Engilberts hafði málað sína bestu, einlægustu og margbrotnustu mynd. Nýr tónn hafði verið sleginn í íslenskri myndlist. Ástinni hafði verið vísað til sætis á myndfletinum á stórbrotinn hátt.

Þetta upprunalega málverk kom því aldrei fyrir augu áhorfenda en á veggjum Norræna hússins er til sýnis lítil mynd sem Jón málaði árið 1944, í eigu Birgittu Engilberts, sem sú stærri er sögð byggjast á að einhverju leyti, einnig eru þar skissur af sumum hlutum verksins og krítarteikningar en eitt af markmiðum þessarar sýningar er að draga fram í dagsljósið þau verk Jóns sem tengjast þessari "horfnu" mynd.

Í fremri sal Norræna hússins eru sýnd olíumálverk sem mörg hafa ekki verið sýnd áður. Í innri salnum eru sýndar vatnslitamyndir, ýmsar erótískar myndir, þar á meðal myndskreytingar við smásagnasafnið Hitabylgju eftir Baldur Óskarsson skáld. Sú hefðbundna leið var farin í vali mynda, að auglýsa eftir verkum í einkaeign fólks og var síðan valið úr aðsendum verkum. Samtals er sextíu og ein mynd á veggjum Norræna hússins.

Í FÍM-salnum við Garðastræti eru valin þrjátíu grafíkverk, aðallega tréristur úr dánarbúi Jóns. Verkin eru ekki flokkuð eftir tímabilum en þó má skipta grafíkverkum Jóns í tvö meginviðfangsefni, þar sem annars vegar er um að ræða myndir helgaðar lífsbaráttu verkafólks en hins vegar myndir þar sem erótík og náttúrufar mynda sterk einkenni.

Eins og áður sagði verða þessar sýningar á verkum Jóns Engilberts opnar daglega frá kl. 14­19 en þeim lýkur sunnudaginn 3. júlí og ætti enginn áhugamaður um myndlist að láta þær fram hjá sér fara.

Jón Özur Snorrason.

Í Norræna húsinu og FÍM-salnum standa yfir sýningar á olíuverkum, vatnslitamyndum, teikningum og grafík Jóns.