Til þess að auka heilbrigði og velferð unga fólksins þurfa foreldrar, kennarar, skólastjórnendur og aðrir lykilaðilar að tryggja ungmennunum aðgang að fræðilegri og alhliða kynfræðslu.

Það hefur verið staðfest – enn og aftur. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Guttmacher-stofnunina benda til þess að kynfræðsla auki ekki líkurnar á því að unglingar byrji að lifa kynlífi snemma né að þau taki þátt í áhættusamri kynlífshegðun. Þvert á móti leiðir hún til þess að unglingar byrja seinna að stunda kynlíf en ella.

Í rannsókninni var stuðst við svör 4.691 ungmennis á aldrinum 15-24 ára við spurningum úr könnun á bandarískum fjölskyldum, National Survey of Family Growth, sem gerð var á árunum 2004-2008. Spurningarnar sneru að því hvort þátttakendur hefðu fengið formlega kynfræðslu fyrir 18 ára aldur um það hvernig ætti að segja nei við kynlífi og/eða um hvaða getnaðarvarnir væru í boði.

Þeir sem höfðu bæði fengið fræðslu um getnaðarvarnir og skírlífi reyndust hafa verið eldri þegar þeir byrjuðu að stunda kynlíf en þeir sem fengu enga slíka fræðslu. Þeir reyndust einnig í heilbrigðari samböndum og voru líklegri til þess að hafa notað smokka eða aðrar tegundir getnaðarvarna í fyrsta sinn sem þeir höfðu kynmök.

Niðurstöðurnar, sem birtar voru í vefútgáfu tímaritsins Journal of Adolescent Health, leiddu einnig í ljós að þær stúlkur sem höfðu verið fræddar bæði um getnaðarvarnir og skírlífi, voru mun líklegri til þess að nota smokk í fyrsta sinn sem þær höfðu kynmök heldur en þær sem höfðu eingöngu fengið fræðslu um skírlífi. (Þær stúlkur sem eingöngu voru fræddar um kosti skírlífis voru þó líklegri til að fresta því að stunda kynlíf en þær sem höfðu enga kynfræðslu hlotið.)

Á sama tíma og stjórnvöld þráast við að gera kynfræðslu að forgangsverkefni og leggja aðeins til fjármuni til fræðsluverkefna sem kenna „skírlífi fram að hjónabandi,“ sýna niðurstöður fræðilegra og vísindalegra rannsókna enn og aftur fram á mikilvægi yfirgripsmikillar kynlífsfræðslu. Þá styðja þær við athuganir Douglas Kirby á matskönnunum á hinum ýmsu tegundum kynfræðslu en það var niðurstaða hans að tveir þriðju hlutar þeirra kynfræðsluáætlana þar sem ungmennin voru bæði frædd um skírlífi og getnaðarvarnir höfðu jákvæð áhrif á hegðun þeirra.

Þar sem rannsóknir hafa ítrekað skilað svo góðum og jákvæðum niðurstöðum, hlýtur maður að spyrja sig hvenær stjórnmálamenn hyggist opna augun? Hversu margar rannsóknir af þessu tagi þarf að framkvæma áður en fjárveitingar til og stuðningur við yfirgripsmikla kynfræðslu verður þáttur í stefnumótun stjónvalda? Þau hafa hunsað sönnunargögnin alltof lengi og haldið áfram að ala á fáfræði ungu kynslóðarinnar um kynlíf, þannig að hana skortir bæði þekkingu og kunnáttu til að seinka því að byrja að lifa kynlífi eða nota verjur.

Til þess að auka heilbrigði og velferð unga fólksins þurfa foreldrar, kennarar, skólastjórnendur og aðrir lykilaðilar að tryggja ungmennunum aðgang að fræðilegri og alhliða kynfræðslu. Við þurfum að fara fram á það sem kjósendur. Það er nóg komið – og það á einnig við um þá gnægð gagna sem sanna mál okkar. Hafðu samband við þingmanninn þinn og láttu hann vita að þú styður heildræna nálgun í kynfræðslu og að þegar kemur að stefnumótun og forgangsröðun fjárveitinga, þá ætlist þú til hins sama af honum.