Jo Nesbø hefur komið sér fyrir á meðal bestu spennusagnahöfunda.
Jo Nesbø hefur komið sér fyrir á meðal bestu spennusagnahöfunda.
Spennusaga eftir Jo Nesbø. Íslensk þýðing: Bjarni Gunnarsson. Kilja, 509 bls. Uppheimar 2012.

Norski rithöfundurinn Jo Nesbø hefur komið sér fyrir á meðal bestu spennusagnahöfunda, persónusköpun hans á rannsóknarlögreglumanninum Harry Hole hefur tekist mjög vel og spennusaga hans , Snjókarlinn , er eins sú besta í þeim flokki.

Ekkert er saklausara en börn og móðurástin er víðast rík en til eru afbrotamenn sem svífast einskis og grimmd þeirra og ofbeldi bitnar ekki síst á börnum og konum. Í Snjókarlinum tengir Jo Nesbø saman sakleysið og grimmdina, þar sem snjórinn og snjókarlinn, ímynd hins góða og saklausa, gegnir veigamiklu hlutverki og snýst upp í andhverfu sína, verður tákn hins grimma og illa.

Sagan er ljót. Viðbjóðsleg á köflum. Kvenhatrið skín í gegn. Myrkraverkin leynast víða og lesandinn fylgir Harry Hole og félögum hingað og þangað í leit að lausninni. Lengst af afvegaleiddur. Spennan er á tíðum mjög mikil og mörgum þykir eflaust nóg um áður en yfir lýkur.

Ekki er auðvelt að semja góðan krimma en Jo Nesbø hefur það sem þarf til þess að ná bæði tökum á atburðarásinni og halda lesandanum við efnið. Sagan gerist í Ósló og Bergen og allar skýringar, hversu smávægilegar sem þær virðast vera, þjóna tilgangi sínum og öðlast vægi í lokin. Allt hefur sinn tilgang.

Ekki er öllum gefið að halda spennu á rúmlega 500 blaðsíðum en Jo Nesbø fer létt með það í Snjókarlinum . Uppbygging sögunnar gerir það líka að verkum að lesandinn, eins og ofbeldismaðurinn, getur ekki annað en fylgt Harry Hole sem skugginn. Þar með er tilgangi höfundar náð.

Harry Hole minnir stundum á Jack Reacher, helstu söguhetju Lee Childs, og stíllinn hjá Jo Nesbø er stundum ekki ósvipaður stíl Childs. Sumir hafa líkt Snjókarlinum við Karla sem hata konur eftir Stieg Larsson en þessar samlíkingar árétta þann stall sem Jo Nesbø er kominn á. Íslenska þýðingin er mjög góð, en prófarkalestur hefði mátt vera ögn betri. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir óþarfa pöddur.

Steinþór Guðbjartsson