Jökulsá á Brú 07/2010 Becker hefur myndað talsvert á virkjanasvæðum á hálendinu. Hér er hann á Kárahnjúkastíflu.
Jökulsá á Brú 07/2010 Becker hefur myndað talsvert á virkjanasvæðum á hálendinu. Hér er hann á Kárahnjúkastíflu. — Ljósmyndir/Olaf Otto Becker. Birt með leyfi Hatje Cantz Verlag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýski ljósmyndarinn Olaf Otto Becker myndaði nokkrum sinnum hér á landi um aldamótin og aftur nú á síðustu árum. Úrval verkanna er komið út í stórri bók í Þýskalandi.

Þýski ljósmyndarinn Olaf Otto Becker myndaði nokkrum sinnum hér á landi um aldamótin og aftur nú á síðustu árum. Úrval verkanna er komið út í stórri bók í Þýskalandi. Eitt helsta viðfangsefni listamannsins er tíminn, eins og hann birtist í íslenskum byggðum og náttúrunni. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Það var sérkennilegt að upplifa sömu sjónarhornin tíu eða tólf árum síðar, í samskonar birtu, og mynda þau aftur með stóru blaðfilmuvélinni,“ segir þýski ljósmyndarinn Olaf Otto Becker í hugleiðingum sem birtast í nýrri bók hans, Under the Nordic Light . Undirtitill hennar er Ferðalag gegnum tímann / Ísland 1999 - 2011 . Í ljósmyndum þessarar stóru bókar birtist athugul og rannsakandi sýn listamannsins. Hann rýnir í náttúruna og oftar en ekki inngrip manna í hana hér á landi; í nýjustu verkunum myndast samtal milli tvennra tíma í athyglisverðum myndapörum sem tekin eru frá sömu sjónarhornum. Auk þess má sjá ákveðin viðbrögð Beckers við samfélaginu hér á landi eins og það blasir við honum eftir bankahrunið.

Olaf Otto Becker er fæddur árið 1959 og er einn af eftirtektarverðustu ljósmyndurum sinnar kynslóðar í Þýskalandi. Hann myndaði hér á sína stóru blaðfilmuvél á árunum 1999, 2000, 2001 og 2002 og birtist afraksturinn í bókinni Unter dem Lichts des Nordens sem Schaden gat út árið 2005. Bókin fékk afar lofsamleg viðbrögð og seldist upp á skömmum tíma. Sýning á hluta verkanna var sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2007 en þá sýndu Ragnar Axelsson og Páll Stefánsson með Becker.

Um miðjan síðasta áratug fór Becker í leiðangra til Grænlands, sigldi einn með austurströndinni á gúmmíbát og myndaði. Afrakstur þessara ferða birtist í verðlaunabókunum Broken Line og Above Zero sem Hatje Cantz Verlag gaf út. Útgefandinn ámálgaði þá við Becker að endurútgefa bók hans með Íslandsmyndunum og lagði til að hann færi aftur hingað til lands og bætti fleiri myndum við. Becker féllst á það enda langaði hann að sjá hvað hefði breyst frá fyrri heimsóknum. Því fór svo að hann sneri aftur sumarið 2010 og myndaði – og það sem hann sá þá kallaði á enn eina ferð 2011. Úrval gömlu og nýju verkanna birtist í þessari nýju bók um ferðalagið gegnum tímann, alls rúmlega níutíu ljósmyndir.

Ægifegurð og virkjanir

Það er formhreinn, hlutlægur og oft kaldhamraður heimur sem birtist í myndum Beckers. Eða réttara sagt er sýnin oft kaldhömruð, náttúran sem hann sýnir okkur er ýmist mild eða hörð, og í raun allt þar á milli. Á kápumynd bókarinnar er horft af Kárahnjúkastíflu ofan í nær alveg vatnslaust gljúfrið og blasa ummerkin um brambolt mannanna við á börmum þess og í botninum. Í fyrstu myndunum milli spjaldanna má síðan tala um ægifegurð, hið súblíma , annars vegar í mynd sem sýnir Lómagnúp og Öræfajökul og annarri þar sem horft er á Gullfoss neðan af gilbarminum. Margar myndanna eru teknar í rigningu og undir mjólkurhvítum himni, sem varpar jafnri lýsingu á landið sem skráð er í smæstu atriðum á stóra filmuna. Heiti sumra gefa í skyn hvar þær eru teknar, F35 frá 1999 sýnir þannig brú á ónefndri jökulá og F208 ónefnt lón við þjóðveg. Canal frá árinu 2000 sýnir fráveituskurð einhvers staðar á Þjórsársvæðinu en mörg verkanna eru frá virkjanasvæðum og uppistöðulónum: þarna er rafstöð við Þórisvatn, Hrauneyjalón, verið er að leggja raflínur í Þóristungum, á sama stað eru gámar og kassahaugur við búðir verkamanna, og nokkrar myndir sýna mannanna verk við Kárahnjúkavirkjun. Sumar þessara mynda birtast sem pör, af sama sjónarhorni, nánast óbreyttu, en áratugur hefur liðið milli mynda. Þarna eru komin sömu sjónarhornin sem Becker talar um og þótti heillandi að skapa.

Tíminn í myndapörum

„Það hreif mig hvað þessir staðir höfðu breyst lítið á þessum tíu til tólf árum,“ segir hann. „Að sumu leyti hreifst ég af ógreinanlegri breytingu, af því sem er nær óbreytt, frekar en af því sem augljóslega er annað en var. Gríðarlega mikið getur breyst í lífi manns á einu, tveimur eða tíu árum – en hins vegar er erfitt að greina þennan tíma í ósnortinni náttúru. Er mögulegt „að ljósmynda tímann“? Það var ný og heillandi upplifun að glíma við að skilja og skynja tímann á þennan hátt,“ segir hann.

Þessi skoðun á tímanum sem hefur liðið birtist á áhugaverðan hátt í mörgum pörum í bókinni. Oftast hefur Becker fundið sama sjónarhornið og myndar við sömu birtuskilyrðin. Á bryggju í Neskaupstað hafði árið 2000 verið hrúgað upp nót með gulum netakúlum en tíu árum síðar var annarskonar nót á sama stað og björgunarbúnaður kominn á húsvegginn þar sem ekkert var áður, ef einhver skyldi detta í sjóinn. Á Siglufirði myndar hann sama sérkennilega hornhúsið, einnig með tíu ára millibili, og við fyrstu sýn hefur fátt breyst en þegar betur er að gáð er það margt: skilti hefur sigið, annað horfið, málning er horfin af gangstéttarkanti og nýtt þak komið á húsið við hliðina. Sláandi er að sjá í tveimur pörum hvað skriðjöklar hafa hörfað við Öræfajökul og í ljósmyndum af Bjarnarfossi undir Eyjafjöllum líða 12 ár á milli þess að Becker bröltir upp í hlíðina, setur upp vélina og smellir af. Munurinn er lítill, fyrir utan að vatnsrennslið er minna á seinni myndinni. Þessi litla breyting finnst honum einmitt heillandi. „Hlutlægt séð virðist fossinn ekkert hafa breyst á þessum tólf árum, það er eins og seinni myndin gæti hafa verið tekin nokkrum mínútum á eftir þeirri fyrri,“ segir hann. „En huglægt séð þá bætist persónuleg sýn eða upplifun við það sem blasir við. Minningar mínar um staðinn óma í myndinni. Að sjá þetta landslag að nýju, í sömu birtu en tólf árum síðar, er eins og að fletta upp á bókamerki sem sett hefur verið í bók minninganna. Þessi huglæga upplifun er eitthvað sem ég einn sé og skynja, en það að ég bendi á hana getur hjálpað öðrum að upplifa svipaða hluti.“

Margt sýnt, annað gefið í skyn

Ekki fer mikið fyrir fólki í íslenskum myndheimi Beckers. Hann myndar reyndar sömu mótorkrosskappana árin 2001 og 2011 og sjá má fólk við störf, eins og þrjá menn við að rista torf árið 2002. Sú sýn sem birtist í mörgum nýjustu myndunum, af húsum sem ekki hefur tekist að ljúka við eftir bankahrun, er þó áhugaverð, því þar má finna fyrir fólkinu sem býr í hálfbyggðum byggingunum þrátt fyrir að aðstæðurnar séu ekki þær sem draumar stefndu að, eða fjarveran í beinagrindum húsanna gefur í skyn hvað átti að vera. Með hlutlægri nálguninni auðnast listamanningum að sýna aðstæðurnar en einnig að gefa margt í skyn.

Útgefandi bókar Beckers, sem er í stóru broti og glæsilega prentuð og innbundin, er gæðaforlagið Hatje Cantz.