Damian Lewis og Claire Danes á Golden Globe-verðlaunahátíðinni.
Damian Lewis og Claire Danes á Golden Globe-verðlaunahátíðinni. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandarísku spennuþættirnir Homeland, sem Stöð 2 sýnir um þessar mundir, hafa farið sigurför um heiminn og leikurunum víða verið hampað. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Hver er hann eiginlega þessi Nicholas Brody? Er hann föðurlandssinnuð stríðshetja heimt úr helju eða handbendi og flugumaður Al-Qaeda í faðmi Sáms frænda? Vandi er um slíkt að spá. Carrie Mathison, sérfræðingur innan vébanda bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, er á hinn bóginn nokkuð viss í sinni sök. Hún hefur heimildir, sem hún treystir, fyrir því að hryðjuverkasamtökin alræmdu hafi snúið bandarískum fanga í Írak og að það sé Nicholas Brody. En hvernig á hún að sanna það – áður en það er um seinan? Bandaríska þjóðin ber Brody á höndum sér og yfirmenn Mathison hjá CIA sjá ekkert grunsamlegt við hann.

Þannig liggur landið í nýjum bandarískum spennuþáttum, Homeland, sem fallið hafa í frjóa jörð hjá leikum sem lærðum víða um heim, þar á meðal hér heima. Homeland hefur sópað til sín verðlaunum, var meðal annars valinn besti sepnnu/dramaþátturinn á Golden Globe-verðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári. Fyrsta serían telur tólf þætti en þegar hefur verið tekin ákvörðun um að framleiða nýja seríu, aðra tólf þætti, á þessu ári. Áætlað er að þeir fari í loftið vestra í lok september.

Stjörnuleikur Claire Danes

Styrkur Homeland þykir ekki síst liggja í frammistöðu aðalleikaranna, hins breska Damians Lewis, sem fer með hlutverk Brodys, og hinnar bandarísku Claire Danes, sem leikur Mathison. Bæði voru þau tilnefnd til Golden Globe-verðlauna og hirti Danes gullhnöttinn.

„Það sem Homeland hefur umfram aðra spennuþætti sem gerðir hafa verið eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 er stjörnuleikur Danes – langbesta frammistaða leikkonu á árinu,“ sagði gagnrýnandi Washington Post og bætti við: „Ég hef ánetjast þættinum.“

Claire Danes verður 33 ára í næstu viku. Hún er jafnvíg á flest form leiklistar og meðal verka sem hún hefur komið nálægt má nefna Píkusögur og Pygmalion á sviði, kvikmyndirnar Little Women, Romeo + Juliet og To Gillian on Her 37th Birthday og sjónvarpsþættirnir My So-Called Life og Temple Grandin. Fyrir frammistöðu sína í þeim báðum fékk hún Golden Globe-verðlaunin.

Damian Lewis, sem er 41 árs, hefur lengi verið kunnur leikari í Bretlandi, einkum í sjónvarpi. Hann vakti fyrst athygli vestra fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Band of Brothers fyrir um áratug. Hann réð við framburðinn og fyrir fimm árum lék Lewis aðalhlutverkið í spennuþættinum Life í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir góðar umsagnir festist alþýða manna ekki við Life og tökum var hætt eftir tvo vetur.

Voðafrétt undir voðum

Þriðja hjólið undir vagninum, ef svo má að orði komast, er hin brasilíska Morena Baccarin, sem fer með hlutverk Jessicu Brody, sem verður fyrir þeim ósköpum að fá símtal frá löngu glötuðum eiginmanni sínum meðan hún nýtur ásta með besta vini hans. Tilverunni er snúið á hvolf.

Baccarin, sem er 32 ára, hefur búið í Bandaríkjunum frá sjö ára aldri og var um tíma bekkjarsystir Claire Danes. Baccarin hefur víða komið við, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum, einkum þó í aukahlutverkum. Homeland er hennar langstærsti biti á ferlinum til þessa.