Allir hafa gott af að hafa aðgang að vönum yfirlesara, sem getur ráðlagt höfundinum og hann treystir.

Höfundar rafbóka gera sitthvað til að koma sér á framfæri í netverslum Amazon, þar með talið að selja bækur sínar fyrir lítið sem ekkert. Það getur og gefið góða raun, enda er lítið að þvi að selja bók á 100 kall ef maður selur af henni 100.000 eintök. Ekki er þó bara að nýir höfundar selji bækur ódýrt heldur má líka fá bækur gefins.

Á hverjum degi eru fjölmargar nýjar bækur gefins á Amazon, en yfirleitt fæst hver bók ókeypis ekki nema í nokkra daga, jafnvel ekki nema einn dag. Ýmis vefsetur fylgjast með því hvaða bækur detta inn, flokka þær og birta með lýsingu og því hægt að velja hvað maður vill lesa, hvort sem það er reyfari, ástarsaga, unglinga- eða fræðibók.

Ég las fyrir stuttu nokkrar af þeim bókum sem þannig voru gefnar og reyndi að velja eftir því hvaða umsögn þær höfðu fengið á Amazon, en sumar voru með fullt hús af stjörnum eða nánast fullt hús í umsögnum þar – nánast meistaracverk ef ráða mátti af gagnrýninni. Við nánari skoðun kom þó annað í ljós, því fæstar þeirra voru gæðabókmenntir, reyfararnir flestir klisjukenndar rökleysur, ástarsögurnar uppskrúfuð vella og unglingabækurnar eins og þær hefðu verið skrifaðar af unglingum.

Málið er nefnilega það að þó verkið sé fyrst og fremst sprottið af vinnu rithöfundarins þá þurfa yfirleitt ýmsir fleiri að koma að áður en það er boðlegt. Allir hafa þannig gott að hafa aðgang að vönum yfirlesara, sem getur ráðlagt höfundinum og hann treystir. Víst sjóast menn í skrifunum og góður rithöfundur er jafnvel búinn að skrifa í áratugi áður en hann skrifar eitthvað sem honum finnst vert að gefa út. Það er snúið að skrifa skáldverk og nánast ógerningur að skrifa vandað slíkt verk í frístundum eins og sannast hvað eftir annað í fríbókaflóðinu.