„Ég treysti mér til biskupsþjónustunnar og treysti Guði til að leiða mig, styrkja og senda mér traust samstarfsfólk,“ segir séra Agnes M. Sigurðardóttir.
„Ég treysti mér til biskupsþjónustunnar og treysti Guði til að leiða mig, styrkja og senda mér traust samstarfsfólk,“ segir séra Agnes M. Sigurðardóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr biskup yfir Íslandi verður senn kjörinn. Tveir prestar eru í kjöri í síðari umferð, séra Agnes M. Sigurðardóttir sóknarprestur í Bolungarvík og séra Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju. Sunnudagsmogginn lagði fyrir þau nokkrar spurningar af þessu tilefni.

Séra Agnes M. Sigurðardóttir:

– Hvers vegna býður þú þig fram til biskupsþjónustu?

Margir hvöttu mig til þess að gefa kost á mér. Eftir umhugsun, samtal og bæn ákvað ég að láta af verða. Ég tel að reynsla mín af starfi innan þjóðkirkjunnar til 30 ára, sem sérþjónustuprestur, prestur í borg, sveit og sjávarplássi, sem prófastur auk fjölmargra trúnaðarstarfa sem ég hef gegnt innan kirkjunnar nýtist vel í biskupsþjónustu. Þannig hef ég kynnst innviðum þjóðkirkjunnar sem og starfinu á akrinum. Ég treysti mér til biskupsþjónustunnar og treysti Guði til að leiða mig, styrkja og senda mér traust samstarfsfólk.

– Rætt er um biskupsþjónustu en hverjum eða hverju á biskup að þjóna fyrst og fremst?

Sem prestur prestanna er biskup andlegur leiðtogi kirkjunnar og þjóðarinnar. Biskup á að telja kjark og von í þjóðina á grundvelli trúarinnar á Jesú Krist. Biskup leiðir kirkjuna og verður að hafa góða yfirsýn yfir öll mál hennar, innri sem ytri. Við þurfum að taka höndum saman um að skapa frið og sátt um störf hennar. Það er gert með samstarfi okkar allra er vinnum að málum hennar. Kirkjan stendur á traustum grunni. Á þeim grunni er starfið byggt. Halda ber því sem vel hefur reynst en bæta það sem miður hefur farið. Sem biskup mun ég standa vörð um hagsmuni kirkjunnar og leiða hana, þannig að hennar lífgefandi boðskapur setji mark sitt á einstaklinga sem samfélag.

Grunnur trúarinnar

– Hvaða gildi hefur Biblían fyrir kirkju og kristni nútímans? Er hún heilög ritning? Eiga orð hennar að ráða því hvað er leyft eða bannað og hvernig kirkjan kennir í dag?

Kirkjan byggir á þeim trausta grunni sem trúin á Jesú Krist er. Grunnur trúarinnar er kynntur í Biblíunni, sem nefnd hefur verið hið lifandi orð Guðs. Hún er lifandi vegna þess að í henni er að finna boðskap sem gagnast fólki á öllum tímum og í öllum aðstæðum lífsins. Sögur Biblíunnar kenna okkur að takast á við lífið með hjálp Guðs og góðra manna. Biblían er heilög, sem þýðir að í henni talar Guð inn í aðstæður mannanna og mótar þannig hugmyndir okkar um mann og heim. Orð hennar hafa áhrif á nútímann og þegar við lesum hana er Jesús Kristur aðalatriðið. Út frá honum lesum við og sjáum allt sem í Biblíunni stendur. Við eigum að taka mark á þeim boðskap og leyfa honum að verka í daglegu lífi okkar. Að því leyti ræður hún því hvað er leyft og hvað bannað. Til þess að vera betur í stakk búin til að meta þann boðskap þarf að fara fram stöðug rannsókn á textum hennar til að þeir tali með sínum hætti inn í nýjar aðstæður og nýtt samfélagsform. Kirkjan flytur þennan boðskap inn í samtímann eins og hann er hverju sinni þannig að hann mótist af kristinni trúarhugsun og kristnum gildum.

– Hvernig ætlar þú að beita þér fyrir því að endurreisa orðspor kirkjunnar?

Traust til þjóðkirkjunnar er með minnsta móti eins og kannanir sýna. Hins vegar er traust til kirkjunnar í nærsamfélaginu mikið. Verkefni okkar næstu misserin er að byggja upp traust til kirkjunnar sem stofnunar – traust til yfirstjórnar kirkjunnar. Traust verður ekki byggt upp nema með markvissum aðgerðum sem taka tíma. Til að byggja það upp þarf að gera fólk jákvætt gagnvart kirkjunni og því góða sem hún hefur fram að færa. Það er meðal annars hægt með eftirfarandi hætti.

Með því að kirkjan sýni gott fordæmi og fari eftir lögum og reglum og takist á við mál er upp koma í samræmi við það.

Með því að hlusta og ræða við fólk. Taka mark á því sem það segir og læra af því hvernig hægt er að láta rödd kirkjunnar hljóma í samtímanum. Með því að fela fleirum ábyrgð á hendur í hennar fjölbreytta starfi. Þar á ég ekki síst við leikmenn.

Með því að segja frá öllu því góða starfi sem unnið er í söfnuðunum úti um allt land.

Með því að nálgast fólk á jafnréttisgrundvelli, af virðingu og kærleika.

Með því að ná niðurstöðu um mál með samstöðu en ekki með valdboði.

– Telur þú að með nýjum biskupi megi fá aftur til liðs við þjóðkirkjuna þá sem hafa yfirgefið hana á undanförnum árum?

Já, það tel ég að fari saman við aukið traust til kirkjunnar og þá staðreynd að kirkjan tekur á móti öllum, til okkar eru allir velkomnir. Foreldrar móta heimilislífið og það er ekki eins á öllum heimilum. Þess vegna hlýtur ný húsmóðir á heimilinu að hafa áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi með sínum hætti. Það er nauðsynlegt að láta það heyrast að kirkjan vill reynast öllum vel og býður alla til samfélags við sig. Sem biskup mun ég leggja mig fram um það að láta það heyrast að „kirkjuheimilið“ stendur öllum opið og þangað eru allir velkomnir. Það er frjálst val fólks hvort það vill tilheyra þessari fjölskyldu eða ekki. Ef fólk velur að koma aftur heim þá skal ekki standa á mér að taka vel á móti því, hlusta og næra.

Skylda kirkjunnar að ástunda kristniboð

– Sífellt stærri hluti íbúa landsins ýmist afneitar allri trú eða aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni. Er þörf á auknu kristniboði á Íslandi? Ætlar þú að beita þér fyrir því verðir þú kosinn biskup?

Jesús sagði okkur að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum. Það er því skylda kirkjunnar að ástunda kristniboð. Íslenskir kristniboðar sem starfa í öðrum löndum boða, fræða, sinna kærleiksþjónustu og taka þátt í daglegu lífi fólksins. Það sama gerir kirkjan í eigin landi. Fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð hefur sínar ástæður fyrir því. Fjölmargir hafa flutt hingað til lands sem hafa alist upp í landi þar sem önnur trúarbrögð eru ríkjandi. Önnur eru kristinnar trúar, en tilheyra öðrum kirkjudeildum. Við eigum að taka vel á móti öllum og bjóða þau velkomin bæði til lands okkar og til kirkju okkar. Þjóðkirkjan hefur enda það hlutverk gagnvart þjóðinni, umfram önnur trúfélög, að til hennar geta allir leitað hvort sem þeir tilheyra henni eða ekki. Og hún starfar um allt land til þjónustu reiðubúin fyrir alla.

– Hver er afstaða þín til hjónavígslu samkynhneigðra?

Það gilda ein hjúskaparlög í landinu og er mér ljúft að gefa saman fólk af sama kyni eins og gagnkynhneigða. Eftir góðar umræður um málið var niðurstöðu náð og hana virði ég og fylgi henni. Allir eru jafnir fyrir Guði og kirkjan tekur öllum sem til hennar leita með opnum örmum.

– Hvert finnst þér að hlutverk leikmanna og kirkjuþings eigi að vera?

Án leikmanna væri ekkert kirkjustarf. Hvað stjórnsýslu kirkjunnar varðar má benda á þá staðreynd að kirkjuþing, sem er valdamesta stofnun kirkjunnar, er að meirihluta skipuð leikmönnum. Kirkjan þarf að efla leikmannastarfið þannig að fólk geti tekist á við verkefni sókna og kirkjuþings af öryggi og þekkingu.

– Kirkjan hefur verið gagnrýnd fyrir mikla miðstýringu úr Reykjavík. Munt þú beita þér fyrir meiri valddreifingu og gera grasrótina, sóknirnar um allt land, virkari?

Já, ég er hlynnt því. Kirkjan þarf að nýta betur hæfileika og þekkingu grasrótarinnar. Huga þarf að grenndarstýringu og fela svæðunum fleiri verkefni. Huga að því hvort vinna þurfi öll verk á einum stað eða hvort megi dreifa verkefnum til gagns fyrir kirkjuna alla. Þetta þarf að skoða í samhengi við stefnumótun yfirstjórnar kirkjunnar.

– Aðskilnaður ríkis og kirkju. Er hann þegar hæfilegur, hvaða fyrirkomulag kýst þú?

Aðalmálið er að kirkja og þjóð eigi áfram samleið svo sem verið hefur um aldir. Kirkjan er nú þegar sjálfstæð samkvæmt lögum. Ég vil að hún verði það áfram en njóti jafnframt verndar og stuðnings ríkisvaldsins hér eftir sem hingað til, eins og segir í 62. grein stjórnarskrárinnar. Í rúm þúsund ár höfum við byggt menningu okkar á kristnum grunni, þjóðinni til heilla. Það er bjargföst trú mín að farsælast sé að sá háttur verði áfram við lýði. Hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja hér á landi og ef breyting verður þar á verður að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla áður en Alþingi ákveður þær breytingar.

– Nú innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna en lækkar þau að hentugleikum. Telur þú rétt að kirkjan hafi heimild til að ákveða sjálf sín sóknargjöld svipað og sveitarfélög ákveða útsvar?

Fyrsta skrefið er að tryggja það að ríkið skili þeim tekjum sem það innheimtir fyrir kirkjuna, þ.e. sóknargjöldunum. Verði það ekki gert er til lítils að velta því fyrir sér hvort kirkjan ákvarði sóknargjöldin sjálf. Þessa spurningu þarf að skoða í samhengi við aðskilnað ríkis og kirkju. Verði slíkur aðskilnaður að veruleika mun kirkjan væntanlega sjálf ákvarða sín sóknargjöld.

– Hvernig biskup þarf kirkjan nú?

Kirkjan þarf biskup sem hlustar á þarfir fólks og tekur tillit til ólíkra sjónarmiða. Biskup sem telur kjark og von í þjóðina á grundvelli trúarinnar á Jesú Krist. Biskup sem leiðir kirkjuna og fólk innan hennar til góðra verka og hefur góða yfirsýn yfir öll mál hennar, innri sem ytri. Kirkjan þarf nú á því að halda að bæta yfirstjórn sína og biskup þarf að taka þátt í og leiða það ferli. Biskup þarf að sýna að kirkjan kemur fram við fólk af virðingu og með kærleika eins og Jesús sjálfur gerði. Við þurfum að ljúka upp leyndarmálinu um starf kirkjunnar um land allt.