Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða þjóðfélagsöfl eru að takast á og að verki í íslenzku samfélagi um þessar mundir.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða þjóðfélagsöfl eru að takast á og að verki í íslenzku samfélagi um þessar mundir. Eins og jafnan áður eru það hefðbundin hagsmunasamtök á borð við LÍÚ, sem berst nú hart fyrir sinni stöðu í sjávarútvegsmálum, og svo er augljóst að ný kynslóð kallar eftir auknum áhrifum eins og sjá má á forsetaframboðum þeirra Þóru Arnórsdóttur og Herdísar Þorgeirsdóttur.

Helzta umbrotasvæðið er þó – eins og eðlilegt er – vettvangur stjórnmálanna. Þeir flokkar sem þar takast á hafa í stórum dráttum verið á ferðinni í 80-90 ár. Þeir hafa sundrast og sameinast og þeir hafa fengið ný nöfn en í megindráttum búum við við þá flokkaskipan, sem komin var á í kringum 1930. Þeir hafa starfað saman og þeir hafa barizt hver gegn öðrum. Á milli þeirra hafa orðið til margvísleg tengsl og stundum náin. Stöku sinnum heift og hatur en í grundvallaratriðum hefur samfélag stjórnmálanna verið óbreytt í bráðum hundrað ár. Þar hafa orðið til ættarveldi og valdahópar. Í sumum tilvikum er þriðja og jafnvel fjórða kynslóð sömu ætta á ferð. Þessir hópar hafa stjórnað landinu saman – með öllum venjulegum fyrirvörum – allan þennan tíma.

Þeir Ólafur Thors og Einar Olgeirsson voru höfuðandstæðingar í íslenzkum stjórmálum. En Ólafur sá til þess, að eiginkona Einars fékk greitt þingfararkaup Einars á meðan hann var í fangelsi Breta á stríðsárunum. Og samtal á milli Ólafs og Einars (og/eða Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Dagsbrúnar) forðaði stórátökum á vinnumarkaðnum í nóvember 1963.

Í maí 1965 bað Finnbogi Rútur Valdemarsson (afabróðir Þóru Arnórsdóttur og fyrrum þingmaður Sósíalistaflokks og Alþýðubandalags) mig að bera undir Bjarna Benediktsson, þá forsætisráðherra (þeir voru vinir frá menntaskólaárum), hugmynd um lausn vinnudeilu, sem þá var í uppsiglingu. Bjarni tók hugmyndinni vel, embættismenn hans lögðust gegn henni, en hann hafði þær ráðleggingar að engu og næstu ár risu 1250 íbúðir fyrir láglaunafólk í Breiðholti á grundvelli samninga, sem Guðmundur J. Guðmundsson gerði.

Þannig vann stjórnmálaelítan á Íslandi saman, þegar á þurfti að halda, þótt hart væri tekizt á um önnur mál, svo sem Atlantshafsbandalagið, varnarliðið og útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Nú er það áleitin og áhugaverð spurning, hvort valdaskeið þessarar pólitísku yfirstéttar á Íslandi sé að renna sitt skeið á enda, hvort völd hennar hafi hrunið í hruninu og hvort vandræðagangurinn í landstjórninni og á vettvangi stjórnmálanna síðustu misseri sé til marks um að þessi tiltölulega þröngi valdahópur ráði ekki lengur við það hlutverk, sem honum hafi verið ætlað.

Það er lífseig saga og ekki bara hér á Íslandi að þriðja kynslóð í fjölskyldufyrirtæki missi það gjarnan út úr höndunum á sér. Eru nýjar kynslóðir stjórnmálaelítunnar á Íslandi að klúðra því sem að þeim snýr?

Þjóðin varð fyrir sálrænu áfalli í hruninu, sem hún er ekki byrjuð að vinna úr. Hitt er alveg ljóst, að hún hefur misst trúna á grunnstofnanir samfélagsins. Staða Alþingis í huga þjóðarinnar eins og hún mælist í könnunum er skýrt dæmi um þetta. Og í því felst að fólk hefur heldur enga trú á þeim valdahópum, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni og ráða þinginu.

En hefur vantrúin á það sem er og hefur verið áratugum saman leitt til þess að íslenzka þjóðin hafi fundið sér nýjan farveg til þess að ráða ráðum sínum? Það blasir a.m.k. ekki við að svo sé. Umbrotin má sjá, viðleitnin er til staðar en það er ekki að sjá að stefnan hafi verið tekin í nýja átt.

Stjórnmálaflokkarnir allir virðast vera ófærir um að endurnýja sig og gildir einu, hvort um er að ræða Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu, Framsóknarflokk eða Vinstri græna. Kannski er skýringin að einhverju leyti sú, að hagsmunaöflin í samfélaginu eru enn að takast á innan flokkanna sjálfra. Einu sinni hélt ég að styrkur Sjálfstæðisflokksins væri ekki sízt sá, að hafa alla þessa hópa innan sinna vébanda og að flokkurinn gæti þar með verið hinn afgerandi vettvangur málamiðlunar innan samfélagsins. Nú spyr ég sjálfan mig að því, hvort þessi fjölbreytni sé kannski orðin Sjálfstæðisflokknum fjötur um fót.

Það þarf nýtt blóð að koma til sögunnar til þess að beina samfélaginu í nýjan farveg og skapa þessari fámennu eyþjóð þá framtíðarsýn, sem hún þarf á að halda. Það nýja blóð kemur ekki frá embættismönnum og bírókratískum klíkum í Brussel. Það kemur bara úr grasrót þjóðfélagsins til sjávar og sveita. Nýjar og óþreyttar kynslóðir Íslendinga, sem hingað til hafa staðið á hliðarlínu eða haldið sig til hlés af öðrum ástæðum þurfa að koma fram á (víg)völlinn og láta til sín taka.

En hvernig getur það gerzt? Í Arabalöndunum hafa hinir nýju samskiptamiðlar samtímans orðið sá farvegur, sem ný þjóðfélagsöfl hafa notað til þess að brjótast í gegn. Kannski hefur það gerzt í örmynd hér? Hefur ekki krafan um nýjan forseta hvað sem framboði núverandi forseta líður einmitt orðið til á þeim vettvangi? Gætu þeir ekki orðið það sker, sem skúta Ólafs Ragnars steytir á?

Hver veit nema arabíska vorið geti orðið einhverjum hvatning hér norður í höfum!

Óbreytt ástand þýðir stöðnun og svo hnignun.

Við getum ekki látið það gerast.