[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lífsbaráttan er hörð á hjara veraldar, hvort sem er í norðri eða suðri. Hver verður framtíð heimskautasvæðanna? Myndir: Ragnar Axelsson rax@mbl.is

Í Thule, sem er nyrsta byggð í heimi, fer frostið niður í 58 gráður yfir háveturinn. Nú er vorið hins vegar í nánd en frá miðjum maí og fram í miðjan ágúst fer sólin aldrei undir sjóndeildarhring. Þá hýrnar yfir veiðimönnunum Tóbíasi Alataq og Mamarut Kristiansen sem beita hundum sínum fyrir sleðana og leggja út á ísinn til að veiða rostunga, seli og náhvali (sjá mynd á opnunni hér að framan). Fara þarf að öllu með gát enda þynnist ísinn með hverju árinu sem líður vegna hlýnunar jarðar. Sú staðreynd ógnar veiðimannasamfélaginu í þessari 600 manna byggð eins og í öðrum byggðum inúíta. Heimildir eru fyrir því að fyrstu inúítarnir hafi komið til Grænlands fyrir 4.500 árum.

98% ef flatarmálinu þakin jökulís

Suðurskautslandið er um það bil 14 milljón ferkílómetrar og er því fimmta stærsta heimsálfan að flatarmáli á eftir Asíu, Afríku, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. 98% ef flatarmáli Suðurskautslandsins eru þakin jökulís, sem er að meðaltali 1,6 kílómetra þykkur.

Að meðaltali er Suðurskautslandið kaldasta, þurrasta og vindasamasta heimsálfan og hefur hæstu hæð að meðaltali yfir sjávarmáli af öllum heimsálfum. Þar sem lítil úrkoma er nema við strendurnar er miðbik álfunnar tæknilega séð stærsta eyðimörk í heimi. Á Suðurskautslandinu eiga engir menn varanleg heimili og þar eru engin ummerki um núverandi eða forsögulegar byggðir innfæddra manna. Aðeins plöntur og dýr sem þola kulda vel lifa þar, til dæmis mörgæsir, nokkrar tegundir hreifadýra, mosar, fléttur og margar tegundir af þörungum.

Á suðurskautinu eru allar skepnur friðaðar. Það breytir þó ekki því að lífsbarátta dýranna er hörð enda gerir verstu veður sem um getur þar um slóðir, frost getur farið allt niður í 88 gráður. Þá reynir á samstöðu mörgæsanna en auk kuldans sitja hlébarðaselir gjarnan um þær en þeim þykir mörgæsir ljúfar undir tönn.

Á myndinni hér til hliðar getur að líta Adélie-mörgæsir slá á létta strengi með Weddell-sel á ströndinni en sú tegund sela er ekki sólgin í mörgæsir. Um fimm milljónir Adélie-mörgæsa eru á suðurskautinu og skipta þær sér niður á 38 svæði.

Á myndinni hér að ofan má síðan sjá ísjaka sem brotnað hafa frá suðurskautshellunni og fljóta um í hafinu. Þeir minna um margt á borgir sökum stærðar sinnar. Það eru engar skýjaborgir!

orri@mbl.is