Charlie og Craig Reid hafa engu gleymt og von er á nýrri breiðskífu frá bræðrunum í vor.
Charlie og Craig Reid hafa engu gleymt og von er á nýrri breiðskífu frá bræðrunum í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir voru fjallbrattir skosku tvíburabræðurnir sem sungu hástöfum um það árið 1988 að þeir myndu ganga 500 mílur, aðrar 500 mílur og allt upp í 5.000 mílur til að ná fundum elskunnar sinnar. Falla síðan örmagna fram á þröskuldinn.

Þeir voru fjallbrattir skosku tvíburabræðurnir sem sungu hástöfum um það árið 1988 að þeir myndu ganga 500 mílur, aðrar 500 mílur og allt upp í 5.000 mílur til að ná fundum elskunnar sinnar. Falla síðan örmagna fram á þröskuldinn.

But I would walk 500 miles

And I would walk 500 more

Just to be the man who walked 5,000 miles

To fall down at your door.

„I'm Gonna Be (500 Miles)“ er langstærsti smellur þjóðlagapönkaranna Charlies og Craigs Reids í The Proclaimers. Fór eins og eldur í sinu um heiminn fyrir hartnær aldarfjórðungi og heyrist ennþá af og til á öldum ljósvakans. Það var á annarri breiðskífu bræðranna, Sunshine on Leith, og komst hæst í 3. sæti bandaríska smáskífulistans og 11. sæti þess breska. The Proclaimers endurútgaf lagið árið 2007 og þá renndi það sér alla leið á topp breska listans. Af öðrum lögum sveitarinnar má nefna „Letter From America“, „I'm on My Way“, og „Life With You“.

Ólust upp í Auchtermuchty

Charlie og Craig Reid fæddust 5. mars 1962 í Leith í Skotlandi og urðu þar af leiðandi fimmtugir í síðasta mánuði. Þeir ólust að hluta til upp í Auchtermuchty, sem skiptir í sjálfu sér engu máli, bara gaman að brúka kjarngott orð eins og Auchtermuchty í Sunnudagsmogganum. Bræðurnir reyndu fyrir sér í hinum og þessum rokk- og pönkböndum en settu The Proclaimers á laggirnar 1983. Fyrsta breiðskífan, This is the Story, kom út fjórum árum síðar. Ári síðar kom fyrrnefnd Sunshine on Leith sem er langvinsælasta plata bræðranna, náði meðal annars platínusölu í Bretlandi.

The Proclaimers hefur starfað fram á þennan dag og er von á níundu hljóðversplötunni, Like Comedy, í næsta mánuði. Seinni plötur bræðranna hafa ekki notið sömu hylli og þær fyrstu en þeir ferðast eigi að síður enn vítt og breitt um heiminn til að leika tónlist sína.

Bræðurnir er grjótharðir stuðningsmenn knattspyrnuliðsins Hibernian og varð lag þeirra „Sunshine on Leith“ snemma þemasöngur félagsins, sungið við öll stærri tækifæri.

Reid-bræður eru kunnir fyrir hnyttna og oft og tíðum hápólitíska texta en þeir eru yfirlýstir aðskilnaðarsinnar, vilja sjálfstæði Skotlandi til handa. Þeir fylgdu Skoska þjóðernisflokknum lengi að málum og endurómuðu oft stefnumál hans á tónleikum. Fyrir fimm árum tilkynnti Charlie á hinn bóginn að hann væri genginn í Skoska sósíalistaflokkinn. Skýringin var sú að hann hefur skömm á fjármögnunaraðferðum þjóðernisflokksins, sem þiggur fé frá stórfyrirtækjum.

orri@mbl.is