Koss: Mýksta aðferð veraldar til að segja einhverjum að þegja!
Koss: Mýksta aðferð veraldar til að segja einhverjum að þegja! — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jákvæð umræða um móðurmálið getur verið bráðskemmtileg.

Ég spurði menntaskólanema um daginn: Hvað merkir orðasambandið ár og síð? Hann stóð á gati. Þetta merkir snemma og seint, þ.e. alltaf. Atviksorðið ár merkir snemma, sbr. orðin árla og morguns-ár (ekki: morgun-sár!). Ég bætti svo við spurningunni: Hvert er frumstig atviksorðsins síðast? Svarið er: síð, sbr. t.d. síð sumars.

Sama nemanda spurði ég: Hvað er athugavert við þessa málsgrein í mannkynssögubókinni þinni: „Frjálsbornir menn klæddust skikkjum (toga) sem þeir ófu um sig eftir ákveðnum reglum“? Nemandinn hugsaði sig lengi um og sagði síðan: Hér er líklega ruglað saman sögnunum vefja – vafði – vafið og vefa – óf – ófum – ofið. Höfundurinn hefur ætlað að skrifa: „Þeir vöfðu skikkjunum um sig.“

Um daginn skrifaði mér kennari og sagði m.a.:

„Ég hef áhyggjur af talsmáta starfsfólks í skólanum mínum, eiginlega fæ ég stundum á tilfinninguna að aðrir vinni á móti því sem maður er að basla við að kenna. Ég tala mikið um málið við nemendur, það sé ekki sama hvernig við tölum. Ég vil að þau segi: „Ég skil þetta ekki,“ og hjálpa þeim ekki strax þegar sagt er: „Ég er ekki að skilja þetta.“ Mér finnst líka óþolandi þegar sagt er henni hlakkar, honum langar o.s.frv. Flestir starfsmenn skólans, og þá undanskil ég ekki kennara, tala svona. Meira að segja hef ég hert upp hugann og fundið að pistlum á heimasíðu skólans míns og það finnst mér ekki auðvelt... Gaman væri að fá þitt álit á þessum hugrenningum. Á ég bara að láta þetta afskiptalaust?“

Við eigum að ræða þessi atriði og mæla með því sem telst viðurkennt í formlegu máli. Ég vil reyndar ekki fara fram með neinni hörku, heldur skýra þessi fyrirbæri og beita málfræðihugtökum. Jákvæð umræða um móðurmálið getur verið bráðskemmtileg. Ég bið nemendur mína um að flytja slíka umræðu heim til sín og inn í vinahópinn. Um texta bréfritarans hér að ofan hafði ég nokkur orð í kennslu minni nú í vikunni og beitti þá hugtökunum persónuleg sögn (hlakka), nefnifallsfrumlag (ég hlakka), ópersónuleg sögn (langa), þolfallsfrumlag (mig langar), þágufallsfrumlag (mér finnst) o.s.frv. Ég sagði líka að mér þætti ískyggilegt ef „ég er ekki að skilja“/ „hún var að standa sig“ o.s.frv. ætla að útrýma „ég skil ekki“/ „hún stóð sig vel“; og ég reyndi að rökstyðja þá skoðun með því að segja að vart auðgaði það tungu okkar ef við hættum að beygja sagnirnar og notuðumst einungis við nafnhátt þeirra.

Síðar í fyrrnefndu bréfi segir:

„Þegar ég var barn leiðrétti mamma mig alltaf þegar ég sagði „ég þori því ekki“. Ég átti að segja „ég þori það ekki“ og síðan ég loks lærði það hef ég haldið mig við það. Nú segja flestir þori því ekki, maður tekur eftir ef einhver segir þorir það. Hvað segir þú um þetta?“

Ég var líka leiðréttur svona og mig minnir að sú leiðrétting hafi verið í samræmi við gömlu málfræðibókina. En ef flett er upp í Íslenskri orðabók sést að þora það og þora því (og meira að segja þora þess) teljast jafngild orðasambönd. Mér hefur verið sagt að þora því tíðkist mjög á Vestfjörðum. Í sinni ágætu skáldsögu, Hjarta mannsins, sem gerist þar vestra, segir Jón Kalman: „...hann þorir ekki öðru en að taka við...“ Hér stýrir sögnin þora semsagt þágufalli. Niðurstaðan er þá sú að við þurfum að fara varlega í leiðréttingar, fletta upp, ræða leyndardóma málsins og helst að beita málfræðihugtökum. Í þessu tilviki mætti segja börnunum að sögnin þora virðist geta stýrt þolfalli, þágufalli og jafnvel eignarfalli; ég gæti trúað að slíkt væri einsdæmi um áhrifssögn.

Jón Kalman er sannur töframaður í stílbrögðum og málbeitingu. Í fyrrnefndri sögu, Hjarta mannsins, þar sem rætt er um hina leyndardómsfullu Geirþrúði og ástmann hennar, enska skipstjórann (sem fór að tala um börnin sín á Englandi), segir m.a.: „Geirþrúður sagði ekkert, horfði bara upp í himininn, fingurnir gældu við hár hans, stoppaði hann ekki, þaggaði ekki niður í honum með kossi sem er mýksta aðferð veraldar til að segja einhverjum að þegja, ég loka vörum þínum með kossi vegna þess að orð þín kvelja mig.“

Með mjúkum aðferðum höldum við baráttunni áfram.