Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, fæddist á Hunkubökkum í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 16.

Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, fæddist á Hunkubökkum í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 16. apríl 1887 en ólst síðar upp í Reykjavík, sonur Samúels Jónssonar, trésmíðameistara í Reykjavík, og Margrétar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar hans byggðu hús að Skólavörðustíg 35 og þar var hann síðar lengst af búsettur.

Guðjón lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, fullnaðarprófi í trésmíði 1908, stundaði nám við Iðnfræðaskólann í Kaupmannahöfn og lauk fullnaðarprófi í byggingarlist frá Kunstakademiets Arkitektskole 1919. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem lauk sérstöku háskólaprófi í arkitektúr enda var hann settur húsameistari ríkisins strax að námi loknu, 1919, skipaður í embættið ári síðar og gegndi því til dauðadags.

Guðjón var ekki einnar stefnu maður. Hann teiknaði hús í nýklassískum stíl, fúnkisstíl og rómantískum stíl og þróaði í framhaldi af því með sér form sem hann sótti í íslenska byggingarsögu, sbr. Héraðsskólann á Laugarvatni, en ekki síður í íslenska náttúru sem kemur hvað skýrast fram í stuðlabergsformi Hallgrímskirkju.

Hann var auk þess áhugamaður um skipulagsmál, sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins frá 1921, kom mjög að fyrsta aðalskipulagi Akureyrarbæjar 1927 og hélt fram hugmyndum um aðgreiningu atvinnusvæða og íbúðasvæða sem þá þótti nýlunda.

Af helstu verkum Guðjóns má nefna hús Eimskipafélags Íslands, Kristskirkju í Landakoti, Landspítalann, Þjóðleikhúsið, Háskóla Íslands, aðalbyggingu; Akureyrarkirkju, Hótel Borg og Sundhöllina.

Mörg stórhýsa hans hafa veðrast illa vegna steypuskemmda, ekki síst á stórum, láréttum flötum þessarra húsa. Ýmis þeirra hafa þó verið gerð upp svo sómi er af og því verður vart á móti mælt að margar byggingar Guðjóns eru með svipmestu stórhýsum sem reist hafa verið á Íslandi.

Guðjón lést 25. apríl 1950.