18. apríl 2012 | Í dag | 277 orð | 1 mynd

Merkir Íslendingar

Indriði G. Þorsteinsson

Indriði fæddist í Gilhaga í Skagafirði 18. apríl 1926, sonur Þorsteins Magnússonar, bónda og síðar verkamanns á Akureyri, og k.h., Önnu Jósefsdóttur húsfreyju. Þorsteinn var bróðir Jóhanns Péturs, b.
Indriði fæddist í Gilhaga í Skagafirði 18. apríl 1926, sonur Þorsteins Magnússonar, bónda og síðar verkamanns á Akureyri, og k.h., Önnu Jósefsdóttur húsfreyju.

Þorsteinn var bróðir Jóhanns Péturs, b. á Mælifellsá, afa Jóhanns Péturs heitins, Sveinssonar, lögmanns og formanns Sjálfsbjargar. Anna var dóttir Jósefs, b. í Áshildarholti, bróður Ingibjargar, móður Pálma Hannessonar, alþm. og rektors, en bróðir Pálma var Pétur, faðir Hannesar skálds.

Indriði var lengst af kvæntur Þórunni Friðriksdóttur og eignuðust þau fjóra syni, Friðrik blaðamann; Þorstein málfræðing; Arnald, sem lengi var blaðamaður við Morgunblaðið en er nú heimsþekktur glæpasagnahöfundur, og Þór listmálara.

Indriði stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni 1942-43, var bílstjóri á Akureyri og blaðamaður við Tímann og Alþýðublaðið. Hann var ritstjóri Tímans 1962-73, framkvæmdastjóri þjóðhátíðar 1973-75, var aftur ritstjóri Tímans 1987-91 og skrifaði eftir það sjónvarpsgagnrýni í Morgunblaðið til æviloka. Hann þótti íhaldssamur en beittur penni í þjóðmálaumræðu líðandi stundar og oft afar skemmtilegur í ræðu og riti.

Indriði sendi frá sér skáldsögur, smásögur, ævisögur og leikrit. Hann var fremur íhaldssamur raunsæishöfundur sem, eins og margir af hans kynslóð, fjallaði í frægustu sögum sínum um þjóðflutningana úr sveit í þéttbýli og meinta siðferðishnignun samfara þeim hræringum. Hann vann smásagnakeppni 1951 með sögunni Blástör og þá kom út smásagnasafn hans, Sæluvika. Fyrsta skáldsaga hans, 79 af stöðinni, kom út 1955 og skáldsagan Land og synir, 1963, en báðar þessar sögur voru kvikmyndaðar auk þess sem hann samdi kvikmyndasöguna Útlagann. Að þessu leyti var hann einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar. Þá samdi hann fjölda annarra skáldsagna og smásagna og skrifaði ævisögur Stefáns Íslandi, Jóhannesar Kjarvals og Hermanns Jónassonar. Ritsafn hans kom út upp úr 1990. Indriði var í heiðurslaunaflokki Alþingis. Hann lést 3. september 2000.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.