24. apríl 2012 | Innlendar fréttir | 303 orð | 2 myndir

„Aflinn ævintýralegur á köflum“

• Meiri afli í netaralli Hafrannsóknastofnunar en nokkru sinni áður • Fyrri met slegin í Breiðafirði • Aflabrögð þó enn léleg í kantinum austan við Eyjar • Vorum í góðri veiði nánast alla daga

Fiskirí Selvogsbankinn hefur gefið góðan afla í netaralli tvö síðustu ár og segist skipstjórinn á Kristbjörgu sjaldan hafa séð annan eins afla og í rallinu sem lauk um helgina.
Fiskirí Selvogsbankinn hefur gefið góðan afla í netaralli tvö síðustu ár og segist skipstjórinn á Kristbjörgu sjaldan hafa séð annan eins afla og í rallinu sem lauk um helgina. — Morgunblaðið/Alfons
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Meiri afli fékkst í nýafstöðnu netaralli en nokkru sinni áður, en það fór nú fram í 17. skipti, en rallinu lauk um helgina. Aflabrögð voru yfirleitt góð og í Breiðafirðinum voru fyrri met slegin.
Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Meiri afli fékkst í nýafstöðnu netaralli en nokkru sinni áður, en það fór nú fram í 17. skipti, en rallinu lauk um helgina. Aflabrögð voru yfirleitt góð og í Breiðafirðinum voru fyrri met slegin. Líkt og undanfarin ár voru aflabrögð þó léleg í kantinum austan við Eyjar.

Kristján Kristjánsson, skipstjóri á Kristbjörgu ÍS, lagði netin við Reykjanes að Þrídröngum og segir hann að sum svæðin hafi gefið „óskaplega mikið af fiski“, og nefnir Selvogsbankann sem dæmi. Kristbjörgin tók ekki þátt í rallinu í fyrra. „Aflinn var ævintýralegur á köflum og ég hef sjaldan séð annað eins,“ segir Kristján. Þeir drógu trossurnar 54 sinnum og komu að landi með 285 tonn.

Saxhamar SH frá Rifi lagði netin í Breiðafirði og lauk rallinu fyrir viku. Aflinn sló fyrri met að sögn Friðþjófs Sævarssonar, skipstjóra, en þetta er fjórða árið í röð sem Saxhamar tekur þátt í þessu verkefni.

„Við höfum oft fengið góðan afla í rallinu, en ekki eins víða og núna,“ segir Friðþjófur. „Við vorum nánast í góðri veiði alla daga, aðeins þrjár lagnir af 50 svöruðu ekki almennilega. Dagana fyrir páska var aflinn eiginlega yfirgengilegur og þó við værum með riðla fyrir smærri fisk saman við í öllum netunum, eins og gert er í rallinu, þá var meðalþyngdin 6-7 kíló af slægðu,“ segir Friðþjófur.

Til hliðsjónar við fiskveiðiráðgjöf

Sex bátar taka þátt í netarallinu á hrygningarsvæði þorsks í kringum landið og er sami netafjöldi lagður á sömu slóðum ár eftir ár. 45-60 trossur eru lagðar á hverju svæði og er þeim dreift innan svæða á helstu hrygningarslóðir þorsks. Á hverju svæði er helmingur lagður í fyrirfram ákveðna punkta.

Niðurstöðurnar eru hafðar til hliðsjónar við fiskveiðiráðgjöf, en einnig er í rallinu m.a. aflað upplýsinga um aldur, kynþroska, stærð og dreifingu hrygningarstofns þorsksins, samkvæmt upplýsingum frá Val Bogasyni, verkefnisstjóra netaralls Hafrannsóknastofnunar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.