Ólafur Jónsson fæddist á Fossi í Hrútafirði 28. nóvember 1927. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 18. apríl 2012. Foreldrar hans voru Jón Marteinsson, bóndi frá Reykjum í Hrútafirði, f. 26.9. 1879, d. 25.6. 1970 og Sigríður Björnsdóttir frá Óspaksstöðum, Hrútafirði, f. 29.10. 1884, d. 10.7. 1952. Systkini Ólafs voru Anna Sigríður, f. 26.12. 1910, d. 24.3. 1925, Björn, f. 23.4. 1912, d. 25.5. 1912, Pétur, f. 4.6. 1913, d. 23.8. 1953, Björn, f. 4.2. 1915, d. 13.2. 2012, Sesselja, f. 28.8. 1916, d. 8.11. 1924, Karólína Soffía, f. 13.9. 1917, d. 13.5. 1992, Gunnlaugur, f. 10.8. 1919, d. 16.3. 1998, Valdimar, f. 13.5. 1921, d. 5.1. 1983, Stefán, f. 14.1. 1923, d. 3.4. 2003, Sesselja Gíslína, f. 14.10. 1924, d. 16.1. 2001.

Ólafur kvæntist 29. september 1956 Guðrúnu Ingibjörgu Oddsdóttur, f. 8.8. 1928, d. 7.12. 2010. Foreldrar hennar voru Oddur Oddsson, smiður á Siglufirði, f. 22.7. 1894 á Engidal í Úlfsdölum, d. 3.3. 1981 og Sigurlaug Kristjánsdóttir, húsfreyja frá Björgum í Ljósavatnshreppi, f. 18.2. 1899, d. 21.8. 1995. Börn Ólafs og Guðrúnar Ingibjargar eru: 1) Sigríður, f. 11.5. 1957, dóttir hennar Sunna Lind, f. 8.5. 2001. 2) Bryndís, f. 22.6. 1967, maki Sigurður Björnsson, f. 18.1. 1965, sonur þeirra Ólafur Hákon, f. 7.2. 1998.

Ólafur fæddist og ólst upp á Fossi í Hrútafirði. Hann átti sérlega auðvelt með nám en skólagangan varð stutt vegna veikinda móður hans og hernáms Reykjaskóla. Þrátt fyrir það aflaði Ólafur sér mikillar þekkingar sjálfur með bókalestri og vinnu. Systkinin á Fossi þurftu ung að sinna bæði heimilis- og bústörfum. Hann fluttist til Reykjavíkur á unglingsaldri og hóf þá vinnu við ýmis íhlaupastörf. Ólafur starfaði lengi í Fálkanum, fyrst sem sendill, síðan í reiðhjóladeild og að lokum sem deildarstjóri hljómplötudeildar. Sem slíkur sá hann um pantanir á tónlist fyrir hljómplötudeildina og vann að ýmsum viðburðum og kynningum á þekktum tónlistarmönnum bæði innlendum og erlendum. Síðar hóf Ólafur eigin verslunarrekstur, fyrst með fornbókaverslun, síðan söluturninn Ciro á Bergstaðastræti og loks stofnaði hann Vöruþjónustuna sem hann rak í hartnær 30 ár. Vöruþjónustan var í upphafi stofnuð utan um farandsölu á húsgögnum og lagningu teppa á bóndabæjum en breyttist síðar í verslun undir merkjum Vöruþjónustunnar í húsnæðinu Ási að Laugavegi 160. Þar seldi hann ýmislegt tengt handverki þó aðallega garn og lopaafurðir. Þegar verslunarrekstri lauk hóf hann störf hjá Furu málmendurvinnslu. Ólafur hafði fjölmörg áhugamál er tengdust sögu og menningu. Stærsta áhugamálið var þó ættfræði sem hann varði miklum tíma í við upplýsingaöflun og skriftir. Hann var líka með græna fingur og hafði gaman af garðrækt. Hann hafði ánægju af tónlist og var um tíma meðlimur í Kvöldvökukór Ljóðs og sögu. Ólafur og kona hans Guðrún Ingibjörg bjuggu fyrstu árin á nokkrum stöðum í miðbæ Reykjavíkur, en lengst af bjuggu þau á Langholtvegi 170 og síðar í Lækjasmára 106 í Kópavogi.

Útför Ólafs fer fram frá Áskirkju í dag, 30. apríl 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Það væri hægt að skrifa margt um pabba okkar. Hann var á svo margan hátt einstakur, ekki aðeins vegna þess sem hann tók sér fyrir hendur heldur ekki síður vegna nútímalegrar afstöðu m.a. til jafnréttis kynjanna og þátttöku karlmanna í heimilisstörfum og við uppeldi dætra sinna. Didda og Óli voru gift í yfir 50 ár. Þau voru samhent hjón, ólík hvort öðru en áttu það sameiginlegt að setja fjölskylduna ofar öllu. Þau hlúðu vel að okkur dætrunum og fylgdust vel með öllu sem við tókum okkur fyrir hendur.

Pabbi var góður hlustandi og okkar trúnaðarvinur allt til dauðadags. Hann dæmdi aldrei, en hjálpaði okkur oft að setja hlutina í rétt samhengi. Hann var einstaklega góður afi, þótti vænt um barnabörnin og fylgdist með öllu því sem efst var á baugi hjá þeim á hverjum tíma. Óli Hákon og Sunna Lind báru mikla virðingu fyrir afa sínum og hvað hann vissi mikið og sóttu margt í viskubrunn hans.

Mamma veiktist alvarlega um fimmtugt og hafði það áhrif á líf okkar allra. Pabbi tók því snemma þátt í heimilishaldinu og tók föðurhlutverkinu alvarlega. Hann gekk í öll heimilisstörf, eldaði, tók slátur og sinnti því sem þurfti til að halda fallegt heimili. Þau mamma höfðu verið í Garðyrkjufélaginu og því hélt pabbi áfram, en hann hafði mikla unun af blómum. Þeim hjónum fannst skemmtilegt að ferðast bæði innanlands og utan. Í þeim ferðum var pabbi í essinu sínu. Eftir því sem hann eltist tóku ritstörfin æ meiri tíma. Einkum var það ættfræðin og þjóðlegur fróðleikur sem áttu hug hans allan. Hann var skarpur, stálminnugur og hægt að fletta upp í honum eins og orðabók. Það var sorglegt þegar pabbi varð alvarlega sjónskertur árið 2004 og gat ekki lesið sér til gagns lengur og stundað fræðistörf. Engu að síður gafst hann ekki upp og grúskaði áfram og vann að miklu ættfræðiriti um Rauðbrotaættina sem hann því miður gat ekki lokið við.

Pabbi bjó að mikilli reynslu sem hann hafði öðlast úr atvinnulífinu, en í áratugi var hann sjálfstætt starfandi verslunarmaður. Fyrstur manna ferðaðist hann um landið og seldi húsgögn og gólfteppi. Í þeim ferðum eignaðist hann góða vini og dvaldi oft í einhverja daga á hverjum bæ við teppalagnir. Hann kynntist sveitalífinu vel og allir sem þekktu til hans nutu góðs af að því að hlusta á Óla segja frá ævintýrum úr ferðum sínum. Hann var sagnamaður mikill og húmoristi og kunni þá list að krydda sögurnar á skemmtilegan hátt.

Þegar pabbi okkar hætti að ferðast um landið kom hann band- og ullarvöruverslun á laggirnar á Laugavegi 160 í húsi kenndu við Ás. Fastir kúnnar voru margir en pabbi hélt tryggð við þá í áratugi.

Heilsuna missti hann á síðasta ári og dvaldi síðustu mánuðina á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Lífsviljinn hélt honum uppi og hann hélt reisn sinni fram í andlátið.

Við systurnar viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki Sóltúns fyrir einstaka hlýju í garð Óla og allrar fjölskyldunnar svo og frábæra umönnun.

Far þú í friði, elsku pabbi.

Sigríður og

Bryndís Ólafsdætur.

Það er stutt stórra högga á milli. Í dag kveðjum við svila minn og góðan vin til margra ára, Ólaf Jónsson frá Fossi í Hrútafirði. Það er rúmt ár síðan kona hans, Guðrún I. Oddsdóttir, kvaddi þennan heim, og rúmir tveir mánuðir síðan bróðir hans Björn og kona hans Guðný fluttu á annað tilverusvið. Óli, eins og hann var kallaður af vinum og vandamönnum, var yngstur sinna systkina og síðastur af þeim hópi til að kveðja þessa jarðvist. Hann bar ekki þunga bagga úr föðurgarði, fór snemma að vinna fyrir sér, fyrst við algeng sveitastörf en síðan var hann í mörg ár í Fálkanum hljómplötudeild. Síðan fór hann að versla fyrir eigin reikning, rak sjoppuna Síró í nokkur ár. Síðan seldi hann húsgögn og teppi á landsbyggðinni, þannig kynntist hann landi og þjóð ansi vel. Hann var ótrúlega minnugur á bæjaröðina í sveitum landsins og ábúendur. Vöruþjónustuna rak hann í mörg ár, lengst af á Laugavegi 160, þar seldi hann lopaband og ullarvoðir og var dáður af flestum hannyrðakonum. Óli og Didda áttu fallegt heimili á Langholtsvegi 170. Það var stutt á milli okkar heimila, garðarnir liggja saman horn í horn. Það var oft stikað stórt og stokkið á milli húsa. Það var margt brallað á þessum árum og margt sér til gamans gert sem ekki verður rakið hér.

Óli ræktaði garðinn sinn af ótrúlegri natni, enda var hann sérlega fallegur þegar hann seldi og flutti í Kópavoginn, þar hafði hann fullt af blómum í kringum sig. Það var gott til Óla að leita, þar beið alltaf vinur í varpa.

Við Sæunn kveðjum góðan vin með kæru þakklæti. Aðstendendum vottum við innilega samúð.

Kjartan Sigurjónsson.

Ólafur föðurbróðir minn var sjálflærður fræðimaður og skemmtilegasti einstaklingur sem ég hef kynnst. Í fjölmörgum fjölskylduboðum uppvaxtaráranna passaði ég alltaf uppá það að vera sem næstur honum og veltist þá iðulega um af hlátri, því hann var svo óborganlega fyndinn. Seinna þegar ég, um stutt skeið, var að vinna hjá Óla og hann rak verslun ofarlega á Laugarvegi og seldi þá aðallega garn, tók ég eftir því að þangað komu kúnnarnir oftast skælbrosandi. Þetta voru ósjaldan eldri konur og mér var sagt að þær kæmu margar langt að og byrjuðu að flissa og iða af tillhlökkun í strætó á leiðinni af því að þeim fannst kaupmaðurinn svo skemmtilegur.

Vel má vera að fjörið hafi ekki alltaf hugnast þeim sem næst honum stóðu og eins og fleiri í karllegg fjölskyldunnar hefur Óli sjálfsagt stundum reynt á þol sinna nánustu á sínum yngri árum. En hjartað var úr gulli þegar á reyndi og þegar hans góða kona, hún Didda, veiktist sýndi hann svo eftir var tekið hvað í honum bjó. Þar fór, ýkjulaust, besti eiginmaður sem ég hef heyrt af.

Óli átti sérstakan stað í hjarta föður míns. Þar virtist mér fara föðurumhyggja en í það minnsta kallaði pabbi mig oft Óla og öfugt. Fljótlega uppúr 1960, eftir að fjölskylda mín var komin í Snekkjuvoginn, flutti Óli með sína á hornið fyrir ofan. Þannig var þetta þar til faðir minn dó og samskipti bræðranna voru náin og vinskapur mikill.

Það er skammt stórra högga á milli. Á tveimur mánuðum eru þeir tveir, sem efti lifðu af þessari kynslóð ættingja minna í föðurætt, látnir. Sá elsti, ættarhöfðinginn, Björn, og Ólafur, sem var yngstur. Og konurnar urðu samferða, Didda rúmu ári á undan Óla og Guðný tveimur dögum á eftir Bjössa og þar á milli lést Ebba kona Valdimars föðurbróður míns. Þrjár skemmtilegar og góðar konur. Til að bæta gráu ofan á svart lést svo sá mikli hestamaður, Reynir sonur Karólínu föðursystur minnar um daginn.

Þetta glaðværa alþýðufólk sem ungt að árum kom úr forneskjulegri sveitinni um og uppúr seinni heimsstyrjöld og tók virkan þátt í að skapa nútímalega höfuðborg Íslands er nú farið á vit feðra sinna og mæðra.

Það var alltaf líf og fjör í fjölskylduboðunum meðan systkinin frá Fossi voru og hétu, glatt á hjalla og mikið sungið og í mínum huga var Óli þar fremstur meðal jafningja.

Ég votta Sísí, Bryndísi og þeirra fjölskyldum mína dýpstu samúð.

Þorleifur Gunnlaugsson.

Ólafur var yngstur systkinanna á Fossi. Hann var líka einn eftir úr hópi átta systkina sem ólust upp við Hrútafjörðinn og héldu síðan saman til Reykjavíkur um 1940. Þetta var glaðvær og samheldinn hópur sem sýndi hverjum öðrum ræktarsemi þó heimilisaðstæður hefðu ávallt verið erfiðar í uppvexti. Heimilisfaðirinn sótti vinnu suður með sjó og húsmóðirin langdvölum á sjúkrahúsum sökum berkla.

Móðir mín og Óli voru yngst systkinanna og ólust því upp saman á Fossi. Minntust oft uppvaxtarins þar sem þau dvöldu með nokkrum eldri systkinum í leik og við sveitastörf frá unga aldri. Kötturinn Stíles og hundurinn Karó komu þar oft við sögu ásamt ferðum upp á heiði eða niður að Síká, þar sem var fiskur. Samhugur allra Fosssystkinanna hélt áfram eftir að þau fluttu til Reykjavíkur, þar sem þau héldu sameiginlegt heimili í mörg ár, fyrst að Hverfisgötu 88b og síðast að Bergþórugötu 29. Óli minntist þess hversu gott hefði verið að búa á Bergþórugötunni, stutt í allar áttir og fjölskyldan öll saman í leik og starfi þar til móðir þeirra dó.

Ólafur var sögumaður fjölskyldunnar á Fossi. Sögurnar komu í ýmsum myndum af fólki og atburðum og ekki síst grínsögur sem sumir fussuðu yfir. Erfði Óli án efa þennan eiginleika frá föður sínum og sömuleiðis áhuga á ættfræði fjölskyldunnar langt aftur í aldir. Rakti hann af ástríðu ættir Rauðbrodda um Húnavatnssýslu og til Dalanna og tók saman mikið efni á seinni árum sem hann taldi gæti fyllt fjögur bindi. Fræðimennskan blundaði því alla ævi í Ólafi og tók hann þar við af föður sínum sem lifði í sögum fyrri alda.

Söngmaður var Óli ágætur, var um tíma með systkinum sínum í Húnvetningakórnum en áhugi hans á tónlist birtist fljótt þegar hann ungur að árum réðst til starfa í Fálkanum. Byrjaði sem sendisveinn og endaði sem verslunarstjóri í hljómplötudeild með einlægan áhuga á tónlist amerískra blökkumanna. Fór hann nokkrar ferðir til útlanda með Jóni Múla til að fá hingað erlenda djasstónlistarmenn á 6. áratugnum.

Óli var safnari af guðs náð og unni fallegum hlutum, einkum bókum og málverkum, sem hann keypti á uppboðum og víða annars staðar alla ævi. Ýmsa hluti rak á fjörur Óla á þeim tíma þegar hann stundaði farandsölu og ók um sveitir landsins og seldi fólki gólfteppi og fékk greitt í ull. Í hænsnakofa einum í Dölunum fann hann forláta sófasett sem hafði verið stofuprýði á Bessastöðum fyrir löngu, gerði það upp og sómdi það sér vel í húsi Óla og Diddu á Langholtsveginum.

Verslunarstörf urðu ævistarf Óla, enda greiðvikinn maður með létta lund. Ullarvöruverslun hans ofarlega á Laugavegi er minnisstæð, þar sem allskonar vörum úr ull og bandi ægði saman og Óli minntist þess oft að bestu kúnnar hans voru rússneskir sendiráðsstarfsmenn og sjómenn.

Vil minnast Óla frænda míns með vísu sem faðir hans, Jón Marteinsson, kvað um yngsta son sinn í bréfi árið 1938:

Treysti vel að trúin hrein

tendrar líf í æðum

og að lækni öll þín mein

alfarið á hæðum.

Vil að lokum votta frænkum mínum, Bryndísi og Sísí, og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Guð blessi minningu Ólafs frænda míns.

Jón Ögmundsson.

Heimili þeirra Óla og Diddu stóð okkur hjónum alltaf opið. Þar inni gat meðal annars að líta stóra mynd uppi á vegg. Hún var af grónu landslagi, ekkert jarðrask né byggingar lengur sjáanlegar. Byggingarnar voru löngu horfnar, þær voru aðeins til annars staðar á teikningu sem Ólafur hafði látið gera eftir minni. Myndin var frá Fossi í Hrútafirði, æskuheimili Ólafs Jónssonar og systkina hans.

Þegar við vorum sest beindist athyglin og umræðan oft að þessari mynd. Út frá henni spannst talið til bæjanna í kring og lengra út um Húnavatns- og Strandasýslu. Samtalið leiddi frá manni til manns, til ættartengsla íbúanna og athafna þeirra, stundum allt aftur til Jóns Rauðbrota, ættföðurins mikla á Söndum í Miðfirði. Hann hafði verið uppi svo langt aftur í tíma að trauðla varð lengra rakið. Óli vissi á öllu skil. Hjá honum var Húnavatnssýslan ekki kaldur og hrjúfur heimur heldur opin bók, saga sem geymdi fótspor og minningar enda þótt byggingar væru löngu breyttar eða alveg horfnar á braut. Þessi mynd hans af jörðinni á Fossi birti ekki aðeins víðáttu landsins heldur miklu fremur lifandi endurminningar um byggingar og störf, fólk og fénað. Hún geymdi gömul gengin spor sem lágu um mýrar og græna haga – jafnvel vinstri græna jörð og bjartari framtíð.

Ólafur hafði fengist við margt á starfsævi sinni. Ungur ólst hann upp við venjuleg sveitastörf á Fossi en snemma fluttist hann til Reykjavíkur og vann aðallega við hin ýmsu verslunarstörf. Nokkur ár vann hann hjá hljóðfæraversluninni Fálkanum og aðstoðaði við innkaup og fyrstu innlendu hljómplötuupptökurnar. Hann var kunnugur mörgum fyrstu dægurlagasöngvurunum sem þá komu fram og sá um eina elstu hljóðritaskrá Fálkans. Síðar rak hann eigin verslanir svo sem verslunina Ciro við Bergstaðastræti en í annan tíma verslaði hann með húsgögn og teppi. Ferðaðist han þá víða um land og varð gagnkunnugur enda athugull og minnugur. Lengst verslaði hann þó með ullarvörur við Ás á Laugavegi. Þangað þótti mörgum gaman að koma enda Ólafur léttur í tali og kunnu frá mörgu að segja, frásagnargóður og fróður.

Hver kynslóð rennur sitt skeið með verkum sínum og sérkennum. En sérhvert unnið verk, hver athöfn skilar ákveðnum afleiðingum og arfleifð til komandi kynslóða. Sumt máist að vísu út og hverfur sjónum okkar, en það glatast ekki. Áhrif alls sem var mun ritað í hug okkar og hjarta, verða hluti af okkur sem enn lifum, stækka okkur og bæta. Í hugum okkar ljómar raunveruleg sýn þess sem var. Jafnvel gömul mynd uppi á vegg getur kveikt í sál okkar þrá til frekari athafna og afreka, ósk um að feta áfram á þeirri vegferð sem feður okkar hófu: leið þrautseigju og menningar. Þar hafði Ólafur náð langt.

Við kveðjum Ólaf með söknuði þegar hann er nú kallaður héðan. En mynd hans sjálfs verður þó eftir hjá okkur því hún hefur grópast djúpt í hug okkar og verður varðveitt þar um ókomin ár. Sú verður okkur dýrmætust eign.

Við hugsum til fjölskyldna Ólafs með hlýhug og vottum þeim samúð okkar.

Ragnar og Hrafnhildur.