6. maí 2012 | Sunnudagsmoggi | 576 orð | 1 mynd

Dagur í lífi Margrétar Pálu Ólafsdóttur

Börnin í forgrunni

Margrét Pála sækir sér súrefni og orku með mikilli útiveru.
Margrét Pála sækir sér súrefni og orku með mikilli útiveru. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Að þessu sinni ætlar Margrét Pála Ólafsdóttir að segja okkur frá degi í lífi sínu. Margrét Pála er okkur Íslendingum að góðu kunn og er m.a. þekkt fyrir að vera höfundur Hjallastefnunnar. 7.15 Snúsa ekki einu sinni við fyrstu hljóð frá vekjaraklukkunni.
Að þessu sinni ætlar Margrét Pála Ólafsdóttir að segja okkur frá degi í lífi sínu. Margrét Pála er okkur Íslendingum að góðu kunn og er m.a. þekkt fyrir að vera höfundur Hjallastefnunnar.

7.15 Snúsa ekki einu sinni við fyrstu hljóð frá vekjaraklukkunni. Er með barnabörnin í gistingu og þá standa ömmur sig. Vek eldri ömmustúlkuna og ömmupiltinn og kveiki svo undir hafragrautnum. Morgunverður og tesopi meðan drengurinn les síðustu æfinguna fyrir upplestrarkeppnina í skólanum

7.59 Pabbinn mætir til að aka barnabörnunum í skólann. Vek þá yngstu sem á að vera mætt kl. 9 í skólann og við tökum morgunrútínuna; morgunverð, klæðnað og hárgreiðslu.

9.03 Komum í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Læði mér með tesopa í rólegt horn í skólanum og skoða póstinn; svara því sem brennur og tek Ameríkupóstinn frá nóttinni. Kvaka af kæti yfir því að Abigail James, einn helsti sérfræðingur Vesturlanda í kynjaskiptri kennslu, vill koma á Hjallastefnuráðstefnuna okkar í haust. Hripa fréttir frá ráðstefnu Evrópusamtaka sjálfstætt starfandi skóla fyrir Fréttablaðið til samstarfsfólks míns. Skilaboðin einfaldlega; lifi nýsköpun og frumkvöðlastarf í skólum.

10.05 Renni upp að húsi Kennarasambandsins til að hitta fulltrúa Félags stjórnenda í leikskólum og leikskólakennarafélagsins. Rýnum í OECD-tölur með hagfræðingnum og tökumst ögn á af undramikilli háttvísi og vináttu.

11.50 Flýti mér í Garðabæinn þar sem fundur bíður eftir mér í Vífilsskóla. Nokkrir foreldrar og skólastjóri eru með mál sem þolir ekki bið.

12.50 Gríp mér hressingu hjá Sigurjóni kokki á Vífilsstaðatorfunni. Hollustugrautur úr brúnum hrísgrjónum og sojamjólk ásamt rammíslenskri lifrarpylsu. Næ að hitta afburðakátan drengjahóp á leið í Heiðmörk í vorsvalanum og spjalla við nokkra kennara. Heyri í skólastjóranum á Laufásborg og við afgreiðum nokkur mál í snatri.

13.20 Hitti framkvæmdastýruna mína og fer yfir stærstu verkefnin okkar framundan; rekstur á frábærum leikskóla í Eyjum og svo fyrirhugaða samvinnu okkar og Tálknafjarðar. Fæ rapport af símtali hennar og sveitarstjórans.

14.35 Bruna á heimaslóðir við Hafravatn og nýti mér BlueTooth-sambandið í bílnum til að segja dóttur minni allt um dásemdarkvöld og gæðamorgun með börnunum meðan hún tók vaktina á Barnaspítalanum. Líf okkar snýst ávallt um börn; veik börn, frísk börn, skólabörn, eigin börn og barnabörn.

14.55 Einhendi mér í tölvupóstinn. Maula flatbrauð úr Mosfellsbakaríi og kíki ögn á Fasbókina sem ég hef beðið fólk að nota fremur en tölvupóst. Virðist vera mun fljótlegra að svara þar heldur en með blessuðum tölvupóstinum sem mér er orðið í nöp við eftir fjölda ósigra. Blanda mér í umræður um Kindle og iPad...

15.30 Er bæði skrifborðs- og skrifstofulaus og því er fundur talnatríósins heima hjá mér; þ.e. framkvæmdastjórinn og rekstrarstjórinn ásamt mér. Snarpheitt, grænt te á borðum hvar við rýnum í rekstrartölurnar en fjárhagsáætlun næsta skólaárs er í burðarliðnum.

16.50 Kveð samstarfsfólkið og ákveð að sækja mér súrefni. Orkugefandi að rölta við vatnið og hnusa af lífinu sem er að vakna.

17.30 Skrifa Evrópusamtökum kynjaskiptra skóla og lýk við ramma að fyrirlestri í Houston í Texas næsta haust. Er búin að ýta þessu á undan mér og skil ekki hvað fólkinu liggur á að fá gögn. Kíki á BaseCamp, nýja verkefnastýringarkerfið okkar.

18.40 Hringi í vini mína á Grímsstöðum á Fjöllum til að plana heimsókn mína og 9 ára stúlkna sem ætla norður með kennaranum sínum. Ég verð fararstjóri og sýni þeim sveitina mína.

19.20 Fjarvistarspúsa mín dettur inn úr dyrunum með kvöldverð frá Grænum kosti. Horfum á fréttirnar meðan við borðum. Sófinn og skrölt um dagskrá Sky-disksins. Dotta yfir Midsummer Murders og skríð loks í bólið um 22.30. Veit af ströngum degi framundan.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.