8. maí 2012 | Minningargreinar | 1748 orð | 1 mynd

Ernir Kristján Snorrason

Ernir Kristján Snorrason, geðlæknir og taugasálfræðingur, fæddist í Reykjavík 17. mars 1944. Hann lést á líknardeild Landspítalans 26. apríl 2012. Foreldrar hans voru Björg Guðný Kristjánsd., húsfreyja, f. 5. sept. 1917, d. 13. mars 2003, og Snorri Jónsson, verslunarmaður, f. 10. júlí 1911, d. 31. mars 1986. Systir Ernis er Jóhanna, f. 15. júní 1942. Hálfsystkin, sammæðra, eru Kolbrún Skjaldberg, f. 26. maí 1951, og Þór Skjaldberg, f. 20. mars 1957.

Ernir kvæntist 1971 Isabelle M. Fiocre Snorrason, f. 11. mars 1949. Þau skildu. Móðir Isabelle er Annie M. Fiocre, f. 15. nóv. 1921. Faðir hennar var Bernard Fiocre, dýralæknir, f. 19. júní 1924, d. 11. janúar 2001. Dóttir Ernis og Isabelle er Sandra Snorrason, landfr., f. 13. sept. 1972, barnsfaðir Patrice Frahi, f. 17. feb. 1964. Dóttir þeirra er Idora Frahi Snorrason, f. 3. nóv. 2000.

Fyrrverandi sambýliskona Ernis er Geirlaug Þorvaldsd., hóteleigandi, f. 13. des. 1939. Foreldrar Geirlaugar voru Ingibjörg Guðmundsd., f. 11. apríl 1908, d. 6. júlí 2004, og Þorvaldur Guðmundsson, f. 9. des. 1911, d. 10. jan. 1998. Börn Ernis og Geirlaugar eru 1) Þorvaldur, búfjárerfðafr. og doktorsnemi, f. 26. ágúst 1977, maki Margrét Guðrún Ásbjarnard., læknanemi, f. 5. ágúst 1981. Sonur þeirra er Þorvaldur Örn, f. 30. mars 2003. 2) Ingibjörg, viðskiptafr. og læknir, f. 3. maí 1979.

Ernir kvæntist 29. júlí 2006 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sólveigu Franklínsd., m. einkarekstur, f. 4. nóv. 1968. Móðir Sólveigar er Guðrún S. Austmar Sigurgeirsd., hjúkrunarfr., f. 19. júlí 1947. Faðir Sólveigar var Franklín Friðleifsson, bifvélavirkjameistari, f. 8. jan. 1945, d. 20. okt. 2011. Börn Ernis og Sólveigar eru Franklín Ernir, f. 9. des. 2002, og stúlka fædd andvana 2. des. 2003.

Ernir varð stúdent frá MR 1966. Hann lauk kandídatsprófi í taugasálfræði og fyrri hluta doktorsprófs frá Université Strasbourg í Frakklandi 1971 og cand. med. frá HÍ 1986. Hann hlaut almennt lækningaleyfi á Íslandi 1988 og í Noregi 1993 og sérfræðingsleyfi í geðlækningum 1994. Ernir starfaði á Íslandi, í Frakklandi og Noregi, m.a. sem læknir og kennari. Þá var hann taugasálfræðingur á Grensásdeild sem og sérfræðingur við taugadeild Landspítalans 1975-90 og á geðdeildinni 1990-93. Ernir starfaði við rannsóknir frá 1994 til æviloka og rak lækningastofu í Domus Medica til fjölda ára. Hann var stofnandi og í stjórn þróunarfyrirtækisins Taugagreiningar hf., meðstofnandi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. 1994 og stofnandi breska lyfjafyrirtækisins Hunter-Flemming 1999, sat í stjórn þess og var þróunarstjóri. Árið 1980 var hann með útvarpsþáttinn „Kjarni málsins“. Hann var einnig forseti Alliance francaise 1984-5. Ernir var hestaræktandi og byggði búið á Seljabrekku í Mosfellsdal. Hann sinnti einnig ritstörfum. Skáldsagan Óttar kom út 1977 og ljóðakverið Bölverkssöngvar 1976. Ný skáldsaga eftir hann er væntanleg.

Útför Ernis fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 8. maí 2012, kl. 13.

Elsku ástin mín. Í dag kveð ég þig, elskulegan eiginmann minn, samstarfsfélaga og vin. Ég man ætíð er við rákumst fyrst saman í orðsins fyllstu merkingu. Ég hljóp þig niður, bað afsökunar og þú leist á mig og sagðir: „Ég held þetta sé ást við fyrstu sýn.“ Mikið fannst mér þú frakkur. Þú varst alltaf svo skemmtilega hreinskilinn og orðheppinn. Við áttum saman yndislegar stundir í rökræðum og skemmtum okkur konunglega heima í hugarflugi um allt milli himins og jarðar. Minningin um einstakan mann, góðan og gjafmildan, kemur fram í huga mér og ég sakna þín meira en orð fá lýst. Þú gast líka verið mikill sérvitringur og skapstór með sterkar skoðanir og rök fyrir öllu, enda víðlesinn og ótrúlega afkastamikill á þinni alltof stuttu ævi. Þú gafst mér dýrmætustu gjöfina, drenginn okkar og stúlkuna, og verð ég þér ævinlega þakklát fyrir það. Við áttum saman sorgir og sigra, í blíðu og stríðu, sól og nýja von. En veikindin sigruðu að lokum og þú kvaddir þennan heim á fögrum vormorgni. Stríði þínu er lokið eftir hetjulega baráttu og eftir sit ég með söknuði. Ég geymi alltaf, ástin mín, það allt er gafstu mér og þakka þér hjartanlega fyrir okkar samfylgd og óska þér góðrar ferðar inn í Sumarlandið.

Þú verður ætíð í hjarta mér og megir þú hvíla í friði og fylgja þér gleði.

Ég elska þig.

Þín

Sólveig.

Kæri pabbi besti. Ég vil að þú vitir hvað ég elska þig mikið. Krakkarnir í bekknum mínum sögðu alltaf að ég væri heppnastur í bekknum. En nú finnst mér ég vera óheppnastur, af því að þú ert dáinn. Ég sakna þín svo mikið og bjó til ljóð handa þér:

Mennirnir deyja og börnin væla,

enginn er lengur hamingjusamur.

Mennirnir deyja og börnin væla,

enginn er lengur hamingjusamur.

Þangað til að á himnaríki,

himnaríki, drottins ríki,

mennirnir eru komnir á.

Þá hamingjan rís á ný, já rís á ný – rís á ný.

(Franklín Ernir Kristjánsson)

Megi góður guð passa þig og vonandi er þér batnað og líður betur núna. Lífið er alltaf öðruvísi þegar einhver fer frá manni.

Ég mun alltaf minnast þín og sakna þín. Hver á núna að kenna mér að tefla?

Bless, elsku besti pabbi minn.

Þinn sonur,

Franklín Ernir.

Elskulegur bróðir minn Ernir er látinn og lætur eftir sig stórt skarð í lífi mínu og mun ég sakna þess þegar hann hringdi og við ræddum það sem honum lá á hjarta, oft ræddum við um þjóðmálin og oftar en ekki hafði hann rétt fyrir sér um hvað koma skyldi í þeim málum.

Hann var svo lánsamur að eiga góða konu sem sýndi mikla þrautseigju í veikindum hans, sem ég veit að hann dáðist að. Það eru ótal minningar sem koma upp í hugann eftir langa ævi, sem ekki komast í stuttri kveðju svo ég læt duga að þakka fyrir góðu samverustundirnar okkar í 68 ár.

Börn hans og sérstaklega Franklín, sem er lifandi eftirmynd hans, bið ég Guð að blessa og styrkja.

Hvíl í friði elsku bróðir minn.

Jóhanna.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum)

Sorgin hefur knúið dyra hjá fjölskyldu minni.

Við kveðjum í dag merkan mann sem áorkaði miklu um ævina, læknir, vísindamaður, frumkvöðull, uppfinningamaður, rithöfundur, kennari og hrossaræktandi með meiru, en þó fyrst og fremst í mínum huga ástin í lífi systur minnar og pabbi uppáhaldsfrænda míns.

Ernir var mikill gæfumaður með margt í lífinu þó að hann fengi erfitt verkefni að takast á við sem hann að lokum lagði frá sér með reisn. Hann var ætíð vongóður um að ná bata og börðust þau Solla fyrir því að finna lækningu, ýmist saman eða hún fyrir hann þegar þrek hans þvarr.

Ernir var mikill heimsmaður og hafði sérstakt dálæti á Frakklandi og franskri menningu eftir að hafa búið þar.

Hann var skarpgreindur, ákaflega vel lesinn og hafði gjarnan sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Það var því gaman að ræða heimsmálin við hann og hann hugsaði yfirleitt út fyrir rammann og velti upp nýjum og áhugaverðum flötum. Ernir var víðförull um ævina en leið hvergi betur en í sveitinni sinni í Mosfellsdal. Hann naut sín innan um hestana á Seljabrekku og hafði gaman af ferðum upp að vatni þar sem hann renndi fyrir grimma urriða.

Ernir, Solla og Franklín Ernir ásamt dýrunum þeirra bjuggu í sveitasælunni þar sem þau höfðu komið sér upp sinni eigin paradís þegar veikindi Ernis hófust.

Hans ósk var að geta verið sem lengst heima og af einstakri ósérhlífni og hógværð gerði Solla mín honum það fært. Hún annaðist veikan eiginmann sinn af virðingu og alúð ásamt því að ganga í öll störf sem tilheyra umfangsmiklum rekstri þeirra hjóna. Hetjan mín hann Franklín Ernir var líka duglegur við að hjálpa foreldrum sínum og saman voru þau sterk eining.

Elsku Solla, Franklín Ernir, Ingibjörg, Þorvaldur, Margrét, Þorvaldur Örn, Sandra, Idora og ástvinir allir. Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og veita huggun og styrk til að takast á við missinn og sorgina. Minning Ernis lifir í hans góðu verkum og í börnunum hans fjórum sem hann var alla tíð ákaflega stoltur af.

Sofðu rótt kæri vinur.

Valgerður Franklins.

Nú er Ernir Snorrason bekkjarbróðir okkar í árgangi 1963 frá Bifröst fallinn frá. Ernir fæddist þann 17. mars 1944 og ólst upp í Reykjavík. Ernir var sérstakur maður, sem fór ekki troðnar slóðir. Á árunum um miðja síðustu öld voru orð kennarans hinn heilagur sannleikur og það var nær óhugsandi að nemendur mótmæltu orðum hans, hvað þá að leggja fram sjálfstæðar skoðanir. Við upphaf náms að Bifröst kom það okkur bekkjarfélögum Ernis mjög á óvart þegar Ernir var sífellt að grípa fram í fyrir kennaranum, mótmæla skoðunum hans og halda fram sínum skoðunum. Sérstalega þar sem kennarinn var sjálfur skólastjórinn. Mest vorum við þó hissa á hversu Guðmundur skólastjóri tók þessum athugasemdum vel og svaraði þeim alltaf málefnalega jafnvel þótt okkur bekkjarfélögunum þætti Ernir alltof þrasgjarn í sínum málflutningi. Guðmundur Sveinsson, skólastjóri á Bifröst, var að mörgu leyti á undan sinni samtíð hér á landi hvað varðar skólamál. Hann lagði áherslu á að byggja upp sjálfstæða skoðanamyndun nemendanna með virkri þátttöku þeirra í kennslustundum.

Ernir var góður námsmaður og einnig var hann liðlækur körfuboltamaður og einn besti maður skólaliðsins. En þar sem hann skaraði fram úr var í ritfærni. Þegar lesið var upp úr bestu ritgerðum nemenda voru það oftast ritgerðir Ernis, Rannveigar Haralds og Jóns Kristjánssonar sem voru valdar. Okkur bekkjarfélögum virtist sem Ernir stefndi markvisst að því að verða skáld. Það kom okkur því ekki á óvart þegar fréttist að Ernir hefði fetað í fótspor Halldórs Kiljans og gengið í klaustur að loknu stúdentsprófi.

Það átti ekki eftir að verða hans hlutskipti að verða skáld þótt hann hafi gefið út eina bók, Óttar, sem fékk almennt góðar umsagnir og nú er önnur bók tilbúin til útgáfu. Að loknu stúdentsprófi hélt hann til Frakklands til náms og lenti þar í stúdentabyltingunni árið 1968 þar sem hann var virkur þátttakandi. Hefur það örugglega átt vel við hann að berjast fyrir breyttu gildismati almennt og eins auknum áhrifum nemenda í stjórn skólanna. Samskipti hans við okkur skólafélagana voru ekki mikil eftir að hann kom frá Frakklandi og réðst til starfa á Landspítalanum. Þar fór hann nýjar leiðir eins og hans var von og vísa. Nýtti hann tölvutæknina, sem þá var á frumstigi, til að þróa tölvukerfi til mælinga á starfsemi heilans og stofnaði hann fyrirtækið Taugagreiningu um þetta verkefni. Eins var hann einn af stofnendum Íslenskrar erfðagreiningar.

Við bekkjarfélagarnir í árgangi 1963 frá Bifröst sendum eiginkonu, fjölskyldu og ættingjum Ernis innilegar samúðarkveðjur,

F.h. bekkjarfélaga á Bifröst árin 1961-1963,

Sigurður Gils Björgvinsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.