13. maí 2012 | Sunnudagsmoggi | 474 orð | 1 mynd

Augnablikið

Þörfin að tilheyra

— AFP
Fjandinn varð laus í Madrid á miðvikudagskvöld þegar Atletico Madrid bar sigurorð af Atletico Bilbao í úrslitaleik Evrópudeildarnnar.
Fjandinn varð laus í Madrid á miðvikudagskvöld þegar Atletico Madrid bar sigurorð af Atletico Bilbao í úrslitaleik Evrópudeildarnnar. Stóra liðið í borginni, Real Madrid, hefur gert meira af því að lyfta bikurum, en nú var komið að Atletico, einkum vegna stórkostlegra tilþrifa Kólumbíumannsins Radamél Falcao, sem skoraði tvö mörk í leiknum og varð markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar annað árið í röð.

Stemningin var rafmögnuð í Madrid og knæpurnar fylltust af áhangendum í rauðum, bláum og hvítum litum klukkutíma fyrir leik. En hinir sigurvissari héldu beint á Neptúnusartorgið, þar sem aðdáendur Atletico koma saman eftir sigurleiki.

„Það vill svo til að torgið er beint fyrir framan hótelið mitt,“ segir Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, sem er á vinnufundi OECD í Madrid þessa dagana um rannsóknir og tækifæri í kennslu í fjármálalæsi.

„Klukkutíma fyrir leik var fólk farið að streyma á torgið og koma sér fyrir, þó að leikurinn væri ekkert sýndur þar. Það hafði gaman hvað af öðru á meðan það fylgdist með beinni lýsingu á leiknum eða horfði á hann í símanum. Það er tákn breyttra tíma að í gamla daga hefði það tekið útvarpið með sér, en nú horfði það bara á símann!“

Breki horfði á leikinn á knæpu í borginni og þegar hann ætlaði aftur á hótelið að leik loknum, þá var hann hálftíma að komast síðustu tíu metrana, slík var mannþröngin á torginu. „Um leið og ég komst inn á hótelið, þá gerði lögreglan atlögu og rýmdi götuna,“ segir hann.

„Þá hafði einhverju verið kastað að lögreglunni og hún brást við af hörku. Nokkrir af samferðamönnum mínum voru ekki nógu fljótir inn um dyrnar, var rutt með fjöldanum í burtu og komust ekki á hótelið fyrr en fjórum tímum síðar.“

Breki fylgdist svo með atburðarásinni af áttundu hæð á hótelinu. „Það liggja sjö eða átta götur að Neptúnusartorgi, sem er hringtorg, og það var sjón að sjá lögregluna rýma hverja götuna af annarri.“

Daginn eftir fjölmenntu áhangendur Atletico aftur á torgið, að þessu sinni til að fagna þegar leikmennirnir komu sigurreifir með bikarinn, en leikurinn kvöldið áður fór fram í Búkarest. „Það var mun siðaðra, meira af fjölskyldufólki og ölvun ekki eins mikil,“ segir Breki. „En annað kvöldið í röð komumst við ekki út á torgið fyrir mannþröng, þannig að við fylgdumst með því af þakinu þegar tekið var á móti snillingunum. Og auðvitað voru fagnaðarlætin mest þegar Falcao hampaði bikarnum.“

Fyrr um daginn hafði Breki farið í „túristaleiðangur“ um Madrid og tekið eftir því að ekkert var fjallað um borgarastríðið eða Franco. „En þegar maður horfir yfir mannhafið og allir að öskra það sama, hylla Atletico og syngja sigurlagið, þá vekur það blendnar tilfinningar. Svona hefur Franco verið hylltur á sínum tíma og það er magnað að finna orkuna í hópeflinu. Og þó að maður haldi ekki með liðinu, þá skynjar maður þessa mögnuðu þörf að tilheyra.“

Pétur Blöndal pebl@mbl.is

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.