24. maí 2012 | Minningargreinar | 1563 orð | 1 mynd

Selma Böðvarsdóttir

Selma Böðvarsdóttir fæddist að bænum Kjarna við Akureyri 17. apríl 1918. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfriði 13. maí 2012.

Foreldrar hennar voru Böðvar Björnsson, bóndi, f. 18. október 1867 að Finnstöðum í Kinn, d. 25. nóvember 1933 og Guðný Jónína Kristjánsdóttir, húsfreyja, f. 29. október 1878 að Ófeigsstöðum í Kinn, d. 15. janúar 1955. Selma var næstyngst af níu systkinum. Fyrstar komu tvær systur sem báðar voru skírðar Katrín, og dóu báða mjög ungar. Næstir í röðinni voru tvíburarnir Jóhann og Björn. Síðan komu Kristján, Árni og Jakob en yngst af systkinum var Kristín.

Selma hóf sambúð með Björgvini Sigmari Stefánssyni vélstjóra, f. 4. okt. 1910, d. 9. nóv. 1972. Börn Björgvins og Kristínar Böðvarsdóttur, f. 15. júní 1920, d. 30. mars 1949, fósturbörn Selmu, eru: 1) Sigríður, f. 12. sept. 1940, eiginmaður hennar var Klemens Baldvin Sigtryggson, d. 2. apríl 2012. Börn, Kristín Guðný, María Björg, Selma Ragnheiður, Ólöf Birna og Arnar Ágúst. 2) Böðvar, f. 16. nóv. 1942, d. 26. okt. 1999, eftirlifandi eiginkona er Anna Nína Stefnisdóttir. Börn, Styrmir Freyr, Selma Kristín og Regína. Fyrir átti Anna Nína, Stefnir Þór og Böðvar, Þorvald Ægi. 3) Guðný, f. 1. ág. 1944, syni hennar og Christian Nissen, eru Benny og Kaj, þau skildu. 4) Stefán, f. 7. des. 1945, eiginkona Hulda Karen Ólafsdóttir. Börn, Björgvin, Stefán Karl og Ólafur. Barnabörn Selmu eru 38 og eitt barnabarnabarn.

Selma starfaði sem vinnukona og seinni árin við fiskvinnslu í Norðurstjörnunni Hafnarfirði. Hún var ljóðelsk, kunni ógrynni af vísum, hafði einnig yndi af söng og lestri allt til dauðadags. Selma bjó fyrst á Norðurbraut 11 b, en seinni árin á Hjallabraut 33 í Hafnarfirði. Fyrir 5 árum flutti Selma á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Selmu fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 24. maí 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Ég beygi kné mín og blessa þig móðir jörð.

Ég blessa þann mátt, sem gaf þér líf og anda.

Hver hugsun mín er þúsundföld þakk argjörð,

og þó er ég barn hinna köldu og nyrstu stranda,

En þar hef ég fundið, hve heilagur eld urinn er,

hve ást þín er rík og faðmur þinn trygg ur og mildur.

Gæfa mín er að gleðjast og hryggjast með þér.

Sá glatast ekki, sem þér er andlega skyldur.

Ég beygi kné mín og blessa þig, mikli sær,

þinn barnslega frið og tröllslega grimmdaræði.

Ég undrast þinn mátt, þá dýrð, sem frá djúpinu slær

á dauðlega menn. Ég elska söng þinn og kvæði.

Sú hugsun er stór, sem vitnar um sál þína og svip,

sá söngur fagur, er minnir á bylgjunið inn.

Með bárum þínum berast mín drauma skip.

Sá berst til sigurs, sem tilbiður aflið og friðinn.

Ég beygi kné mín og blessa þig, him insól,

sem breytir nóttinni í dag og sorg í gleði,

sem græðir og vermir og veitir köldum skjól.

Þitt vald er gátan mikla, sem enginn réði.

Þú lyftir hug mínum hátt yfir dauða og synd,

gafst hjartanu mátt og lífgaðir vinir feigar.

Ég barmafyllti skál mína í ljóssins lind.

Sá lifir, sem bergir þínar ódáinsveigar.

(Davíð Stefánsson)

Ég kveð þig með söknuði elsku mamma, en ég veit að nú líður þér vel. Hafðu hjartans þökk fyrir allt sem þú varst mér.

Sigríður (Sigga).

Nú sefur jörðin sumargræn.

Nú sér hún rætast hverja bæn

og dregur andann djúpt og rótt

um draumabláa júlínótt.

Við ystu hafsbrún sefur sól,

og sofið er í hverjum hól.

Í sefi blunda svanabörn

og silungur í læk og tjörn.

Á túni sefur bóndabær,

og bjarma á þil og glugga slær.

Við móðurbrjóstin börnin fá

þá bestu gjöf, sem lífið á.

---

Og áin líður lygn og tær,

og lindin sefur perluskær.

Í dvala hníga djúpin hljóð

og dreymir öll sín týndu ljóð.

Í hafi speglast himinn blár.

Sinn himin á hvert daggartár.

Í hverju blómi sefur sál,

hvert sandkorn á sitt leyndamál.

Nú dreymir allt um dýrð og frið

við dagsins þögla sálarhlið,

og allt er kyrrt um fjöll og fjörð

og friður drottins yfir jörð.

(Davíð Stefánsson)

Ljóðlínur Davíðs lýsa jörðinni og lífinu. Bóndabærinn á túninu þar sem barnið fær atlæti hjá foreldrum og vex síðan úr grasi, ekki ólíkt því hvernig tengdamóðir mín Selma sá sínar æskustöðvar, í Kjarna og síðar að Melum við Akureyri. En nú hefur hún kvatt þetta jarðlíf. Hún átti sína drauma og þrár eins og flestir, en hlutskipti hennar varð samt sem áður að lifa lífinu við uppeldi fósturbarna sinna, þó svo að hún hafi aldrei litið svo á að draumar hennar hefðu ekki ræst. Við sem kynntumst henni sáum og fundum að hún unni börnunum og vildi allt fyrir þau gera og gerði það á sinn hátt, barnabörnin hennar áttu einnig stóran hluta af hjarta hennar.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka fyrir samfylgdina og hversu góð amma hún var börnum og barnabörnum mínum. Við söknum hennar.

Fjölskylda Selmu þakkar starfsfólki á Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir atlætið sem hún fékk þar síðustu æviárin.

Hvíl í friði, elsku Selma mín.

Þín

Hulda.

Sálarstyrkur er orðið sem kemur upp í huga mínum þegar ég nú minnist tengdamóður minnar, Selmu Böðvarsdóttur.

Selma fæddist vorið eftir frostaveturinn mikla, 1918 og á langri ævi hefur hún oft þurft á styrk að halda.

Hún átti við erfið veikindi að stríða í barnæsku. Hún fékk Akureyrarveikina og hún fékk berkla. Minningin um það þegar faðir hennar bar hana, þá ófæra til gangs, út á bæjarvegginn á Melum til að njóta veðurblíðunnar og sólarinnar var Selmu kær.

Það varð Selmu ekki fórn að taka við ungum börnum systur sinnar, Kristínar þegar hún féll frá. Hún talaði aldrei um það. Hún tók við heimilinu og börnunum, og síðar tengdabörnum og barnabörnum. Hún sinnti öllu amstrinu og deildi gleði og sorgum allra með sínu eilífa jafnaðargeði og sálarstyrk.

Selmu varð erfitt að missa Björgvin, hann lést árið 1972 og hún var einmana. En hún vann í Norðurstjörnunni, átti gott samband við vinnufélagana, skemmti sér með þeim og átti góðar stundir.

Hjá Selmu og Björgvini bjuggu margir um lengri eða skemmri tíma. Við Böðvar bjuggum hjá þeim fyrsta árið í okkar búskap og Stefnir sonur minn átti athvarf á skólagöngu sinni hjá Selmu eftir að hún var orðin ein á Hraunbrúninni. Þá var spilað og spjallað eins og enginn væri morgundagurinn. Selma festi síðar kaup á fallegri íbúð að Hjallabraut 33 í Hafnarfirði. Hún hlúði að blómunum sínum, spilaði vist, púslaði og las, og undi hag sínum, þar til að hún flutti á Hrafnistu fyrir 5 árum.

Það varð Selmu þungbært þegar Böðvar lést af slysförum árið 1999, en hún bar sorg sína ekki á torg.

Í erfiðum veikindum á liðnum vetri setti hún sér það markmið í gamni, hún var alltaf að grínast, að ná 94 ára aldri eins og Boggu frænku á Akureyri hafði tekist á sínum tíma og auðvitað tókst Selmu það líka.

Síðustu stundirnar sem hún lifði, þegar hún átti svo erfitt með að anda og tala, var hún enn að grínast. Hún fékk að halda andlegri reisn fram á síðustu stundu og fyrir það skal þakkað.

Fyrir mína hönd og barna minna þakka ég Huldu og Stefáni sem hafa annast Selmu og hennar mál undanfarin ár af alúð. Einnig þökkum við einstaka umönnun starfsfólks Hrafnistu.

Guð geymi ömmu Selmu.

Anna Nína Stefnisdóttir.

Blessuð vertu ávallt Selma amma, eins og við kölluðum þig á okkar heimili.

Ég kynntist Selmu sem fimm ára drengur, um svipað leyti og brúðkaup móður minnar og fósturföður bar við. Og urðum við Selma strax mestu mátar, strákar á þessum aldri þurfa alltaf að vera að maula eitthvað og aldrei þreyttist Selma við að smyrja ofan í drenginn, gefa honum sódakökur sem voru af alveg sérstökum gæðum að ógleymdri röndóttu kökunni sem allir slógust um.

Við bjuggum fyrstu búskaparár foreldra minna hjá Selmu og Björgvin, og á þessum árum var ég oft einn hjá Selmu og eyddum við flestum kvöldum við að spila rússa og lönguvitleysu sem hún kenndi mér, og höfðum við margar góðar og eftirminnilegar stundir saman í litla eldhúsinu á Hraunbrúninni í Hafnarfirði, sem við og endurnýjuðum þegar ég fór til náms í Iðnskólanum í Hafnarfirði sextán ára, og nokkuð fyrirferðarmikill unglingur.

Í minningunni er þessi vetur hjá Selmu með betri minningum lífsins, Selma alltaf boðin og búin að veita styrk, ást, umhyggju og góðan félagsskap.

Seinna meir þegar mér sjálfum auðnaðist sú lukka að eignast eigin börn var Selma alltaf með allt á hreinu um börnin, hvernig þau döfnuðu og þroskuðust og þótti mér innilega vænt um það.

Líf Selmu hefur áreiðanlega ekki alltaf verið létt, veikindi í æsku sem tóku mikið af hennar krafti og að taka við búi og börnum Kristínar systur sinnar sem lést frá ungum börnum sínum og tók hún öllu þessu með jafnaðargeði, aldrei heyrðist hún kvarta yfir hlut sínum.

Maður getur endalaust hugsað aftur í tímann um allar góðu stundirnar með þér, kæra Selma amma, og hvað manni þótti sárt að sjá hversu fljótt hallaði undan fæti síðustu árin þín.

Vertu blessuð amma og haltu áfram að söngla söngvana þína sem mér þótti svo vænt um á þínum nýja áfangastað. Þú verður ávallt geymd á besta stað í minningu minni.

Að lokum vil ég þakka Stebba og Huldu fyrir alla þeirra ást og fórnfýsi við umönnun og hjálp við Selmu ömmu, það eru ekki öllum gefið að vera góði Samverjinn.

Guð veri með þér og geymi þig, amma Selma. Og kær kveðja frá Böðvari Frey, Freyju Sif, Runólfi Stefni og Margréti.

Stefnir Þór Kristinsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.