Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali, fæddist 24. maí árið 1837. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem gerði ljósmyndun að lífsstarfi og er jafnan nefndur faðir íslenskrar ljósmyndunar.

Sigfús Eymundsson, ljósmyndari og bóksali, fæddist 24. maí árið 1837. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem gerði ljósmyndun að lífsstarfi og er jafnan nefndur faðir íslenskrar ljósmyndunar.

Sigfús var með mörg járn í eldinum og stofnaði meðal annars bókabúðina Eymundsson sem enn í dag er starfrækt.

Sigfús hafði upphaflega farið til Kaupmannahafnar og Bergen til framhaldsnáms í bókbandi. Í Bergen var meistari hans jafnframt ljósmyndari og lærði Sigfús hjá honum.

Í rúm 40 ár eða allt til ársins 1909 rak hann ljósmyndastofu í Reykjavík á horni Austurstrætis og Lækjargötu sem lengi vel var ein elsta varðveitta götumynd borgarinnar, en hornið var jafnan kallað Eymundssonarhornið.

Ljósmyndastofa hans var eftirsótt því ljósmynd á heimili var ákveðið stöðutákn. Sigfús nýtti sér möguleika ljósmyndarinnar til fjöldaframleiðslu og aflaði sér tekna með því að framleiða myndir af köppum úr fornsögunum, embættismönnum, skáldum og þjóðfrelsishetjum.

Mannamyndir Sigfúsar mótuðu stefnuna hér á landi í gerð slíkra ljósmynda auk þess sem hann var duglegur að fara á meðal fólks og mynda alþýðuna við störf.

Sigfús tók meðvitað þjóðernislegar ljósmyndir og bjó þannig til ákveðna ímynd af Íslendingum. Landslag og náttúra hafa verið áberandi viðfangsefni í íslenskri ljósmyndun, rétt eins og í myndlistinni. Sigfús ljósmyndaði landslag á klassískan hátt og seldi erlendum ferðamönnum myndirnar áratugum áður en „frumherjarnir“ í landslagsmálun komu til sögunnar. Segja má að hann sé fyrsti Íslendingurinn sem sá möguleikann í landkynningu í gegnum ljósmyndun.

Fjöldi ljósmynda Sigfúsar hefur varðveist og haldnar hafa verið sýningar á myndum hans, þær má skoða meðal annars á vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Sigfús Eymundsson lést 1911.