Dúxinn Ólafur Jóhann Ólafsson við útskriftina úr MR.
Dúxinn Ólafur Jóhann Ólafsson við útskriftina úr MR.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enginn nær góðum árangri nema að hafa mjög góða kennara.

Ég stefndi ekki sérstaklega að því að slá neitt met enda varð mér ekki ljóst fyrr en allra síðustu daga hvert stefndi,“ sagði Ólafur Jóhann Ólafsson sem brautskráðist frá Menntaskólanum í Reykjavík á þessum degi fyrir þrjátíu árum með hæstu aðaleinkunn sem gefin hafði verið í sögu skólans frá því að tugakerfið var tekið upp, 9,67.

„Enginn nær góðum árangri nema að hafa mjög góða kennara og vil ég ekki síst þakka þeim þennan árangur,“ sagði Ólafur Jóhann ennfremur við Morgunblaðið en hann sló 25 ára gamalt met Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors sem hlaut meðaleinkunnina 9,66 á sínum tíma. Við skólaslitaathöfn MR, sem fram fór í Háskólabíói, tók Ólafur Jóhann á móti verðlaunum fyrir ágætisárangur í eðlisfræði, dönsku, sagnfræði, stærðfræði og þýsku, hlaut gullpenna úr Gullpennasjóði fyrir ritgerðarsmíð og auk þess verðlaun fyrir að vera með hæstu aðaleinkunn skólans og á stúdentsprófi.

Lokaveturinn í MR var Ólafur Jóhann formaður listafélags skólans en á vegum þess voru meðal annars haldnir tónleikar, bókmenntasamkomur og gerð kvikmynd um Menntaskólann í Reykjavík.

Í samtalinu í Morgunblaðinu, daginn eftir útskriftina, kom fram að Ólafur kunni mjög vel við sig í MR og „vill að hann verði varðveittur sem best í sinni mynd í öllu því umróti sem á sér stað á vorum dögum“.

Ennfremur kom fram að Ólafur Jóhann hefði fengið styrk til náms við Brandeis-háskólann í Boston og hugðist hann halda þangað um haustið til að nema eðlisfræði og stærðfræði næstu þrjú árin.

Ólafur Jóhann lauk prófi frá Brandeis-háskólanum 1985 og hefur sem kunnugt er ílenst í Bandaríkjunum. Hann gegndi ýmsum störfum hjá Sony-fyrirtækinu frá 1986, þar á meðal lykilstöðum, og er nú ráðgjafi hjá Time Warner. Ólafur Jóhann er ekki síður kunnur fyrir ritstörf sín en hann hefur um árabil verið í hópi söluhæstu rithöfunda þjóðarinnar. Fyrsta bókin, smásagnasafnið Níu lyklar, kom út árið 1986 þegar Ólafur Jóhann var aðeins 24 ára. Af öðrum bókum hans má nefna Fyrirgefningu syndanna, Slóð fiðrildanna og Höll minninganna. Þá hefur hann skrifað leikritin Fjögur hjörtu og Sniglaveisluna. Kvikmyndarétturinn á Slóð fiðrildanna hefur verið seldur til Hollywood.

Ólafur Jóhann á ekki langt að sækja skáldgáfuna en hann er sonur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar (1918-1988), sem var einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar á sinni tíð, og eiginkonu hans, Önnu Jónsdóttur. Ólafur Jóhann er kvæntur Önnu Ólafsdóttur og eiga þau tvö börn.

Met Ólafs Jóhanns stóð ekki nema eitt ár en vorið 1983 brautskráðist Gylfi Zoëga frá MR með aðaleinkunnina 9,68. Það met sló Jóel Karl Friðriksson árið 1999, þegar hann gerði sér lítið fyrir og hlaut 9,88. Eyvindur Ari Pálsson bætti um betur þegar hann náði 9,89 árið 2003 og núverandi met á Höskuldur Pétur Halldórsson en hann fékk 9,90 í aðaleinkunn á stúdentsprófi árið 2005.

Lauk stúdentsprófi á hálfu þriðja ári

Fleiri framhaldsskólanemar náðu eftirtektarverðum árangri vorið 1982 en við hlið viðtalsins við Ólaf Jóhann í Morgunblaðinu er rætt við Friðrik Skúlason sem var þá að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð á tveimur og hálfu ári. Var sá árangur án fordæmis.

Í samtalinu kvaðst Friðrik ekki hafa séð ástæðu til að dvelja lengur við menntaskólanám, heldur viljað hraða námi sínu svo hann gæti byrjað í tölvufræðinámi við Háskóla Íslands þá um haustið. „Ég hefði viljað létta á takmörkunum á hámarkstímafjölda og hafa skólakerfið opnara og frjálsara en það er,“ sagði Friðrik.

Hann lauk 136 einingum í skólanum og hlaut bókaverðlaun fyrir ágætan árangur í tölvunarfræði og skyldum greinum en um 80% einkunna hans voru A.

orri@mbl.is