17. júní í Kaupmannahöfn fyrir um þremur áratugum.
17. júní í Kaupmannahöfn fyrir um þremur áratugum.
Veturinn 1954-1955 var vísnaþátturinn „Já eða nei“ á dagskrá í Ríkisútvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Var hann tekinn upp í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (þar sem nú er veitingastaðurinn Nasa) að viðstöddum áheyrendum.

Veturinn 1954-1955 var vísnaþátturinn „Já eða nei“ á dagskrá í Ríkisútvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Var hann tekinn upp í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (þar sem nú er veitingastaðurinn Nasa) að viðstöddum áheyrendum. Þar leiddu fjórir hagmæltir menn saman hesta sína, þeir Steinn Steinarr, Guðmundur Sigurðsson, Helgi Sæmundsson og Karl Ísfeld. Botnuðu þeir fyrri helminga sem hlustendur sendu inn.

Einn fyrri helmingurinn var á þessa leið:

Margur oft í heimi hér

harma sína rekur,

en Steinn botnaði óðar:

gáir lítt að sjálfum sér

og síðan víxil tekur.

Þættirnir nutu mikilla vinsælda, og komu vísurnar úr honum út á bók með sama nafni, Já eða nei . Þegar þeir voru að renna skeið sitt á enda, tilkynnti Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, að félagið byði þátttakendunum fjórum og stjórnandanum til Kaupmannahafnar til að taka upp einn þátt.

Í Kaupmannahöfn var efnt til vísnakeppni í Íslendingafélaginu 14. maí 1955, þar sem viðstaddir spreyttu sig á að botna fyrri helming, sem Sveinn Ásgeirsson kastaði fram:

Oft er kátt við Eyrarsund,

æskan þangað leitar.

Þótt sjálfur höfuðsnillingurinn Jón Helgason prófessor spreytti sig í keppninni, varð hann að deila fyrstu verðlaunum með ungri stúlku, Vilborgu Dagbjartsdóttir, sem mælti fram seinni helminginn:

Þó mun Ísland alla stund

elskað miklu heitar.

Má af því tilefni rifja upp orð Árna Pálssonar prófessors: „Hvergi hefur Ísland verið elskað eins og í Kaupmannahöfn.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is